Raunfærni Raunfærni er samanlögð færni og þekking sem náð er með ýmsum hætti í starfi, námi og einkalífi t.d. í gegnum námskeið, félagsstörf og með starfsreynslu. Raunfærnimat í grunnnámi í leikskólakennarafræði Haustið 2021 var þróunarverkefni um raunfærnimat í grunnnámi í leikskólakennarafræði hleypt af stokkunum í fyrsta sinn. Gerð var krafa um 25 ára lífaldur umsækjenda og þriggja ára starfsreynslu í leikskóla. Ákveðið hefur verið að bjóða upp á raunfærnimat í námskeiðum í grunnnámi skólaárið 2022-2023. Nokkur námskeið verða í boði til raunfærnimats og dreifast þau á árin þrjú í grunnnámi. Í september verður upplýsingasíðan uppfærð og kemur þá fram hvaða námskeið verða í boði. Raunfærnimat fer fram í október, fyrir námskeið sem kennd eru á vormisseri og vorið 2023, fyrir námskeið kennd á haustmisseri. Allir nemendur í grunnnámi fá sendar nánari upplýsingar í tölvupósti um mánaðamótin ágúst/september. Raunfærnimat er viðurkenning á þekkingu og reynslu umsækjenda og getur niðurstaðan orðið á þann veg að umsækjandi sleppur við að sitja námskeið í því sem hann kann nú þegar, sem leiðir til minna álags í námi. Ferlið í raunfærnimati Raunfærnimat er skipulagt ferli þar sem lagt er mat á alhliða þekkingu og færni einstaklings með formlegum hætti. Gerðar eru kröfur um gæði og áreiðanleika í matinu. Ferlið byggir á fjórum skrefum 1. Upplýsingar og endurgjöf Ferlið kynnt á kynningarfundi og áhugasamir geta fyllt út skimunarlista en markmiðið með skimunarlistunum er að leggja fyrsta mat á hvort umsækjandi eigi erindi í raunfærnimat. Umsækjendur þurfa einnig að senda inn ferilskrá. Þeim sem uppfylla skilyrðin er boðið að senda inn rafræna umsókn um raunfærnimat og úr þeim hópi eru valdir 15 umsækjendur sem halda áfram í næsta skref. 2. Gagnaöflun og færniskráning Þátttakendur sitja tvo fundi með náms- og starfsráðgjöfum og matsaðilum. Á fyrri fundinum er farið í færniskráningu og þátttakendur þurfa að afla gagna til staðfestingar á færni sinni. Á þeim síðari er unnið í sjáfsmatslistum sem liggja til grundvallar þegar ákveðið er hvaða námskeið viðkomandi fer í raunfærnimat í. 3. Greining og mat Þegar komið er í ljós hvaða námskeið á að meta hjá hverjum og einum fer fram matsviðtal hjá matsaðilum deildarinnar þar sem raunfærni er borin saman við hæfniviðmið námskeiða. Að því loknu er tekin afstaða til hvaða námskeið hver og einn fær metið. 4. Vottun eða staðfesting Það námskeið eða þau námskeið sem þátttakandi stóðst mat í eru skráð í Uglu. Ekki er gefin einkunn fyrir námskeiðin heldur afgreitt sem metið, líkt og mat á fyrra námi. Skimunarlisti Hér er að finna sýnishorn af skimunarlistanum frá því í fyrra en þar var spurt um grunnatriði í þeim námskeiðum sem voru til raunfærnimats. Eftir að listanum var skilað var metið hvort einstaklingur ætti erindi í raunfærnimat. Nýr skimunarlisti verður birtur í ágúst/september 2022. SKIMUNARLISTI Upplýsingar Frekari upplýsingar veitir Lára Hreinsdóttir, verkefnisstjóri, larahr@hi.is, sími: 525 5901. facebooklinkedintwitter