Uglan, innri vefur Háskóla Íslands, er eitt mikilvægasta tækið sem nemendur og kennarar nota við nám og störf. Ugluna má finna á ugla.hi.is, en einnig er hægt að skrá sig inn af forsíðu hi.is. Ugla kynnt fyrir nýnemum - myndband Um Ugluna Uglan er innri vefur háskólans og þjónar sem upplýsingavettvangur, samskiptatæki og öflugt verkfæri nemenda, kennara og annars starfsfólks. Aðgangi notenda að hinum ýmsu hlutum Uglu er stýrt eftir ákveðnum skilyrðum og miðast aðgangur og upplýsingagjöf hvers nemanda við þá námsleið og þau námskeið sem viðkomandi er skráður í. Því er mjög mikilvægt að skráningarupplýsingar séu alltaf réttar og bera nemendur sjálfir ábyrgð á því. Ákveðnir hlutar Uglunnar, t.d. kennsluskráin, eru öllum opnir. SmáUglan er handhægt app fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, þar sem auðvelt er að nálgast ýmsar upplýsingar sem notendur Uglu þurfa á að halda í erli dagsins. Kennsluvefir námskeiða Í Uglunni er sjálfkrafa tengt á kennsluvefi einstakra námskeiða í námsumsjónarkerfinu Canvas. Á skjáborði hvers nemanda í Canvas birtast þau námskeið sem viðkomandi er skráður í, ásamt tilkynningum, mikilvægum dagsetningum, umræðum og öðrum upplýsingum sem tengjast hverju námskeiði. Einungis þeir nemendur sem eru skráðir í tiltekið námskeið hafa aðgang að kennsluvef þess í Canvas. Á Þjónustumiðjunni er að finna meiri upplýsingar um Uglu og kynningarmyndband fyrir nýja notendur. Hvers vegna þarf ég að hafa notandanafn og lykilorð? Notandanafn og lykilorð eru frumskilyrði þess að þú getir nálgast upplýsingar um námsframvindu, haft samskipti við kennara og nýtt þér tölvuþjónustu háskólans. Notandanafn er jafnframt netfang hvers og eins hjá háskólanum (notandanafn@hi.is). Eftir að hafa sótt þér notandanafn og lykilorð getur þú nýtt þér hina ýmsu möguleika Uglunnar. Í Uglu fléttast upplýsingakerfi háskólans saman í eina heild og hver nemandi fær aðgang að upplýsingum sem að honum lúta. Þar getur nemandi m.a. séð stundatöflu sína og nálgast yfirlit um einkunnir, námsferil og námskeið. Hvernig fæ ég aðgang að Uglu? Eftir að umsókn þín um nám við Háskóla Íslands hefur verið samþykkt og þú hefur greitt skrásetningargjaldið þá getur þú úthlutað þér notandanafni og lykilorði að Uglunni með því að skrá þig inn á umsóknarsíðuna þína („Yfirlit umsókna“) með rafrænni auðkenningu, island.is eða með netfanginu og lykilorðinu sem þú bjóst til við skráningu í samskiptagátt Háskóla Íslands. Tölvupóstur Háskólatölvupóstinn í Outlook má nálgast úr Uglu. Á Þjónustumiðjunni má nálgast leiðbeiningar um það hvernig hægt er að setja upp háskólapóstinn í Outlook. Mögulegt er að áframsenda póst þaðan í þitt persónulega netfang. Kennarar gera ráð fyrir því að nemendur lesi tölvupóstinn sinn reglulega og senda oft mikilvægar upplýsingar til nemendahópa í námskeiðum sínum. Þráðlaust net Þráðlaust net (eduroam) er á öllu háskólasvæðinu og auðvelt að tengjast hvar sem er. Á Þjónustumiðjunni má nálgast leiðbeiningar um það hvernig nemendur tengjast netinu, en það er gert í gegnum Uglu. Athugið að hver notandi getur aðeins haft tvö tæki tengd á sama tíma við þráðlausa netið. Ef einhver vandamál koma upp má alltaf hafa samband við Upplýsingatæknisvið. facebooklinkedintwitter