Guðfræði- og trúarbragðafræðideild | Háskóli Íslands Skip to main content

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Guðfræðideild (nú Guðfræði- og trúarbragðafræðideild) er jafnan talin elst deilda Háskóla Íslands á þeim forsendum að Prestaskólinn var elstur þeirra embættismannaskóla sem sameinaðir voru og mynduðu Háskóla Íslands ásamt heimspekideild árið 1911, en Prestaskólinn tók til starfa 1847. Spannar þó saga Guðfræðideildar og Háskólans raunar víðara svið, því að halda má því fram að saga íslenskrar guðfræðimenntunar sé jafngömul sögu biskupsstóla landsins. Hvíla því stoðir deildarinnar á traustum grunni og fornum hefðum.

Löngum var litið á Guðfræðideildina sem prestaskóla fyrst og fremst, og námið við það miðað. Á síðari árum hefur námið við deildina hins vegar orðið æ fjölbreyttara og aukin áhersla til dæmis verið lögð á trúarbragðafræði og nýjar námsleiðir stofnaðar. Auk þess að leggja stund á hefðbundnar greinar guðfræðinnar kosta starfsmenn deildarinnar kapps um að mæta þörfum fjölmenningarlegs samfélags. Í deildinni stunda um 110 nemendur nám og fastráðnir kennarar eru sjö talsins. Fer allt starf deildarinnar fram í Aðalbyggingu Háskólans og hafa því nemendur afar gott aðgengi að kennurum.

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild býður upp á nám um samspil trúar, menningar og samfélags á þremur námsstigum: BA-nám, MA/mag.theol. nám og doktorsnám. Markmið náms og kennslu í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er að veita fræðilegan grunn í guðfræði og trúarbragðafræði með fjölbreytilegum kennsluaðferðum og jafnframt að efla þekkingu á ólíkum trúarbrögðum og trúarskoðunum. Deildin hefur það að markmiði að nám og kennsla standist  alþjóðlega mælikvarða og að útskrifaðir nemendur eigi kost á framhaldsnámi við bestu erlenda háskóla.

Helstu markhópar náms í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru: a) fólk sem hyggur á starf sem prestar eða djáknar í þjóðkirkjunni eða öðrum kirkjum, b) fólk sem af faglegum ástæðum hefur áhuga á guðfræði eða trúarbragðafræði, t.d. verðandi kennarar, fjölmiðlafólk og aðrir sem starfa á vettvangi menningar og samfélags, c) fólk sem hefur fræðilegan áhuga á guðfræði og trúarbragðafræðum.