Skip to main content

Almenn rannsókna- og vöktunarverkefni

Setrið hefur umsjón með og tekur þátt í ýmsum verkefnum er snúa að mengunarvöktun við Ísland. Þar má nefna umsjón með kræklingasöfnun á landsvísu vegna AMSUM mengunarvöktunar Umhverfisstofnunar á lífríki hafsins við Ísland, rannsóknir á falskyni (imposex) hjá nákuðungum af völdum lífrænna tinsambanda úr botnmálningu skipa og athuganir á örplasti í sjávarlífverum við Ísland.

Af öðrum verkefnum má nefna kræklingavöktun við iðjuverin á Grundartanga í Hvalfirði og við álver ISAL í Straumsvík, rannsóknir á lífríki Vogavíkur og við Kalmanstjörn á Reykjanesi í tengslum við stækkun fiskeldis Stofnfisks ehf., úttekt á botndýralífi við Þerney og Álfsnes í Reykjavík vegna fyrirhugaðrar starfsemi Björgunar ehf. og rannsóknir á umhverfisáhrifum fiskeldis í Berufirði og á Vestfjörðum.

Að auki hefur setrið rannsakað mengun Reykjavíkurtjarnar og áhrif þeirrar mengunar á hornsíli í tjörninni.  

Setrið hefur til umráða vel útbúinn rannsóknabát, Sæmund fróða RE 32 (9 metra langur fyrir 8 manns), sem nýtist afar vel í margskonar rannsókna- og þjónustuverkefni.