Skip to main content

Aðalgreinar og aukagreinar í grunnnámi

Aðalgreinar og aukagreinar í grunnnámi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Við Háskóla Íslands er hægt að velja 180 eininga grunnnám sem lýkur með bakkalárgráðu. Í sumum greinum er hægt að skipta þessu námi upp í 120 eininga aðalgrein og 60 eininga aukagrein í annarri námsgrein. 

Hvernig virka aðalgreinar og aukagreinar?

Aðalgreinin er 120 einingar og aukagreinin er 60 einingar. Ef þú hefur til dæmis áhuga á að fara bæði í heimspeki og viðskiptafræði þá getur þú valið hvort þú vilt taka 120 einingar í heimspeki eða í viðskiptafræði. Önnur greinin verður aðalgrein og hin verður aukagrein. 

Athugaðu að það eru ekki allar aðalgreinar sem geta verið aukagreinar og heldur ekki allar aukagreinar sem geta verið aðalgreinar.

Mundu að ráðfæra þig við deildina sem aðalgreinin er í þegar þú hefur valið aukagreinina og fá hana samþykkta. Aukagrein þarf ekki að velja fyrr en eftir fyrsta ár í námi. 

Hvernig sæki ég um ef ég vil skrá mig í aðalgrein og aukagrein? 

Ef þú vilt skipta náminu upp með þessum hætti þá þarftu fyrst að sækja um aðalgrein 120 einingar. Það gerir þú í umsóknargáttinni í Uglu. 

Hvenær er aukagrein valin? 

Þú getur valið aukagrein eftir að nám er hafið í aðalgrein.  Oftast er aukagrein valin eftir fyrsta háskólaárið í aðalgreininni.   

Almennt eru skilgreindar aukagreinar í kennsluskrá HÍ viðurkenndar af öllum deildum skólans sem bjóða upp á aðalgrein í grunnnámi til 120 eininga.

Þegar þú ert búin að velja þér aukagrein er ráðlagt að vera í sambandi við deild aðalgreinar til að fullvissa þig um að aukagreinin sé samþykkt með þinni aðalgrein. Fyrirvarinn fyrir því að aukagrein fáist ekki samþykkt getur verið að námskeið í aðal- og aukagreinum mega ekki vera þau sömu eða mjög sambærileg. Ef það á við þarftu að hafa samband við nemendaþjónustu þinnar deildar til fá leiðbeiningar um samsetningu námsins.

Hvernig skrái ég mig í aukagrein? 

Til að fá aukagrein skráða á bakkalárnámsferil þinn þarftu að senda beiðni um það með tölvupósti úr HÍ netfanginu þínu á nemskra@hi.is.  Mundu að setja kennitölu þína með í tölvupóstinn.

Hvernig verður prófskírteinið?  

Á prófskírteinið er áritað að þú hafir lokið bakkalárgráðu í aðalgrein. Upplýsingar um aukagrein koma fram á námsferilsyfirlitinu og skírteinisviðaukanum sem fylgir með prófskírteininu.

Prófið er jafngilt öðru háskólaprófi sem lýkur með 180 eininga bakkalárgráðu af einni námsleið og veitir aðgang að fjölbreyttu framhaldsnámi í fjölmörgum námsgreinum. 

Hvað er ég hætti við?

Ef þú hefur skráð þig í aðalgrein 120 einingar en vilt halda áfram á námsleiðinni og klára 180 einingar þá getur þú breytt skráningunni í 180 eininga nám. Þú sendir beiðni um það með tölvupósti úr HÍ netfanginu þínu á nemskra@hi.is.

Nemendur sem sóttu um 180 eininga nám í einni námsgrein en vilja skipta náminu upp og taka aðalgrein og aukagrein geta breytt skráningu sinni með sama hætti.