Skip to main content

Stefna um opinn aðgang

Stefna Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum ásamt verklagsreglum. Rætt á 10. háskólaþingi 19. apríl 2013 og samþykkt í háskólaráði 6. febrúar 2014.

Háskóli Íslands leggur áherslu á að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er innan háskólans. Háskólinn hvetur því starfsmenn til að birta fræðigreinar sínar á vettvangi þar sem aðgangur er opinn, svo sem í tímaritum í opnum aðgangi, safnvistun, forprentagrunnum, eða á annan hátt. Stefna Háskóla Íslands um opinn aðgang tekur ekki til bóka eða bókarkafla.

Starfsmenn skulu veita vísinda- og nýsköpunarsviði án endurgjalds rafrænan aðgang að lokaútgáfu vísindagreina sinna ekki seinna en við birtingu. Þetta má gera með því að afhenda greinarnar á viðeigandi formi (svo sem PDF), senda krækju á veffang opins aðgangs að greinunum, eða á annan viðeigandi hátt. Háskóla Íslands er heimilt að vista greinarnar og gera þær aðgengilegar í opnu rafrænu varðveislusafni. Gildir þetta um allar vísindagreinar ritaðar af starfsmönnum háskólans, einum eða með fleiri höfundum, á þeim tíma sem þeir eru ráðnir við háskólann.

Undanskildar eru vísindagreinar sem lokið var við fyrir gildistöku þessarar samþykktar og greinar sem vinna var hafin við fyrir gildistökuna og um gilda skilmálar sem ekki falla að samþykktinni.

Vísinda- og nýsköpunarsviði er jafnframt heimilt að undanskilja einstakar vísindagreinar frá samþykktinni, eða seinka birtingu þeirra um tiltekinn tíma, beri viðkomandi starfsmaður fram rökstudda skriflega ósk þess efnis, sbr. verklagsreglur þar um.

Afrakstur vísindastarfs innan Háskóla Íslands kemur einnig fram í lokaverkefnum stúdenta, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Skólinn leggur áherslu á að þessi verkefni séu gerð öllum aðgengileg eftir því sem kostur er. Um rafræn skil lokaritgerða gildir samþykkt háskólaráðs frá 21. febrúar 2008 og viðeigandi ákvæði í reglum Háskóla Íslands.

Vísinda- og nýsköpunarsvið ber ábyrgð á túlkun stefnu og verklagsreglna um birtingar í opnum aðgangi, lausn ágreiningsmála og gerir tillögu um endurbætur þegar við á. Kennslusvið ber ábyrgð á túlkun og lausn ágreiningsmála þegar um lokaverkefni stúdenta er að ræða.

Stefna þessi og viðeigandi verklagsreglur verða endurskoðuð innan þriggja ára og greinargerð um framkvæmdina kynnt fyrir háskólaráði.