Skip to main content

Brjálæði í miðaldabókmenntum

Sif Ríkharðsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild

„Tilfinningar í miðaldabókmenntum eru afar spennandi viðfangsefni, enda er afskaplega athyglisvert að hugsa til þess að við séum fullfær um að upplifa samhygð þegar við lesum um ófarir Skarphéðins í Njáls sögu, jafnvel þótt rúm 700 ár skilji  okkur og höfund sögunnar að,“ segir Sif Ríkharðsdóttir, lektor í almennri bókmenntafræði. Hún hefur sérstakan áhuga á tilfinningum og jafnvel vitfirringu í bókmenntum og ekki síst í þeim sem endurspegla mannlífið á miðöldum. Hún rýnir því í ýmsa texta með nemendum sínum og túlkar birtingarmyndir vitfirringar.

„Vitfirring er í raun oft skilgreind sem firring frá samfélagi, fremur en andlegur sjúkdómur í miðaldabókmenntum,“ segir Sif og bendir í því efni á breska leikskáldið William Shakespeare. „Tvístrun konungsvalds í Lé konungi felur í sér tvístrun sjálfsvitundar konungsins Lés sem leiðir svo af sér hina margfrægu vitfirringu hans.“

Sif Ríkharðsdóttir

Sif hefur sérstakan áhuga á tilfinningum og jafnvel vitfirringu í bókmenntum og ekki síst í þeim sem endurspegla mannlífið á miðöldum. Hún rýnir því í ýmsa texta með nemendum sínum og túlkar birtingarmyndir vitfirringar.

Sif Ríkharðsdóttir

Sif lauk doktorsprófi frá Washington University í St. Louis í Bandaríkjunum en sérsvið hennar tengist miðaldabókmenntum. Hún segir að rannsóknir á tilfinningum og menningarbundinni hegðun hafi lengi verið sér hugstæðar. Hugleiðingar um hvernig hinn grátgjarni riddari franskra miðaldasagna var þýddur yfir í menningarheim Íslendinga á miðöldum má til dæmis finna í nýútkominni bók hennar, Medieval Translations and Cultural Discourse. Hér vísar Sif í riddarasögurnar sem eru veraldlegar frásagnarbókmenntir þýddar á norræn mál á miðöldum. Fjöldamargar slíkar sagnir eru til á íslensku þýddar úr frönsku, latínu og þýsku, auk þess sem sumar eru frumsamdar.

Sif lætur ekki staðar numið við útgáfu nýjustu bókar sinnar því að hún hefur aðra í smíðum um tilfinningar á miðöldum og hlutverk þeirrar raddar sem sprettur upp af síðunum. „Þetta er sú rödd sem við nemum við lesturinn og er grundvallaratriði í miðlun tilfinninga í bókum.“

Sif fullyrðir að bókmenntir séu að mörgu leyti sá vettvangur sem einna best miðlar átökum ólíkra menningarheima. Með því að lesa verk frá miðöldum í dag stefnum við okkar eigin menningarvitund, sem háð er nútímanum, andspænis hinni sem til var á þeim tíma þegar verkið var ritað. „Við lifum því stöðugt í menningartúlkun, ef svo má að orði komast, þegar við lesum bækur, sérstaklega þær sem heyra til heimum sem eru okkur framandi eða fjarlægir.“

Sif segir okkur öll mótuð af samfélagslegum viðmiðum um hegðun og framkomu, enda kannist allir við óþægindin sem fylgja þeim aðstæðum þegar viðmælandinn bregður út af forskriftinni um eðlilega hegðun. „Ég er hrædd um að Egill Skallagrímsson væri okkur mjög framandi ef við rækjumst á hann úti í búð í dag og ekki færi fjarri að hann yrði skilgreindur sem vitfirrtur í okkar menningarsögulega samhengi,“ segir Sif og brosir. „Fólk gerir sér gjarnan ekki grein fyrir hversu menningarbundnar hugmyndir okkar eru um lífið og tilveruna.“