Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 6. desember 2018

11/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 6. desember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jón Ólafsson (varamaður fyrir Guðrúnu Geirsdóttur), Ólafur Pétur Pálsson og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Valdimar Víðisson, Ragna Árnadóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.

1. Setning fundar.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ingibjörg Gunnarsdóttir óskaði eftir að ræða lið 9i. Ekki voru gerðar aðrar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“og skoðast liðir 9a-9h samþykktir.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu. 

a) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Staða mála.

Guðmundur greindi frá stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Þriðja umræða um frumvarpið stendur fyrir dyrum á Alþingi. Málið var rætt.

b)    Deililíkan. Drög tillögu að breytingu.

Guðmundur gerði grein fyrir drögum að tillögu fjármálanefndar háskólaráðs um breytingu á deililíkani Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og rektor spurningum ráðsmanna.

– Fjármálanefnd falið að vinna áfram að útfærslu breytts deililíkans. Málið kemur til afgreiðslu háskólaráðs eftir áramót, samhliða fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2019, sbr. lið 2c.

c) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2019. Staða mála.

Guðmundur greindi frá stöðu mála við gerð fjárhagsáætlunar Háskóla Íslands fyrir árið 2019. 

d) Kjaramál. Staða mála.

Guðmundur reifaði stöðu mála varðandi áherslur kjarafélaga starfsmanna Háskóla Íslands í aðdraganda komandi kjarasamningagerðar. 

Guðmundur vék af fundi.

3. Niðurstöður 22. háskólaþings 7. nóvember 2018.

Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum háskólaþings 7. nóvember sl. þar sem m.a. var fjallað um endurskoðun matskerfis opinberu háskólanna og skipulag háskólasvæðisins.

4. Innleiðing Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.

Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu HÍ21, stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Steinunn vék af fundi.

5. Skipulag háskólasvæðisins. Málefni stúdentagarða, sbr. fundi ráðsins 7. júní sl. og 1. nóvember sl., sbr. einnig háskólaþing 7. nóvember sl. Staða mála.

Inn á fundinn komu Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs og Guðmundur R. Jónsson. Sigríður gerði grein fyrir stöðu mála og framtíðaráformum varðandi skipulag háskólasvæðisins. Fyrir fundinum lá áætluð tímalína vegna mögulegrar byggingar stúdentagarða á lóð Háskóla Íslands við Gamla garð. Málið var rætt og svöruðu rektor, Sigríður og Guðmundur spurningum ráðsmanna. Framkvæmda- og tæknisvið mun vinna áfram að málinu í samræmi við tímalínu sem fyrir liggur.

Sigríður og Guðmundur viku af fundi.

6. Gæðamál.

a) Framkvæmd annarrar lotu gæðaúttekta (QEF2), skv. rammaáætlun Gæðaráðs háskóla 2017-2024.

b) Undirbúningur ytri úttektar Gæðaráðs á Háskóla Íslands í heild.

Inn á fundinn kom Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri Háskóla Íslands og gerði ásamt Jóni Ólafssyni, formanni gæðanefndar háskólaráðs, sem sat fundinn sem varafulltrúi í háskólaráði, grein fyrir stöðu mála varðandi framkvæmd annarrar lotu rammaáætlunar Gæðaráðs háskóla og undirbúning ytri úttektar á Háskóla Íslands sem fram fer 2019-2020. Málið var rætt og svöruðu Áslaug og Jón spurningum ráðsmanna. 

Áslaug vék af fundi.

7. Innri endurskoðun: Skýrsla um gjaldeyrisreikninga Háskóla Íslands.

Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi. Gerði hún grein fyrir skýrslu sinni um gjaldeyrisreikninga Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Ingunn framkomnum spurningum.

Ingunn vék af fundi.

– Samþykkt einróma að vísa tillögum og ábendingum skýrslunnar til eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda.

8. Kynning á starfsemi Hugvísindasviðs. Guðmundur Hálfdanarson, forseti sviðsins.

Inn á fundinn kom Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna

9. Bókfærð mál.

a) Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar greinar.

– Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2019-2020 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2018-2019) sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010:

I. Heilbrigðisvísindasvið
a. Læknadeild
− Læknisfræði 54 (50)
− Sjúkraþjálfunarfræði, BS 35 (35)
− Sjúkraþjálfun, MS 30 (30)
– Geislafræði 12 (12)
– Talmeinafræði, MS - (15, 2018-2019)
b. Hjúkrunarfræðideild
− Hjúkrunarfræði 120 (120)
− Ljósmóðurfræði 12 (12)
c. Tannlæknadeild
− Tannlæknisfræði 8 (8)
− Tannsmiðanám 5 (5)
d. Sálfræðideild
− Hagnýt sálfræði, MS, klínísk, (áður cand. psych.) 20 (20)
− Hagnýt sálfræði, MS, megindleg, skóli og þroski, samfélag og heilsa 15 (15)
e. Lyfjafræðideild
− MS nám í klínískri lyfjafræði 2 (2)
f. Matvæla- og næringarfræðideild
− MS nám í klínískri næringarfræði 2 (2)
II. Félagsvísindasvið
a. Stjórnmálafræðideild
− MA nám í blaða- og fréttamennsku 21 (21)
b. Félags- og mannvísindadeild
− MA nám í náms- og starfsráðgjöf 40 (40)
c. Félagsráðgjafardeild
− MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 40 (30)
d. Lagadeild
− Lögfræði 100 (100)
e. Viðskiptafræðideild
− MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun 14 (14)

b) Stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Fyrir liggja eftirtaldar tilnefningar stjórnarmanna í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fyrir tímabilið 1.1.2019-31.12.2022: Karl G. Kristinsson, prófessor, tilnefndur af Læknadeild, Zophonías Oddur Jónsson, prófessor, tilnefndur af Raunvísindadeild og Líf- og umhverfisvísindadeild, Heiða Sigurðardóttir, lífeindafræðingur tilnefnd af starfsmönnum tilraunastöðvarinnar, NN, tilnefnd(ur) af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra [ókomið] og NN, tilnefnd(ur) af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra [ókomið]. 

– Samþykkt að fela rektor að ganga frá skipun stjórnarinnar er allar tilnefningar hafa borist.

c) Skipan heiðursdoktorsnefndar.

Fyrir liggja eftirtaldar tilnefningar í heiðursdoktorsnefnd Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.1.2019-31.12.2021: Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild, skipaður án tilnefningar, formaður, Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild, tilnefnd af Félagsvísindasviði. Til vara: NN [ókomið]; Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði. Til vara: NN [ókomið]; Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Raunvísindastofnun, tilnefnd af Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Til vara: Sigurður Brynjólfsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild; Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild, tilnefnd af Hugvísindasviði. Til vara: NN [ókomið]; Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika, tilnefndur af Menntavísindasviði. Til vara NN [ókomið].

– Samþykkt að fela rektor að ganga frá skipun nefndarinnar er allar tilnefningar hafa borist.

d)    Skipun formanns kærunefndar í málefnum nemenda ad-hoc.

– Samþykkt. Ægir Guðbjarni Sigmundsson, lögfræðingur á vísinda- og nýsköpunarsviði, er skipaður formaður kærunefndar í málefnum nemenda ad-hoc til að fjalla um tiltekið mál er borist hefur.

e) Frá Menntavísindasviði: Tillaga um stofnun nýrrar námsleiðar, viðbótardiplómu í faggreinakennslu, 60 einingar, í Deild faggreinakennslu.

– Samþykkt.

f) Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 84. gr. reglna nr. 569/2009 er varðar meistaranám í mannfræði (Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild), þ.e. sameiningu á meistaranámi í þróunarfræðum og hnattrænum tengslum, auk tveggja nýrra námsleiða.

– Samþykkt.

g) Frá Félagsvísindasviði: 1) Tillaga að breytingu á 92. grein reglna (varðar Stjórnmálafræðideild). 2) Tillaga að breytingu á inntökuskilyrðum í grunnnám við Hagfræðideild (varðar niðurfellingu reglna nr. 188/2012 um inntöku nýnema í Hagfræðideild).

– Samþykkt.

h) Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga um að fella niður A-próf sem inntökupróf í grunnnám við Hjúkrunarfræðideild, sbr. reglur 24/2015.

– Samþykkt.

i) Endurnýjað samstarfssamkomulag HÍ og LSH.

– Samþykkt. Ingibjörg Gunnarsdóttir benti á að tryggja þurfi gott upplýsingaflæði innan Háskóla Íslands og Landspítalans um þau verkefni og viðfangsefni sem eru í gangi á hverjum tíma.

10. Mál til fróðleiks.

 1. Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum.
 2. Vinna stýrihóps rektors um innleiðingu nýrra reglna ESB um persónuvernd á vettvangi Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 7. júní sl. Minnisblað um stöðu mála.
 3. Glærur rektors frá opnum fundi með starfsfólki Háskóla Íslands 27. nóvember sl.
 4. Greinargerð valnefndar vegna viðurkenningar til þriggja starfsmanna Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi.
 5. Varafulltrúar í stjórn Endurmenntunarstofnunar.
 6. Fréttabréf háskólavina, 5. tbl. 21. nóvember 2018.
 7. Fundaröð um nýsköpun. Fyrirlesturinn “Frá hugljómun til hagnýtingar” 22. nóvember sl.
 8. Evrópska rannsóknarverkefnið Sound of Vision, sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa haft forystu um, keppir til úrslita um Nýsköpunarverðlaun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018.
 9. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.
 10. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og þrír samstarfsmenn hans verðlaunaðir fyrir bestu vísindagreinina í alþjóðlega vísindatímaritinu International Journal of Image and Data Fusion árin 2016-2018.
 11. Nýir matslistar Times Higher Education staðfesta alhliða styrk Háskóla Íslands.
 12. Rannsóknarteymi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur hlotið hartnær 100 m.kr. styrk frá Evrópusambandinu til að þróa námsefni og bæta námsumhverfi í grunnskólum.
 13. Prófessorar við Háskóla Íslands í hópi áhrifamestu vísindamanna heims.
 14. 63 nýir doktorar heiðraðir á fullveldisdaginn í Háskóla Íslands.
 15. Háskóli Íslands áfram í hópi 200 bestu háskóla heims.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 15.50.