Skip to main content

Gagnagrunnur sáttanefndabóka

Gagnagrunnur sáttanefndabóka er fimm ára verkefni sem starfrækt er innan vébanda Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra og hefur hlotið rausnarlega styrki úr stefnumótandi byggðaáætlun samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins fyrir árin 2018–2024, Nýsköpunarsjóði námsmanna og Innviðasjóði. Verkefnið hófst að frumkvæði setursins árið 2019 og áætluð verklok eru í ársbyrjun 2024. 

Störf sáttanefnda, sem stofnaðar voru í lok 18. aldar víðs vegar í ríki Danakonungs, hafa sáralítið verið rannsökuð hér á landi og gögn þeirra lítið verið notuð við rannsóknir. Ein af ástæðum þess er skortur á sýnileika gjörðabóka sáttanefnda sem nýtilegar heimildir um íslenskt samfélag á 19. og 20. öld, en þær eru varðveittar á mörgum skjalasöfnum víðs vegar um landið. Varðveittar sáttabækur eru vel á þriðja hundrað talsins.

Um sáttabækur

Sáttabækur eru afar gagnlegar heimildir um margar hliðar íslensks samfélags og menningar. Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um líf og hagi Íslendinga.

Misklíðarefnin sem leidd voru til sætta voru fjölbreytileg en fela almennt í sér vitnisburði um samskipti fólks sín á milli, samlíf hjóna, verslun og skuldir og samskipti vinnuveitenda og verkafólks, svo dæmi séu nefnd. Þær veita mikilvæga innsýn í réttarvitund, siðferðishugmyndir og gildismat almennings, félagsgerð og menningarmun.

Þá er þar að finna margháttaðar upplýsingar um eignarhald á landi, um örnefni og efnahagslíf. Þar birtast leiðir nærsamfélagsins til þess að leysa úr ágreiningsmálum og um leið halda friðinn án þess að leita á náðir dómskerfisins.

Gagnagrunnurinn sem um ræðir mun auðvelda til muna aðgengi og notkun þessara heimilda. 

Um verkefnið

Verkefnið er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra, Þjóðskjalasafns Íslands og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.

Þórunn Þorsteinsdóttir sagnfræðingur er verkefnisstjóri og vinnur við verkefnið í fullu starfi. Auk hennar hafa Emil Gunnlaugsson sagnfræðingur og Harpa Rún Ásmundsdóttir sagnfræðingur unnið tímabundið við verkefnið.