Háskólatónleikar | Háskóli Íslands Skip to main content

Háskólatónleikar

Háskólatónleikar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir Háskólatónleikum í Háskóla Íslands. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vormisseri, og fara þeir fram í byggingum háskólans.

Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði, tók við sem umsjónarmaður og listrænn stjórnandi tónleikanna haustið 2020 og styðst hann við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ .

Búast má við alls kyns tónlist á tónleikaröðinni, svo sem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni. Einnig verður sérstök áhersla á að styðja við unga og efnilega listamenn og frumflutningi nýrra verka verður og gert hátt undir höfði.

Tónleikar skólaárið 2021-2022

Ólafur Kram - 13. október á Háskólatorgi

Sigursveit Músíktilrauna í ár, Ólafur Kram, treður upp fyrir gesti og gangandi á Háskólatorgi á fyrstu Háskólatónleikunum þetta starfsárið. Þeir fara fram miðvikudaginn 13. október kl. 12.15. Tónleikunum verður jafnframt streymt. Sveitin, sem er skipuð þeim Iðunni Gígju Kristjánsdóttur, Guðnýju Margréti Eyjólfs, Birgittu Björg Guðmarsdóttur, Eydísi Kvaran og Sævari Andra Sigurðarsyni leikur einslags kammerpönk með vísunum í gamla tíma (Spilverkið, Slits) sem nýja (Chastity Belt t.d.). Það er ómögulegt að hrífast ekki af orkunni, einlægninni og ástríðunni sem fylgir þessari sveit. Lögin eru frumleg, leitandi og hugvitssamlega samsett og textarnir glúrnir, innihaldsríkir og bráðfyndnir. Á sviði er sveitin samhent, allir syngja og gáskinn, gleðin og þetta óbilandi hugrekki - svo það sé bara sagt - er svo gott sem yfirþyrmandi.

MYNDIR KRISTINS INGVARSSONAR FRÁ TÓNLEIKUM 2020-2021

Tengt efni