Stefna um opinn aðgang | Háskóli Íslands Skip to main content

Stefna um opinn aðgang

Í stefnu HÍ til ársins 2026 (HÍ26) kemur fram að Háskólinn skuli móta sér skýra sýn sem styður við þverfræðilegt starf og aukin áhrif rannsókna. Jafnframt verður mótuð heildstæð sýn um siðferði vísinda og rannsóknir innan skólans gerðar sýnilegri með það fyrir augum að styðja þverfaglegt rannsóknasamstarf.  Til að ná þessum markmiðum verður unnið að opnum aðgangi að rannsóknagögnum og niðurstöðum.  

Háskóli Íslands er og vill vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi. Vísindafólk sem starfar við Háskólann birtir verk sín á alþjóðlegum vettvangi og fylgir þeim reglum sem gilda um birtingar á vísindalegu efni, sem og kröfum sem fræðasamfélagið og Háskólinn gera um áreiðanleika og heiðarleg vinnubrögð. 

Gögn sem aflað hefur verið í rannsóknastarfi Háskóla Íslands eru mikilvægur grunnur að þekkingarsköpun sem leiðir til framþróunar á öllum sviðum íslensks samfélags. Háskóli Íslands telur brýnt að vísindasamfélagið hafi eins greiðan aðgang að þessum gögnum og unnt er.  

Meginreglan er að gögn verði eins opin og mögulegt er, en eins lokuð og nauðsyn krefur. 

Háskólinn ber ríka ábyrgð á að varðveita rannsóknagögn til framtíðar og haga varðveislu þeirra þannig að þau standist alþjóðlegar kröfur og uppfylli FAIR skilyrði, það er að þau séu:

  • finnanleg
  • aðgengileg
  • samkeyranleg og
  • endurnýtanleg

Háskólinn tekur jafnframt tillit til þess að venjur um meðhöndlun gagna og hvernig þeim er deilt eru mismunandi eftir viðfangsefnum og aðstæðum. Þannig geta persónuverndarmál eða viðskiptahagsmunir réttlætt undantekningar til lengri eða skemmri tíma frá meginreglunni um opin gögn.  

Markmiðum um opin vísindi verður því aðeins náð að starfsfólk Háskóla Íslands hafi aðgang að traustum innviðum fyrir varðveislu gagna og aðstoð við gerð lýsigagna þannig að tryggja megi að gögnin verði FAIR.

Þeim sem stýra rannsóknaverkefnum, stórum sem smáum, ber frá upphafi að gera gagnaáætlun sem er reglulega uppfærð þar til verkefni lýkur og gögnum er fargað eða komið til varanlegrar og eftir atvikum opinnar varðveislu. 

Háskólinn mun á gildistíma stefnunnar vinna markvisst að eflingu rafrænna innviða og stoðþjónustu til að þessi markmið náist og tryggja að vísindafólk geti staðið við kröfur styrkveitenda og vísindatímarita um meðferð gagna og opið aðgengi að þeim. Jafnframt er stefnt að því að auka þjónustu innan Háskólans við gerð gagnaáætlana og lýsigagna. 

Gagnaþjónusta Félagsvísindasviðs Háskóla Ísland, GAGNÍS, sem stofnuð var árið 2018 veitir starfsfólki HÍ þjónustu og aðstoð við að koma gögnum sínum í opinn aðgang. GAGNÍS mun ásamt öðrum opnum gagnasöfnum HÍ gegna lykilhlutverki í að efla þjónustu á sviði opinna vísinda innan Háskólans.  

Í samræmi við verkefnastofn númer sjö í HÍ 26, sem meðal annars er um opin vísindi  ber vísinda- og nýsköpunarsvið ábyrgð á nánari útfærslu og endurskoðun á heildarstefnu um opin vísindi í umboði rektors og í samvinnu við stýrihóp HÍ 26, vísindanefnd, fræðasvið og upplýsingatæknisvið.