Skip to main content

Hagnýt þróunarvistfræði

Með þróunarvistfræði er leitast við að rannsaka og skilja þróunarfræðilegar afleiðingar umhverfisins á lífverur. Þróunarfræðilegar breytingar geta orðið á stofnum og tegundum  bæði vegna áhrifa náttúrulegs umhverfis, t.d. gerðar búsvæðis eða tengsla á milli tegunda, en líka vegna manngerðs umhverfis og annarra áhrifa manna t.d. af veiðum.

Þróunarvistfræðin gerir því alltaf ráð fyrir því að valkraftur verki á einstaklinginn og mismunandi hæfni einstaklinga geti hvatað breytingar í tíðni svipfars eiginleika innan stofna eða tegunda. Þessar breytingar í tíðni eiginleika geta verið tímabundnar, að því gefnu að erfðabreytileiki viðhaldist innan stofnsins, en geta líka orðið varanlegar þannig að breytingar í lífsögu eða svipfari halda áfram að aukast og ganga ekki til baka. Þannig geta jafnvel orðið til nýjar tegundir. Innan sumra tegunda getur erfðabreytileiki fyrir fleiri en einu afbrigði, t.d. breytilegum fargerðum, viðhaldist án þess að gerðirnar aðskiljist erfðafræðilega eða þróist nokkurn tímann í ólíkar tegundir. Á síðari árum hefur orðið meiri meðvitund um mikilvægi þess að nota þróunarvistfræðilega nálgun við rannsóknir á nytjastofnum. Þannig hefur t.d. verið sýnt að veiðiálag getur orsakað þróunarfræðilegar breytingar á lífsögu fiska, svo sem stærð við kynþroska hjá algengum nytjafiskum í sjó og álag af lúsasmiti getur breytt sjógöngu laxfiska þannig að þeir dvelja skemur í sjó.

Rannsóknaverkefni setursins á þessu sviði eru t.d. rannsóknir á sveigjanleika í farhegðun þorsks auk þess að reyna að skilja hvort umhverfisáhrif á strandsvæðum geti hvatað breytingar á tíðni fargerða.  Rannsóknir á áhrifum tegundafæðar á möguleika nýrra landnema á Íslandi, t.d. flundru, á að nýta breiðari vist og taka hröðum þróunarfræðilegum breytingum. Áhrif manngerðs umhverfis í nærsjó á lífsögu fiska og áhrif samsetningar atferlisgerða innan stofna á breidd vistnýtingar.
 

Rannsóknir á sjó