Skip to main content

Sáttanefndir og störf þeirra á 19. öld

Í verkefninu, sem styrkt er af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, eru rannsökuð störf sáttanefnda á Íslandi á tímabilinu 1798 til 1936, hlutverk þeirra í því að viðhalda friði og reglu og notkun almennings á þessu úrræði til lausnar deilumála. Sáttanefndir voru settar á fót í danska konungsríkinu á árunum 1795‒1798, þ.m.t. á Íslandi. Hlutverk sáttanefnda var að miðla málum og leita sátta í minniháttar misklíðarefnum á milli manna og létta þannig undir með störfum héraðsdómara. Um leið var þeim ætlað að auðvelda fátækum almenningi að sækja rétt sinn án þess að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur fyrir dómstólum. Þessar nefndir voru starfræktar hér á landi í svo til óbreyttri mynd til ársins 1936, þegar gerðar voru breytingar á meðferð einkaréttarmála.

Rannsóknin er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða megindlega rannsókn á fjölda mála sem tekin voru fyrir hjá sáttanefndum, tegundum mála og dreifingu þeirra og kyni og þjóðfélagsstöðu sækjenda mála. Hins vegar felst rannsóknin í eigindlegri rannsókn á sáttaferlinu sjálfu, þar sem sjónum er meðal annars beint að því hvernig ólík valdahlutverk voru „leikin“ (e. perfomed) við miðlun sátta. Rannsóknin mun varpa nákvæmara ljósi á hversdagslega virkni löggjafar og stjórnkerfis við úrlausn misklíðarefna manna á milli og þar með á viðhald samfélagsreglu og stöðugleika, en störf sáttanefnda hafa fram að þessu lítið verið rannsökuð hér á landi.