Háskóli Íslands gefur út árlega sjálfbærniskýrslu og eru þær nú orðnar tvær talsins. Skýrslurnar eru fyrstar sinnar tegundar hjá íslenskum háskólum. Aukinn þrýstingur er á háskóla á alþjóðavísu að gera grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starf skólans styður við sjálfbærni og eru úttektir á þessu meðal annars notaðar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum. Sjálfbærniskýrsla á íslensku Sjálfbærniskýrsla á ensku Í skýrslunum er horft yfir víðfeðmt starf HÍ út frá sjálfbærni og eru þær mikilvægt skref fyrir HÍ að verða leiðandi á sviði sjálfbærni. Sjálfbærnihugsun innan og utan HÍ er komin til að vera og eru árlegar sjálfbærniskýrslur mikilvægt verkfæri til að leggja mat á og vekja athygli á stöðu og mikilvægi sjálfbærni í öllu starfi skólans. Sjálfbærniskýrslur HÍ eru unnar af Sjálfbærnistofnun HÍ að beiðni sjálfbærninefndar. Tilgangur útgáfu árlegrar sjálfbærniskýrslu HÍ er margþættur en helst má nefna: Að fylgja eftir stefnu HÍ (HÍ26) þar sem sjálfbærni og fjölbreytileiki er ein af fjórum megináherslum en háskólinn vill vera leiðandi þegar kemur að sjálfbærni í kennslu, rannsóknum, rekstri, samstarfi og þjónustu við samfélagið. Taka saman stöðu sjálfbærni innan HÍ út frá mismunandi starfsemi. Kynna og auka skilning innan og utan HÍ á sjálfbærni og heimsmarkmiðunum. Nýta skýrslu fyrir alþjóðlega matslista háskóla. Leggja mat á umbætur og koma auga á tækifæri í sjálfbærnimálum háskólans. Sjálfbærniskýrsla 2021 Sjálfbærniskýrsla 2021 á ensku Forsendur sjálfbærniskýrslu Sjálfbærninefnd fól Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir verkefnið sumarið 2022. Könnun var send á allt starfsfólk HÍ og alla doktorsnema um ábendingar um rannsóknarverkefni, kennslu og nám frá árinu 2021 sem tengjast heimsmarkmiðum Sþ um sjálfbæra þróun. Einnig var haft samband við sviðsforseta, deildarforseta og rannsóknarstjóra með ósk um efni fyrir skýrsluna. Fundað var með stúdentaráði og ýmsum öðrum sem tengjast sjálfbærnimálum í HÍ. Mikilvægt þótti að hafa gott samráð við fræðasvið og aðra innan HÍ til að ná sem best utan um stöðu sjálfbærnimála innan háskólans. Farið var yfir viðburða og fréttasafn HÍ 2021, þar með talið doktorsvarnir. Vefsíða um samfélagsáhrif rannsókna (sar.hi.is) var nýtt til gagnaöflunar en þar er má finna yfirgripsmiklar umfjallanir um rannsóknir innan HÍ. Efnið var að lokum flokkað eftir heimsmarkmiðunum 17 og greint í eftirfarandi flokka: 1) rannsóknir, 2) nám og kennsla, 3) samfélagsverkefni og samstarf, 4) rekstur og stjórnsýsla og 5) framtak stúdenta. Markmið þessarar kortlagningar var ekki einungis að sýna það viðamikla starfs sem fram fer innan HÍ heldur líka til að sýna á skýran máta hvernig tengja má starfið við heimsmarkmiðin. Rekstur, námskeið og birtingar Í skýrslunni er yfirlit yfir umhverfisþætti í rekstri HÍ auk námskeiða og ritrýndra greina sem tengjast heimsmarkmiðunum. Eftirfarandi umhverfisþættir í rekstri HÍ voru fengnar úr Grænu bókhaldi hjá framkvæmda- og tæknisviði: 1) úrgangsmál, 2) rafmagnsnotkun, 3) vatnsnotkun og 4) losun koldíoxíðs. Til að meta heildarfjölda námskeiða þar sem viðfangsefni ákveðinna heimsmarkmiða voru til umfjöllunar voru gögn úr rannsókn Auðar Pálsdóttur dósents og Láru Jóhannsdóttur prófessors nýtt. Í rannsókninni var sjónum beint að inntaki námskeiðslýsinga HÍ með hliðsjón af heimsmarkmiðunum 17. Þar var hlutfall af námskeiðum með tengsl við eitthvert heimsmarkmiðanna flokkað eftir fræðasviðunum fimm en gögnin byggja á birtum námsskeiðslýsingum í kennsluskrá HÍ veturinn 2019–2020. Aðkallandi er fyrir allar deildir og svið að hefja vinnu við kortleggja betur tengsl námskeiða við heimsmarkmið í kennsluskrá. Fjöldi ritrýndra greina sem tengjast heimsmarkmiðunum var metinn út frá gagnabanka Scopus sem flokkar sjálfkrafa greinar eftir heimsmarkmiðunum auk upplýsinga um fjölda tilvísana. Greinarnar gátu tengst fleiri en einu heimsmarkmiði. Scopus gefur þó ekki tæmandi mynd af birtingum sem tengjast heimsmarkmiðunum þar greinar á íslensku vantar í gagnabankinn auk hluta greina á ensku (um 25%). Aðkallandi er að ná betur utan um stöðu þessara mála innan HÍ. Í heild eru 4.342 námskeið, 719 ritrýndar greinar og 4.486 tilvísanir sem tengjast heimsmarkmiðunum en undir hverju heimsmarkmiði fyrir sig má finna þessar upplýsingar sundurliðaðar eftir fræðasviðum HÍ. Tækifæri til úrbóta Eitt af markmiðum sjálfbærniskýrslunnar var að leggja mat á umbætur og koma auga á tækifæri í sjálfbærnimálum innan HÍ. Tillögur skýrsluhöfunda að tækifærum til úrbóta eru byggðar á vinnu þeirra, þar á meðal á tillögum sem bárust frá starfsfólki HÍ. Tillögurnar eru settar fram út frá markmiðum úr stefnu Háskóla Íslands fyrir 2021-2026 (HÍ26) og verkefnisstofni um sjálfbærniáherslur í kennslu, rannsóknum og rekstri skólans. Til að styðja við að þær tillögur sem kynntar eru í skýrslunni nái fram að ganga er góður stuðningur við aðgerðaáætlun nauðsynlegur. Því er lagt til að aðstoðarrektor og/eða stjórnandi í miðlægri stjórnsýslu verði gerður ábyrgur fyrir málefnum sem tengjast sjálfbærni (og heimsmarkmiðunum) innan Háskóla Íslands. Þetta hlutverk verður stutt af Sjálfbærninefnd HÍ og Stofnun Sæmundar fróða. Hér á eftir verða tilgreindar tillögur um tækifæri til úrbóta út frá fjórum áhersluatriðum verkefnastofns um sjálfbærniáherslur í kennslu, rannsóknum og rekstri skólans. Í skýrslunni eru tillögurnar flokkaðar í aðkallandi, mjög mikilvægar og mikilvægar en hér fyrir neðan er hinum aðkallandi tillögum frekar lýst. Áhersluatriði 1: Auka meðvitund og skilning á sjálfbærni með kynningum, vinnustofum og mælaborðum yfir sjálfbærniáherslur í rannsóknum og kennsluAðkallandi: Kynning um sjálfbærni og heimsmarkmið verði haldin árið 2023 fyrir starfsfólk HÍ. Opið fundir og málstofur um niðurstöður sjálfbærniskýrslu HÍ verði haldnir snemma árs 2023 Sjálfbærniskýrsla HÍ verði gerð árlega og að ritstjórn verði gefinn meiri tími og meiri stuðning við vinnslu skýrslunnar Áhersluatriði 2: Áhersla á sjálfbærni í námi með fjölgun námskeiða og stuðningi við kennara. Námsleiðir og námskeið tengd sjálfbærni verði í boði fyrir nemendur á öllum fræðasviðumAðkallandi: Þverfræðilegt námskeið um sjálfbærni og heimsmarkmiðin verði þróað og gert aðgengilegt fyrir nemendur frá öllum sviðum skólaárið 2023. Áhersluatriði 3: Unnið að kolefnishlutleysi skólans með kortlagningu losunar og mótvægisaðgerðumAðkallandi: HÍ kortleggi á ítarlegri hátt losun úr rekstri m.v. núverandi kortlagningu, til dæmis með því að kortleggja samgöngumáta starfsfólks og nemenda, innkaup, nýbyggingar o.s.frv. HÍ setji sér loftslags/umhverfisstefnu í rekstri með mælanlegum markmiðum og aðgerðaráætlun til að draga úr losun. Meta þarf þá kosti sem eru I boði við að kolefnisjafna eftirstandandi losun af rekstri HÍ. Áhersluatriði 4: Metið hvort auka megi áherslu á sjálfbærni og þverfagleika við úthlutun úr samkeppnissjóðum skólans Matsferlið skal hefjast fyrir vorið 2023 og væri leitt af Vísindanefnd HÍ. Matinu verði lokið fyrir lok 2023. facebooklinkedintwitter