Skip to main content

Saga

Saga - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní árið 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta og fyrstu 29 árin var hann til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Við stofnun Háskóla Íslands voru Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn sameinaðir og mynduðu hver sína deild skólans, auk þess sem heimspekideild var bætt við.

Háskólaárið 1911-1912 voru nemendur einungis 45 og þar af ein kona, en starfsárið 2013-2014 stunduðu tæplega fjórtán þúsund nemendur nám við Háskóla Íslands, um tveir þriðju hlutar þeirra konur. Við Háskólann er boðið upp á mikinn fjölda námsleiða á grunn-, meistara- og doktorsstigi.

Árið 1940 flutti Háskóli Íslands í Aðalbyggingu við Suðurgötu. Húsakostur skólans hefur vaxið mikið síðan og er nýjasta byggingin Háskólatorg sem stendur sunnan við Aðalbyggingu og var vígt 1. desember 2007.

Hinn 1. júlí 2008 tók gildi nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands og á sama tíma sameinaðist skólinn Kennaraháskóla Íslands á aldarafmæli síðarnefnda skólans. Hinn nýi Háskóli Íslands skipast í fimm fræðasvið sem hvert um sig skiptist í nokkrar deildir. Fræðasviðin eru:

  • Félagsvísindasvið
  • Heilbrigðisvísindasvið
  • Hugvísindasvið
  • Menntavísindasvið
  • Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Auk þess er við skólann starfræktur fjöldi rannsókna- og þjónustustofnana.

Rektor Háskóla Íslands er Jón Atli Benediktsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

Aldarafmæli Háskóla Íslands var fagnað árið 2011 með fjölbreyttri dagskrá og viðburðum. Yfirlit yfir afmælisárið og sögu skólans má nálgast á vef um aldarafmæli Háskóla Íslands.

Stórvirkið Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011, var gefið út í tilefni af aldarafmæli skólans. Um er að ræða mjög umfangsmikið og vandað rit, tæplega 900 blaðsíður að lengd og skreytt rúmlega 300 myndum af margvíslegu tagi. Höfundar ritsins eru Guðmundur Hálfdánarson, Sigríður Matthíasdóttir og Magnús Guðmundsson en ritstjórn þess var í höndum Gunnars Karlssonar.

Á 50 ára afmæli háskólans árið 1961 var samið og gefið út ritið Saga Háskóla Íslands: Yfirlit um hálfrar aldar starf (pdf-skrá 849 kb), unnt er að leita að atriðisorðum í þessari skrá.). Höfundur þess er Guðni Jónsson prófessor.

Í nóvember 1992 var fyrsti vefur Reikningsstofnunar Háskóla Íslands settur í loftið. Er það talinn vera fyrsti vefur sem settur var upp á Íslandi. 

Tengt efni