Fjarnám við HÍ miðast við að hægt er að ljúka námsleiðinni alfarið í fjarnámi. Námskeið í fjarnámi eru skipulögð þannig að námið fer fram á netinu. Gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda á netfundum og/eða í staðlotum. Fjarnámsleiðir í boði Stök námskeið í fjarnámi Viltu vita meira? Skilgreiningar á fjarnámi Skilgreiningar á fjarnámi Staðnámsleið Mögulegt er að ljúka námsleiðinni alfarið eða að langmestu leyti í staðnámi. Það þýðir að námskeið eru almennt skipulögð þannig að námið fer fram á tilteknum tíma og stað (til dæmis í kennslurými). Hugsanlegt er að einstaka námskeið, skyldu- og/eða valnámskeið, séu aðeins í boði í fjarnámi eða netnámi. Fjarnámsleið Mögulegt er að ljúka námsleiðinni alfarið í fjarnámi. Það þýðir að námskeið eru skipulögð þannig að námið fer fram á netinu og gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda á netfundum og/eða í staðlotum. Þó að mögulegt sé að ljúka námsleiðinni alfarið í fjarnámi, þá má vera að einhver valnámskeið séu eingöngu í boði í til dæmis staðnámi. Netnámsleið Mögulegt er að ljúka námsleiðinni alfarið í netnámi. Það þýðir að námskeið eru skipulögð þannig að námið fer fram á netinu og ekki er gert ráð fyrir neinni rauntímaþátttöku. Nemendur ráða því alfarið hvaða stað og tíma þau nota í námið. Þó að mögulegt sé að ljúka námsleiðinni alfarið í netnámi, þá má vera að einhver valnámskeið séu eingöngu í boði í til dæmis staðnámi. Blönduð námsleið Námsform námskeiða í námsleiðinni er mismunandi, sum geta verið staðnámskeið en önnur fjarnámskeið. Athugið að hugsanlegt er að námsleið sé merkt sem bæði staðnámsleið og fjarnámsleið í kennsluskrá. Það þýðir að hægt er að ljúka henni annaðhvort í staðnámi eða fjarnámi. Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga í fjarnámi Fjarnám krefst mikillar samhæfingar verkefna og skipulags. Sé nám stundað með vinnu er skipulagning enn mikilvægari en ella. Mikilvægt er að námið sé stundað í sátt við fjölskyldu, vini og vinnuveitendur. Skipulag Nauðsynlegt er að nemendur setji sér markmið í upphafi náms og geri tímaáætlun. Nemendur ættu jafnframt að fara reglulega yfir það í huganum hvernig miði í náminu, hvað hafi verið vel gert og hvað megi bæta. Vinnan í fjarnáminu er töluvert á einstaklingsgrunni en þarf þó ekki að vera einmanaleg ef nemendur notfæra sér þá samskiptamöguleika sem fyrir hendi eru. Samskipti Nemendur þurfa oft og tíðum að taka þátt í hópa- og paravinnu sem er háð samskiptum við samnemendur á netinu. Slík samskipti eru tímafrekari en þau samskipti sem eiga sér stað í kennslustofu. Mikilvægt er að nemendur taki virkan þátt í því námssamfélagi sem þeir tilheyra sem fjarnemar. Gott netsamband er nauðsynlegt til að geta tekið þátt í umræðum, nálgast efni og komið því frá sér á auðveldan hátt. Ef nemendur lenda í tæknilegum vandræðum er starfsfólk Háskólans tilbúið til aðstoðar: Þjónustuborð Háskólatorgi Tölvuþjónusta UTS Náms- og starfsráðgjöf Náms- og starfsráðgjöf er fyrsti áfangastaður margra nemenda sem hyggja á háskólanám. Allir nemendur, líka fjarnemendur, hafa aðgang að námsráðgjöf. Náms- og starfsráðgjöf býður meðal annars: Ráðgjöf vegna námsvals. Ráðgjöf um vinnubrögð í háskólanámi. Persónulega og sálfræðilega ráðgjöf. Ráðgjöf og úrræði vegna fötlunar og sérþarfa. Starfsráðgjöf og ráðgjöf við gerð atvinnuumsókna. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn Þeir sem skráðir eru í fjarnám við Háskóla Íslands hafa sömu réttindi og skyldur við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og nemendur í staðnámi. Safnið leitast við að veita fjar- og staðnemum sambærilega þjónustu. Háskóli Íslands vinnur að því að fjölga námskeiðum og námsleiðum í fjarnámi með alþjóðleg gæði og fjölbreytni að leiðarljósi. Tengt efni Umsókn um grunnnám Umsókn um framhaldsnám Fjarpróf Símenntunarmiðstöðvar og prófstaðir fjarprófa Notendaþjónusta upplýsingatæknisviðs (UTS) facebooklinkedintwitter