Fyrrverandi starfsfólk | Háskóli Íslands Skip to main content

Fyrrverandi starfsfólk

Fyrrverandi starfsfólk - á vefsíðu Háskóla Íslands

Skólabæjarhópur

Mannauðssvið í samstarfi við Skólabæjarnefnd, stendur fyrir morgunfundum fyrir starfsfólk Háskóla Íslands sem hefur hætt störfum vegna aldurs eða annarra ástæðna. Er þetta ,,opið hús “ annan miðvikudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann frá kl. 10 til 12.

Þar gefst fólki tækifæri til að hitta fyrrum vinnufélaga og spjalla yfir kaffi og meðlæti auk þess að fræðast um hin ýmsu málefni góðra gesta sem tengjast háskólanum og samfélaginu.

Fundirnir eru haldnir í fundarsal safnaðarheimilis Neskirkju, nema annað sé tekið fram.

Fyrrum starfsmönnum er velkomið að skrá sig í hópinn með því að fylla út eyðublað.

Fundirnir eru fyrrum starfsmönnum og mökum þeirra að kostnaðarlausu en nauðsynlegt er að tilkynna um þátttöku í síma 525-4000 eða til upplýsingaskrifstofu HÍ á netfangið eis@hi.is eða hi@hi.is

Skólabæjarhópur heldur úti Facebook-síðu þar sem fundir eru auglýstir. 

Sögulegar upplýsingar um Skólabæ

Hjónin Jón E. Ólafsson hæstaréttarlögmaður (f. 1893, d. 1982) og Margrét Jónsdóttir (f. 1890, d. 1965) ákváðu á sínum tíma að gefa Háskólanum húseign sína Skólabæ, vandað íbúðarhús að Suðurgötu 26 ásamt gömlu timburhúsi, sem stendur á sömu lóð. Er gjafabréf frá hendi Jóns dagsett 12. janúar 1972. Jón Ólafsson var kunnur borgari í Reykjavík á sinni tíð, austfirskur að uppruna. Hann lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1923, síðastur íslenskra lagamanna, starfaði við lögfræðistörf í Kaupmannahöfn um hríð, en í Reykjavík frá 1926. Hann var lengi forstjóri líftryggingafélagsins Andvöku og forstjóri Samvinnutrygginga 1954-1958. Margrét kona hans var dóttir síðustu ábúenda í Skólabæ í Reykjavík, hjónanna Jóns Valdasonar og Sigríðar Jónsdóttur. 

Eftir að biskupsstóll og skóli var lagður niður í Skálholti var reist hús fyrir lærðan skóla í Reykjavík. Var í fyrstu ætlunin að reisa það á Austurvelli, en frá því var horfið sökum þess hve jarðvegur þar þótti mýrlendur og var húsið byggt efst á svokölluðum Hólavelli, í námunda við gamlar hjáleigur frá Vík, Hólakot og Melshús, sem stóðu í brekkunni vestur af Tjörninni, en voru nú lagðar undir skólann. Stóð skólahúsið þar sem nú er húsið Suðurgata 20, bak við megin-húsalínuna (það hús reisti dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður árið 1903). Hólavallaskóli tók til starfa 1786. Skólahald þar gekk afar illa, svo sem kunnugt er, og húsið hélt hvorki vatni né vindi. Skóli var lagður niður þar 1804 en fluttur til Bessastaða árið eftir. Í húsi Hólavallaskóla fór m.a. fram fyrsta leiksýning í Reykjavík 1791 (er var upphaf Herranætur, sem nú er kennd við Menntaskólann í Reykjavík), þar hélt Alþingi hið forna síðustu fundi sína 1799 og 1800, áður en það var lagt niður, og Landsyfirréttur hafðist þar síðan við til 1807, er hann fékk annað húsnæði, en það ár var skólahúsið á Hólavelli einnig rifið. Skömmu síðar var reistur bær, tómthúsbýli, syðst á lóð skólans og nefndist það býli Skólabær (kennt við skólann). Þar var búið fram á þessa öld og var þar stundum tvíbýli. Frá 1830 til 1880 stóð þar í grennd kornmylla, sem setti mikinn svip á umhverfið. (úr Alfinni hjá VON)

Um 1930 reistu síðan Margrét Jónsdóttir úr Skólabæ og Jón E. Ólafsson, sem gengu í hjónaband 1928, myndarlegt steinhús á lóð Skólabæjar og ber það einnig Skólabæjarnafnið. Þar bjuggu þau hjónin meðan bæði lifðu og Jón síðan á rishæð hússins til dauðadags, þótt það væri þá áður komið í vörslu Háskólans. (Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands, II. bindi, eftir Pál Sigurðsson prófessor).

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Ef þú vilt fá svar frá okkur.
Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.
Skrár verða að vera minni en 2 MB.
Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png.
CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.