Skip to main content

Listasafn

Listasafn - á vefsíðu Háskóla Íslands

List— míla á afmæli Listasafns Háskóla Íslands

Sýningin List— míla Listasafns Háskóla Íslands verður opin frá og með föstudeginum 13. mars í húsakynnum Háskóla Íslands og stendur fram í október. Efnt er til hennar í tilefni 40 ára afmælis Listasafns Háskóla Íslands en markmið sýningarinnar er að gefa nemendum háskólans, starfsmönnum og ekki síst öllum almenningi færi á að kynnast safneigninni.

Sýningarstjórar eru Kristján Steingrímur Jónsson, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands, og Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. 

Sýningin er í fimm byggingum skólans: Aðalbyggingu, Gimli, Háskólatorgi, Odda, Veröld, og tengigöngum á milli þessara bygginga. Sýnd eru um 170 verk úr safneign eftir 50 listamenn. 

Listaverkin er frá ýmsum tímabilum íslenskrar myndlistar og endurspegla ólík viðfangsefni listamanna. 

  • Í Odda er yfirlitssýning á verkum Guðmundu Andrésdóttur.
  • Á Háskólatorgi eru sýnd verk eftir Gunnlaug Scheving sem upphaflega voru gerð fyrir Kennaraháskóla Íslands í Stakkahlíð.
  • Í Veröld er sýning á abstraktverkum Þorvaldar Skúlasonar, en safnið varðveitir rúmlega þúsund málverk og teikningar listamannsins.
  • Í Aðalbyggingu eru litaskissur Valtýs Péturssonar og málverk eftir Eyborgu Guðmundsdóttur auk verka eftir Önnu Líndal, Birgi Snæbjörn, Georg Guðna, Eirúnu Sigurðardóttur, Eggert Pétursson, Ragnar Kjartansson og Svölu Sigurleifsdóttur.
  • Í tengigöngum má sjá úrval verka eftir listamenn af „SÚM-kynslóðinni“ auk ljósmynda, málverka og textílverka eftir Ásgerði Búadóttur, Elínu Hansdóttur, Erlu Þórarinsdóttur, Gabríelu Friðriksdóttur, Hildi Bjarnadóttur, Huldu Hákon, Huldu Stefánsdóttur, Hörpu Árnadóttur, Kristínu frá Munkaþverá og Ólöfu Nordal.

Sýndarsýning List-mílu

Kynning á verkefni Ingu Haraldsdóttur nemanda í Hagnýtri menningarmiðlun á vormisseri 2020

Opna sýndarsýning List-mílu í nýjum glugga

Listasafnið

Líkt og mörg háskólalistasöfn erlendis byggist safneign Listasafns Háskóla Íslands að miklu leyti  á gjöfum. Stofngjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002) vegur þar þyngst. Þá hafa ýmsir íslenskir listamenn og velunnarar skólans gefið safninu verk. Að öllu samanlögðu hafa Listasafni Háskóla Íslands verið gefin hátt í 1.300 listaverk og eru listaverkagjafir til safnsins meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa hlotnast. Með innkaupum safnsins hefur verið aukið við listaverkaeignina og á Listasafn Háskóla Íslands nú um 1.450 listaverk, skissur og gögn. 

Listasafn Háskóla Íslands á sér margar fyrirmyndir úti í heimi þar sem háskólalistasöfn eru mörg hver stór og víðfræg, einkum vestanhafs. Ólíkt því sem tíðkast erlendis eru Listasafn Háskóla Íslands og Háskóli Íslands ekki aðskildar skipulagseiningar heldur eru verk úr eigu safnsins víða að finna á skrifstofum og í opinberum rýmum skólans. 

Safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands er Kristján Steingrímur Jónsson, netfang kristjansteingrimur@hi.is.

Opna vefsíða Listasafns Háskóla Íslands í nýjum glugga

Tengt efni