List— míla á afmæli Listasafns Háskóla Íslands Sýningin List— míla Listasafns Háskóla Íslands verður opin frá og með föstudeginum 13. mars í húsakynnum Háskóla Íslands og stendur fram í október. Efnt er til hennar í tilefni 40 ára afmælis Listasafns Háskóla Íslands en markmið sýningarinnar er að gefa nemendum háskólans, starfsmönnum og ekki síst öllum almenningi færi á að kynnast safneigninni. Sýningarstjórar eru Kristján Steingrímur Jónsson, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands, og Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Sýningin er í fimm byggingum skólans: Aðalbyggingu, Gimli, Háskólatorgi, Odda, Veröld, og tengigöngum á milli þessara bygginga. Sýnd eru um 170 verk úr safneign eftir 50 listamenn. Listaverkin er frá ýmsum tímabilum íslenskrar myndlistar og endurspegla ólík viðfangsefni listamanna. Í Odda er yfirlitssýning á verkum Guðmundu Andrésdóttur. Á Háskólatorgi eru sýnd verk eftir Gunnlaug Scheving sem upphaflega voru gerð fyrir Kennaraháskóla Íslands í Stakkahlíð. Í Veröld er sýning á abstraktverkum Þorvaldar Skúlasonar, en safnið varðveitir rúmlega þúsund málverk og teikningar listamannsins. Í Aðalbyggingu eru litaskissur Valtýs Péturssonar og málverk eftir Eyborgu Guðmundsdóttur auk verka eftir Önnu Líndal, Birgi Snæbjörn, Georg Guðna, Eirúnu Sigurðardóttur, Eggert Pétursson, Ragnar Kjartansson og Svölu Sigurleifsdóttur. Í tengigöngum má sjá úrval verka eftir listamenn af „SÚM-kynslóðinni“ auk ljósmynda, málverka og textílverka eftir Ásgerði Búadóttur, Elínu Hansdóttur, Erlu Þórarinsdóttur, Gabríelu Friðriksdóttur, Hildi Bjarnadóttur, Huldu Hákon, Huldu Stefánsdóttur, Hörpu Árnadóttur, Kristínu frá Munkaþverá og Ólöfu Nordal. Sýndarsýning List-mílu Kynning á verkefni Ingu Haraldsdóttur nemanda í Hagnýtri menningarmiðlun á vormisseri 2020 Opna sýndarsýning List-mílu í nýjum glugga Listasafnið Líkt og mörg háskólalistasöfn erlendis byggist safneign Listasafns Háskóla Íslands að miklu leyti á gjöfum. Stofngjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002) vegur þar þyngst. Þá hafa ýmsir íslenskir listamenn og velunnarar skólans gefið safninu verk. Að öllu samanlögðu hafa Listasafni Háskóla Íslands verið gefin hátt í 1.300 listaverk og eru listaverkagjafir til safnsins meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa hlotnast. Með innkaupum safnsins hefur verið aukið við listaverkaeignina og á Listasafn Háskóla Íslands nú um 1.450 listaverk, skissur og gögn. Listasafn Háskóla Íslands á sér margar fyrirmyndir úti í heimi þar sem háskólalistasöfn eru mörg hver stór og víðfræg, einkum vestanhafs. Ólíkt því sem tíðkast erlendis eru Listasafn Háskóla Íslands og Háskóli Íslands ekki aðskildar skipulagseiningar heldur eru verk úr eigu safnsins víða að finna á skrifstofum og í opinberum rýmum skólans. Safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands er Kristján Steingrímur Jónsson, netfang kristjansteingrimur@hi.is. Opna vefsíða Listasafns Háskóla Íslands í nýjum glugga Um Listasafnið Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 með listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar (1909-2002) og Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og var stofnskrá safnsins staðfest af forseta Íslands í apríl 1980. Háskóli Íslands er eini háskóli landsins sem á eigið listasafn. Stofngjöfin nam alls 140 listaverkum. Þar af voru 115 verk eftir Þorvald Skúlason (1906-1984) listmálara og 25 verk eftir aðra listamenn. Haldin var sýning á frumgjöfinni í Háskóla Íslands sumarið 1980. Árið 1985 gaf Sverrir Sigurðsson safninu aftur 101 verk til minningar um Ingibjörgu konu sína, þar af 75 verk eftir Þorvald Skúlason. Þá fékk Listasafnið um 900 skissur og smámyndir eftir Þorvald Skúlason að gjöf úr dánarbúi Sverris Sigurðssonar árið 2003. Listasafnið á langstærsta safn landsins af verkum eftir Þorvald Skúlason eða um 250 málverk og yfir þúsund teikningar og skissur frá öllum tímabilum ferils hans. Mynda verkin sérstaka deild í safninu; Þorvaldssafn. Stór hluti listaverkaeignar safnsins eru abstraktverk en auk verka eftir Þorvald á safnið fjölda mikilvægra verka eftir Guðmundu Andrésdóttur, Hörð Ágústsson, Karl Kvaran og fleiri listamenn. Meiri hluti verka safnins eru tvívíð verk, einkum olíumálverk, teikningar og grafíkmyndir, en á síðari árum hefur safnið lagt sig eftir að kaupa ljósmyndaverk eftir yngri myndlistarmenn. Stefna - Áherslur Sérstaða safnsins Listasafn Háskóla Íslands hefur þá sérstöðu að vera eina listasafn landsins í eigu háskóla og varðveitir stærsta safn verka Þorvaldar Skúlasonar. Safnið gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki við söfnun íslenskrar samtímalistar og sinnir margþættri listmiðlun innan og utan háskólasamfélagsins. Á þennan hátt stuðlar safnið markvisst að því að gera Háskóla Íslands að virkum þátttakanda í íslensku menningarlífi. Sýnilegt safn sem styður við gott náms- og vinnuumhverfi Safneign Listasafns Háskóla Íslands prýðir byggingar skólans og gerir þannig verk helstu listamanna þjóðarinnar sýnileg starfsfólki, nemendum og almenningi. Með þessu tekur Listasafn Háskóla Íslands þátt í að skapa gott náms- og vinnuumhverfi. Auk þess styður stafræn miðlun safneignarinnar við sýnileika safnsins innan og utan skólans. Öflugt samstarf innan sem utan háskólasamfélagsins Listasafn Háskóla Íslands er virkur þátttakandi í háskólasamfélaginu og sinnir jafnframt skipulegu samstarfi við önnur söfn og stofnanir utan skólans. Safnið leggur áherslu á að safneignin sé nýtt til þess að örva samspil vísinda, lista og fræða. Þannig leggur safnið fram mikilvægan skerf til öflunar, varðveislu og miðlunar þekkingar á myndlist og list- og safnafræðum. Trygg varðveisla verka Listasafn Háskóla Íslands nýtur virðingar og trausts á safnavettvangi. Safnið kappkostar að tryggja varðveislu þeirra menningarverðmæta sem fólgin eru í safninu og sýnd í almannarými. Lögð er rík áhersla á öryggi og fagmennsku í starfsháttum. Nýsköpun í rannsóknum og námi Listasafn Háskóla Íslands gerir nemendum og fræðimönnum kleift að stunda rannsóknir og fá þjálfun í list- og safnafræðum. Safnið leggur áherslu á fjölbreytt samstarf og styður við nýsköpun í fræðum og kennslu. Stjórn Listasafns HÍ Þriggja manna stjórn safnsins er skipuð af háskólaráði til fjögurra ára í senn en umsjón með safninu hefur safnstjóri. Núverandi stjórn Núverandi stjórn listasafns Háskóla Íslands er þannig skipuð Æsa Sigurjónsdóttir formaður Arndís Vilhjálmsdóttir. Magnús Diðrik Baldursson. Fyrri stjórnir Árið 2007 tóku Salvör Nordal formaður, Vilhjálmur Lúðvíksson og Hjálmar H. Ragnarsson sæti í stjórn safnsins. Auður Ólafsdóttir listfræðingur veitti safninu forstöðu. Árið 2003 tóku Ástráður Eysteinsson formaður, Ingibjörg Hilmarsdóttir læknir og Guðrún Bachmann sæti í stjórn safnins. Auður Ólafsdóttir listfræðingur veitti safninu áfram forstöðu. Árið 1999 tóku Gunnar Harðarson formaður, Ingibjörg Hilmarsdóttir og Auður Ólafsdóttir listfræðingur við sæti í stjórn safnsins. Auður Ólafsdóttir hafði jafnframt umsjón með safninu í umboði stjórnar. Árið 1991 tóku Haraldur Ólafsson formaður, og Áslaug Sverrisdóttir við sæti í stjórn safnsins en Björn Th. Björnsson, sem veitti safninu forstöðu, sat áfram. Fyrstu stjórn safnsins frá 1980 -1991 skipuðu þeir Gylfi Þ. Gíslason formaður, Sverrir Sigurðsson og Björn Th. Björnsson listfræðingur sem jafnframt hafði umsjón með safninu á vegum stjórnarinnar. Listaverkagjafir Listaverkagjafir til Listasafns Háskóla Íslands eru meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa hlotnast. Stofngjöf Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur árið 1980 nam alls 140 listaverkum. Þar af voru 115 verk eftir Þorvald Skúlason og 25 verk eftir aðra listamenn. Sverrir og Ingibjörg voru um áratugaskeið meðal stærstu listaverkasafnara landsins. Þau tóku snemma á hjúskaparárum sínum að kaupa listaverk, en hófu þó ekki að safna listaverkum að ráði fyrr en upp úr 1940. Margir listamenn urðu nánir vinir þeirra hjóna og heimagangar. Einkum lögðu þau Sverrir og Ingibjörg sig eftir að safna verkum abstraktkynslóðarinnar svokölluðu sem kom fram upp úr síðari heimsstyrjöld. Þar ber fremstan að nefna Þorvald Skúlason. Listasafn Háskóla Íslands ber mörg merki einkasafnarans; þar eru abstraktverk í miklum meirihluta, auk þess sem stór hluti listaverkaeignar safnsins er eftir Þorvald Skúlason. Árið 1995 gaf Sverrir Sigurðsson safninu aftur 101 verk til minningar um Ingibjörgu konu sína, þar af 75 verk eftir Þorvald Skúlason. Árið 2003 fékk Listasafnið að gjöf úr dánarbúi Sverris Sigurðssonar um 900 skissur og smámyndir eftir Þorvald Skúlason. Í erfðaskrá sinni ánafnaði Sverrir Sigurðsson Listasafninu 894 myndum eftir Þorvald Skúlason. Flest verkanna eru smámyndir, þau stærstu 60 x 40 sm að stærð. Um að ræða skissur að stærri verkum, teikningar, vatnslitamyndir, gvassmyndir, klippimyndir, grafíkmyndir og teiknibækur listamannsins. Verkin varpa mikilvægu ljósi á feril og vinnuaðferðir Þorvalds Skúlasonar en elstu verkin eru gerð á Blönduósi árið 1923 þegar Þorvaldur var 17 ára, yngstu verkin eru gerð rúmum 60 árum síðar eða árið 1984, sama ár og Þorvaldur lést. Verkin varpa mikilvægu ljósi á vinnuaðferðir Þorvalds og feril verka hans og eru ómetanleg heimild fyrir þá sem leggja stund á rannsóknir í íslenskri listasögu. Árið 2003 barst Listasafninu önnur stórgjöf, rúmlega 70 olíumálverk, að þessu sinni úr dánarbúi Guðmundu Andrésdóttur listmálara, eins af sérstæðustu og frumlegustu abstraktmálurum landsins. Guðmunda ánafnaði þremur söfnum öllum verkum í eigu sinni, Listasafni Háskóla Íslands, Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur. Jafnframt stofnaði hún sjóð til styrktar ungum, efnilegum myndlistarmönnum sem er í vörslu Listasafns Íslands. Árið 2017 gaf Listaverkasafn Valtýs Péturssonar Listasafninu um 30 litaskissur og málverk. Um er að ræða þekjuliti á pappír og olíumálverk sem Valtýr málaði frá 1950 til 1960 þar sem hann var að vinna með geometrískt myndmál. Auk þess kostaði Listaverkasafn Valtýs Péturssonar viðgerð á mósaíkmyndum Valtýs sem prýða byggingu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð en verkið vann Valtýr fyrir nýbyggingu Kennaraskólans á sínum tíma. Í tilefni 40 ára afmæli Listasafns Háskóla Íslands færðu hjónin Áslaug Sverrisdóttir og Vilhjálmur Lúðvíksson Listasafninu að gjöf 9 vatnlistamyndir eftir Þorvald Skúlason. Verkin eru frá æskuáum hans og mikilvæg viðbót við Þorvaldssafn. Þorvaldssafn Listasafn Háskóla Íslands geymir stærsta safn verka Þorvalds Skúlasonar listmálara (1906-1984). Verkin spanna allan feril Þorvalds og varpa mikilvægu ljósi á feril og vinnuaðferðir listamannsins. Elsta verk safnsins er vatnslitamynd eftir Þorvald, gerð á Blönduósi árið 1921 þegar hann var fimmtán ára, en yngstu verkin eru gerð 63 árum síðar, árið 1984, sama ár og Þorvaldur lést. Í stofnskrá Listasafns Háskóla Íslands segir að þau verk Þorvalds Skúlasonar listmálara "er safnið fær upphaflega að gjöf og kann síðar að eignast, skulu mynda sérstaka deild í safninu, er bera skal nafn listamannsins." Innan safnsins er sérstök deild sem ber nafn listamannsins; Þorvaldssafn. Safnið á í dag um 250 olíumálverk og 1000 smámyndir af ýmsum toga eftir Þorvald, teikningar, skissur, vatnslitamyndir, gvassmyndir, klippimyndir, grafíkmyndir og teiknibækur listamannsins. Stór hluti verkanna eru gjafaverk frá Sverri Sigurðssyni og Ingibjörgu Guðmundsdóttur en afkomendur listamannsins og vinir listamannsins hafa einnig gefið safninu veglegar listaverkagjafir. „Við vitum í rauninni ekki hvað liturinn blátt er, fyrr en við hættum að tengja hann hafi, himni eða fjalli.“ (Þorvaldur Skúlason, 1955). Sýningar Listasafn Háskóla Íslands hefur þá sérstöðu í safnaflóru landsins að deila sýningarrými sínu með stúdentum, kennurum og öðru starfsfólki HÍ. Það þýðir að verk í eigu safnsins eru sett upp víðs vegar um stofnanir og byggingar háskólasamfélagsins. Einnig hafa verið settar upp sérsýningar á vegum safnsins í húsnæði HÍ, svo sem á stofngjöf, nýjum verkum og stórgjöfum, líkt og á verkum Guðmundu Andrésdóttur listmálara árið 2003. Árið 2001 var sett upp í Odda sýningin „ABSTRAKT – abstrakt“ þar sem abstrakthugtakið í samtímanum var krufið með samtali milli safneignar og verka yngri myndlistarmanna. Árið 1997 fór sýning á verkum Þorvalds Skúlasonar á vegum safnsins til hins merka staðar Borðeyrar við Hrútafjörð. Þorvaldur Skúlason var fæddur á Borðeyri árið 1906, sonur kaupfélagsstjórans, og bjó þar fyrstu tvö árin. Sýningin á verkum eins af merkari sonum verslunarplássins var haldin í tilefni af 150 ára afmæli Borðeyrar. Þá hefur Listasafnið staðið fyrir sýningarhaldi í samvinnu við önnur söfn. Í apríl 1999 stóð Listasafn Háskóla Íslands, í samvinnu við Listasafn Íslands, fyrir sýningu á síðari abstraktverkum Þorvalds Skúlasonar í sýningarsölum Listasafns Íslands. Sýningin Hreyfiafl litanna – Abstraktverk Þorvalds Skúlasonar tók til abstraktverka Þorvalds sem sprottin voru af dvöl hans í nágrenni Ölfusár í lok 7. áratugarins og náttúruáhrifa sem þóttu marka tímaskil í list hans. Gefin var út bók í tilefni sýningar með grein um listamanninn eftir Auði Ólafsdóttur listfræðing; „Máttur hreyfingar. Abstraktverk Þorvalds Skúlasonar 1967 - 1978“. Í október 2008 var sett upp sýning á verkum módernistanna og vinanna Þorvalds Skúlasonar og Sigurjóns Ólafssonar í Hafnarborg. Nánari upplýsingar um Sigurjón og Þorvald og sýninguna 2008 Grein í sýningarskrá Sigurjón og Þorvaldur. Tveir módernistar. Eftir Auði A. Ólafsdóttur Rannsóknir Listasafn Háskóla Íslands hefur aðsetur við æðstu menntastofnun þjóðarinnar og gefur það safninu nokkra sérstöðu. Eitt af hlutverkum safnsins er að stuðla að rannsóknum á íslenskri listasögu, jafnt innan sem utan háskólasamfélagsins. Í stofnskrá safnsins er raunar kveðið á um að „þeir sem stunda rannsóknir í íslenskri myndlistarsögu skuli eiga aðgang að safninu eftir því sem við verður komið.“ Safnið hefur í samræmi við það unnið að því á síðastliðnum árum að efla tengingu safns við rannsóknar-og kennsluumhverfi Háskóla Íslands, Þá hafa velunnarar Listasafns Háskólans ánafnað safninu, auk listaverka, ýmiss konar frumgögnum er varða íslenska myndlistarsögu. Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands Stofnskrá og samþykktir Stofnskrá 1. gr. Stofnað er listasafn Háskóla Íslands með listaverkagjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Sverris Sigurðssonar, Sævargörðum 1, Seltjarnarnesi. 2. gr. Stofngjöf listasafnsins er 115 myndir eftir Þorvald Skúlason og 25 myndir eftir aðra íslenska höfunda, sbr. meðfylgjandi skrá. Hvorki má selja þessar myndir né aðrar sem safninu kunna að verða gefnar. Þau málverk Þorvalds Skúlasonar listmálara, er safnið fær upphaflega að gjöf og kann síðar að eignast, skulu mynda sérstaka deild í safninu, er bera skal nafn listamannsins 3. gr. Til listasafnsins skal Háskóli Íslands árlega leggja 1% þeirrar fjárhæðar, sem varið er til nýbygginga á vegum skólans, í fyrsta sinn árið 1980. Heimilt skal safninu að veita viðtöku gjöfum, hvort sem er í formi listaverka eða annarra fjármuna. Tekjum safnsins skal varið til varðveislu þess og viðhalds og kaupa á listaverkum. 4. gr. Fyrst í stað verður safninu ætlaður staður í næstu nýbyggingu á háskólalóð, svonefndu Hugvísindahúsi. Þar skal hluti safnsins að jafnaði aðgengilegur fyrir almenning, og þeir, sem leggja stund á rannsóknir í íslenskri myndlistarsögu, skulu hafa aðgang að því eftir því sem við verður komið. Einnig er í húsinu gert ráð fyrir geymslu fyrir þann hluta safnsins, sem ekki er til sýnis hverju sinni. 5. gr. Stjórn Listasafns Háskóla Íslands skipa þrír menn, sem kosnir eru af háskólaráði til fjögurra ára. Kosning skal fara fram í janúarmánuði, í fyrsta sinn í janúar 1980. Stjórnin skiptir með sér verkum. Hlutverk stjórnarinnar er að hafa umsjón með eignum safnsins og fjárreiðum í samráði við háskólayfirvöld og taka ákvarðanir, er snerta rekstur þess og eflingu. Skal stjórnin í lok hvers árs gera háskólaráði grein fyrir starfsemi safnsins og viðgangi þess Samþykkt af háskólaráði og staðfest af forseta Íslands 9. apríl 1980. Stofnskrá Samþykkt fyrir Listasafn Háskóla Íslands Tengt efni Listin - uppspretta allrar þekkingar og skilnings? facebooklinkedintwitter