Skilyrði fyrir skiptinámi | Háskóli Íslands Skip to main content

Skilyrði fyrir skiptinámi

Netspjall

Hægt er að fara sem skiptinemi í grunn- og framhaldsnámi í flestum námsgreinum. Misjafnt er eftir námsgrein hvenær heppilegast er að fara í skiptinám og mikilvægt að hafa samráð við forsvarsmann eða alþjóðafulltrúa í viðkomandi grein. Grunnnemar þurfa að hafa lokið a.m.k. einu ári (eða 60 ECTS einingum) af námi sínu við Háskóla Íslands áður en skiptinám hefst. Nemendur á fyrsta ári geta því sótt um skiptinám og farið út á öðru ári að því tilskildu að þeir hafi lokið 60 ECTS einingum áður en nám við gestaskólann hefst.

Í sumum námsgreinum þarf að hafa lokið meira en einu ári af náminu áður en farið er í skiptinámið og í sumum greinum er eingöngu í boði að fara í skiptinám á framhaldsstigi.

Nemendur sem eru að hefja meistara- eða doktorsnám geta farið í skiptinám strax á fyrsta misseri námsins, en eins og alltaf þarf að liggja fyrir samþykki deildar og doktorsleiðbeinenda ef við á.

Hvort sem farið er í skiptinám í grunn- eða framhaldsnámi þurfa nemendur að taka a.m.k. helming námsins við Háskóla Íslands og útskrifast þaðan. Hægt er að sækja um að fara í skiptinám í eitt misseri eða fleiri, þó að hámarki eitt skólaár sem hluti af hverri námsgráðu. Lágmarksdvöl í Erasmus+ er 3 mánuðir og hámarksdvöl 12 mánuðir. Í Nordplus er lágmarksdvöl 1 vika og hámarksdvöl 12 mánuðir. Í öðrum áætlunum er hægt að sækja um eitt misseri eða fleiri. Mögulegt er að fara í skiptinám að sumri til ef gestaskóli býður upp á námskeið opin skiptinemum.

Í skiptinámi er gert ráð fyrir að nemendur séu í fullu námi þ.e. 30 ECTS einingum á misseri.

Athuga þarf að skólaár og skipting missera er oft önnur erlendis en hér heima. Í flestum löndum Evrópu hefst haustmisseri í byrjun september eða október og vormisseri í byrjun janúar eða febrúar og lýkur í lok júní/júlí. Í Þýskalandi og Póllandi hefst haustmisseri oftast í október og stendur fram í mars og vormisseri hefst í apríl og stendur fram í lok ágúst.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.