SÆKJA UM GRUNNNÁM Tekið er við rafrænum umsóknum um grunnnám við Háskóla Íslands tvisvar á ári. Fyrra umsóknartímabilið, HAUST, er vegna náms sem hefst á haustmisseri, með umsóknarfresti til 5. júní ár hvert. Þegar síðasta umsóknardag ber upp á helgi eða helgidag er opið fyrir umsóknir til og með fyrsta virka degi eftir þann dag. Seinna umsóknartímabilið, VOR, er vegna náms sem hefst á vormisseri, með umsóknarfresti til 30. nóvember. Þegar síðasta umsóknardag ber upp á helgi eða á helgidag er opið fyrir umsóknir til og með fyrsta virka degi eftir þann dag. Nánari upplýsingar má nálgast með því að velja viðeigandi umsóknartímabil hér að neðan. HAUST – Umsókn um nám sem hefst á haustmisseri Umsókn um grunnnám Móttaka umsókna hefst í lok febrúar. Eingöngu er tekið við rafrænum umsóknum. Almennur umsóknarfrestur er til 5. júní ár hvert. Umsóknarfrestur um inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði er til 20. maí. Rafrænt umsóknareyðublað er aðgengilegt hér að ofan á umsóknartíma. Umsóknarfrestur fyrir erlenda umsækjendur, aðra en skiptinema, er til 1. febrúar ár hvert. VOR – Umsókn um nám sem hefst á vormisseri Umsókn um grunnnám Dagana 15. september til 30. nóvember ár hvert er tekið við umsóknum nýnema um innritun í grunnnám í tilteknum námsleiðum við Háskóla Íslands, vegna náms sem hefst á vormisseri. Einungis er hægt að sækja um rafrænt á þessu tímabili. Ekki er tekið inn í nám við öll fræðasvið og allar deildir Háskóla Íslands á vormisseri og aðeins takmarkaður hluti námsleiða við skólann er þá í boði. Viðkomandi námsleiðir koma fram á rafrænu umsóknareyðublaði og á sérstöku yfirliti um námsleiðir í boði. Athugið að ekki eru veittar undanþágur frá formlegum inntökuskilyrðum (stúdentsprófi eða öðru lokaprófi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla) þegar sótt er um nám sem hefst á vormisseri. Á ofangreindu tímabili er jafnframt tekið við umsóknum í tilteknar leiðir til viðbótarprófs á meistarastigi við Félagsvísindasvið skólans. Umsóknarfrestur rennur út 30. nóvember. Skila verður fylgigögnum til Nemendaskrár HÍ, Háskólatorgi, eins fljótt og auðið er og ekki síðar en 8. desember. Nánar um umsóknarferlið Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér vel upplýsingarnar í köflunum hér fyrir neðan. Inntökuskilyrði í Háskóla Íslands Umsækjendur sem hefja nám í háskólanum skulu hafa lokið stúdentsprófi, eða öðru lokaprófi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Sjá nánar Reglur um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands. Undanþágur frá inntökuskilyrðum Hvert fræðasvið háskólans ákveður hvort einstakar deildir þess taki við umsóknum um undanþágur frá inntökuskilyrðum, sbr. 6. mgr. 47. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Háskólaárið 2022–2023 verður tekið við umsóknum um undanþágur frá inntökuskilyrðum vegna náms í sumum deildum háskólans en öðrum ekki. Ekki eru veittar undanþágur frá formlegum inntökuskilyrðum (stúdentsprófi) þegar sótt er um nám sem hefst á vormisseri. Nánari upplýsingar um undanþágur eru í kennsluskrá. Umsóknum um undanþágur skal skila rafrænt, með sama hætti og öðrum umsóknum nýnema (sjá hér að ofan). Þeim skulu fylgja staðfest vottorð um nám og störf að loknu skyldunámi og önnur þau gögn sem umsækjandi telur að stutt geti umsóknina. Umsóknarfrestur er alla jafna til: 5. júní fyrir grunnnám sem hefst að hausti 30. nóvember fyrir grunnnám sem hefst að vori Fylgigögn með umsókninni Skila þarf staðfestu ljósriti/afriti úr framhaldsskóla (ljósriti/afriti með bláum stimpli og undirritun) af öllu stúdentsprófsskírteininu eins fljótt og hægt er og ekki seinna en: 12. júní fyrir nám sem hefst að hausti 8. desember fyrir nám sem hefst að vori Óstaðfest eða skönnuð skírteini eru ekki tekin gild. Umsækjendur sem í umsóknarferlinu veita Háskóla Íslands leyfi til að sækja rafrænt stúdentsprófsskírteini úr Innu þurfa ekki að skila staðfestu afriti. Nánari upplýsingar veitir Nemendaskrá HÍ sem er staðsett í Háskólatorgi, 3. hæð, s. 525 4309, netfang nemskra@hi.is. Skrásetningargjald Engin skólagjöld eru í Háskóla Íslands en árlegt skrásetningargjald er 75.000 kr. (55.000 kr. ef sótt er um innritun á vormisseri). Eftir að umsókn er samþykkt er hægt að ganga frá greiðslu skrásetningargjaldsins. Í samskiptagáttinni er hægt að greiða gjaldið með greiðslukorti í einu lagi eða með kortaláni. Reikninginn verður að greiða í síðasta lagi: 4. júlí fyrir nám sem hefst að hausti 6. janúar fyrir nám sem hefst að vori Skrásetning til náms við Háskóla Íslands tekur gildi við greiðslu skrásetningargjaldsins. Gjaldið er ekki endurkræft. Hvað geri ég ef ég get ekki greitt í samskiptagátt? Eftir að umsókn er samþykkt á að vera hægt að ganga frá greiðslu skrásetningargjaldsins í samskiptagáttinni með greiðslukorti í einu lagi eða með kortaláni. Ef þú hefur spurningar eða lendir í erfiðleikum með að greiða í samskiptagáttinni getur þú haft samband við Nemendaskrá HÍ, s. 525 4309, netfang nemskra@hi.is, fyrir eindaga hverju sinni. Nánari upplýsingar um skrásetningargjald. Staða umsóknar og afgreiðsla Leitast er við að afgreiða umsóknir eins fljótt og auðið er og eigi síðar en viku eftir umsóknarfrest. Hvernig get ég fylgst með afgreiðslu umsóknar? Í samskiptagátt Háskóla Íslands, þar sem sótt er um nám, er hægt að fylgjast með afgreiðslu umsóknar undir flipanum „Yfirlit umsókna“. Þú ferð inn á síðuna með því að nota netfangið þitt og lykilorðið sem þú bjóst til þegar þú skráðir þig upphaflega inn í samskiptagáttina. Við hvetjum þig eindregið til að fylgjast vel með framvindu umsóknar. Hvað gerist eftir að umsókn hefur verið samþykkt? Eftir að umsókn er samþykkt er hægt að ganga frá greiðslu skrásetningargjaldsins. Í samskiptagáttinni er nú hægt að greiða gjaldið með greiðslukorti í einu lagi eða með kortaláni. Skrásetningargjaldið er 75.000 kr. fyrir skólaárið (55.000 kr. fyrir innritun á vormisseri). Notandanafn og lykilorð að Uglu Ugla er innra vefkerfi Háskóla Íslands. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt og þú hefur greitt skrásetningargjaldið þá getur þú úthlutað þér notandanafni og lykilorði að Uglunni með því að skrá þig inn á umsóknarsíðuna þína („Yfirlit umsókna“) með netfanginu og lykilorðinu sem þú bjóst til við skráningu í samskiptagátt Háskóla Íslands. Hvers vegna þarf nýnemi að hafa notandanafn og lykilorð? Notandanafn og lykilorð eru frumskilyrði þess að nemandi geti nálgast upplýsingar um námsframvindu, haft samskipti við kennara og nýtt sér tölvuþjónustu háskólans. Notandanafn er jafnframt netfang hvers og eins hjá háskólanum (notandanafn@hi.is). Eftir að hafa sótt sér notandanafn og lykilorð getur nemandi nýtt sér hina ýmsu möguleika Uglunnar. Í Uglu fléttast upplýsingakerfi háskólans saman í eina heild og hver nemandi fær aðgang að upplýsingum sem að honum lúta. Þar getur nemandi m.a. séð stundatöflu sína og nálgast yfirlit um einkunnir, námsferil og námskeið. Tengt efni Námsleiðir í grunnnámi Umsóknir Svona velur þú nám Námsvalshjólið - Hvaða nám hentar mér? Aðalgreinar og aukagreinar í grunnnámi Gagnlegar upplýsingar fyrir nýnema facebooklinkedintwitter