Skip to main content

Reglur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar


Almennar reglur

 • Til að hefja BS-nám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Þá nægir lokapróf frá verk- og raunvísindadeild (áður frumgreinadeild) Keilis (háskólabrú) til inngöngu í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Nemendur sem lokið hafa aðfararnámi að öðrum háskólum en Háskóla Íslands geta sótt um undanþágu frá þessum inntökuskilyrðum. 
 • Samkeppnispróf eru haldin í desember ár hvert, í fyrsta sinn á haustmisseri 2019. Nemendum sem standast öll samkeppnispróf, þ.e. próf í öllum námskeiðum haustmisseris á 1. ári BS-náms, er raðað eftir veginni meðaleinkunn, frá þeirri hæstu til þeirrar lægstu, og er 120 nemendum með hæstu meðaleinkunnirnar boðið námspláss á vormisseri næsta árs.
 • Lágmarkseinkunn í námskeiðum er 5,0 í grunnfögum og 6,0 í hjúkrunarfögum.
 • Þreyta má próf tvisvar sinnum í hverju námskeiði.
 • Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild ákveður hvaða forkröfur skuli gilda um aðgang stúdenta að einstökum námskeiðum. Til þess að flytjast milli 2. og 3. námsárs í almennu grunnnámi í hjúkrunarfræði má nemandi eiga eftir eitt próf hið mesta úr námsefni fyrri ára. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum reglum, ef sérstaklega stendur á.
 • Verkefni og klínískt nám sem nemandi hefur lokið með fullnægjandi árangri gildir í tvö ár.
 • Hámarksnámstími í hjúkrunarfræði er 6 ár.

Reglur um mat á fyrra námi

Nemendur sem teknir hafa verið inn í BS nám í hjúkrunarfræði geta óskað eftir að fá fyrra nám metið. Umsóknarfrestur um mat á fyrra námi er til 5. júní fyrir nám á komandi haustmisseri og 1. nóvember fyrir nám á komandi vormisseri. Beiðnum skal skilað inn á pappírsformi í pósthólf Birnu Flygenring formanns námsmatsnefndar, Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Eirbergi, Eiríksgötu 34, 101 Reykjavík. Niðurstaða skal alla jafna liggja fyrir mánuði síðar.


Til þess að unnt sé að meta fyrra nám þarf að liggja fyrir skrifleg beiðni nemanda um slíkt mat ásamt eftirtöldum gögnum á íslensku eða ensku:
a) Staðfest afrit af vitnisburði (með einkunn) frá þeim skóla eða skólum þar sem námið sem óskað er eftir að fá metið fór fram.
b) Ítarleg námskeiðslýsing þess/þeirra námskeiðs/a þar sem eftirfarandi þarf að koma fram:

 • Nafn umsjónarkennara
 • ECTS einingafjöldi
 • Innihaldslýsing á námskeiði/a
 • Yfirlit yfir fyrirlestra
 • Verkefnalýsing/ar
 • Upplýsingar um námsmat (verkefni/próf)
 • Lesefnislisti/bókalisti

Ef ofantalin gögn liggja ekki fyrir verður umsóknin ekki afgreidd.

a) Námsmatsnefnd Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar hefur umsjón með mati á fyrra námi.

b) Fyrra nám er metið út frá ákveðnum námskeiðum sem koma til greina. Fyrra námskeið, sem er forsenda matsins, skal að jafnaði samsvara a.m.k. 2/3 hlutum af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda, auk þess sem heildareiningafjöldi þess námskeiðs sem á að meta verður að vera a.m.k. jafn mikill. Matsnefnd getur, eftir því sem ástæða þykir til, sent beiðni um mat á fyrra námi til umsagnar umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti.

c) Námskeið er ekki metið nema nemandi hafi lokið því með að minnsta kosti einum heilum yfir lágmarkseinkunn.

d) Að jafnaði eru fyrri námskeið ekki metin á móti námi í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands ef meira en fimm ár eru liðin síðan þeim var lokið.

e) Hjúkrunarfræðingar sem lokið hafa hjúkrunarprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands eða Nýja hjúkrunarskólanum og hafa hjúkrunarleyfi geta sótt um mat á fyrra námi. Sérreglur gilda um þeirra námsmat.


Reglur um endurinnritun

Nemanda sem ekki hefur staðist námskröfur í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild (hefur til dæmis tvífallið í námskeiði og ekki fengið undanþágu til þriðju próftöku) skal bent á að hann getur sótt um að endurinnritast í deildina:

 • Nemandi sem endurinnritast getur sótt um að fá metið þau námskeið sem hann hefur lokið með einkunn sem er einum heilum yfir lágmarkseinkunn.
 • Nemendur, sem fallið hafa út úr deildinni, geta við endurinnritun óskað eftir mati á fyrri prófum sem eru yngri en fimm ára ef þeir hafa fengið einkunn sem er einum heilum hærri en lágmarkseinkunn viðkomandi greinar.
 • Ef nemandi endurinnritast er honum heimilt að skrá sig í hvaða námskeið sem er á þeim árum sem hann hefur fengið námskeið metin af með fyrirvara um forkröfur.

Samantekt um ákvæði varðandi tvíföll og endurinnritun

Þreyta má tvisvar sinnum próf í hverju námskeiði. Eftir fall í 2. sinn er ekki hægt að ljúka námi nema með sérstökum undanþágum (fjarvistarfall talið með).
 

Undanþága frá reglum um námsframvindu

Deildarráð getur veitt nemendum, sem vegna barneigna eða langvarandi veikinda nemandans hafa ekki öðlast rétt til að fara á milli ára, undanþágu til að taka námskeið næsta árs að því gefnu að meðaleinkunn þeirra sé ekki lægri en 6,5 og að nemandinn hafi ekki fallið oftar en einu sinni á námsferlinum. Forsendur skráningar í námskeið næsta árs eru að öllum forkröfum fyrir viðkomandi námskeið sé lokið. Áður en leyfið er veitt gerir nemandi námssamning með deildarstjóra þar sem tilgreint er hvenær námskeiðum sem eftir eru á fyrra ári verður lokið og þau námskeið sem nemanda er heimilað að skrá sig í á næsta námsári eru tiltekin. Áframhaldandi nám við deildina er háð því að nemandinn standi við þennan námssamning.

Nemendur þurfa að sækja um undanþágu um námsframvindu til deildarstjóra, Sigrúnu Sigruðardóttur, sigrunsi [hjá] hi.is sem fer með erindi nemanda fyrir deildarráðsfund.


Beiðnir um undanþágur

Allar umsóknir um undanþágur frá gildandi reglum í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild þurfa að vera skriflegar og skulu þær sendar á deildarstjóra, Sigrúnu Sigurðardóttur á sigrunsi [hjá] hi.is sem fer með erindi fyrir deildarráðsfund. Öllum slíkum erindum er svarað skriflega í tölvupósti og er mikilvægt að nemendur geymi slík bréf.

 • Beiðni um undanþágur þarf að vera rökstudd.
 • Beiðni er skoðuð af deildarráði með hliðsjón af námsferli og tilefni hverju sinni.
 • Æski nemandi þess að fá undanþágu til að fara í próf í þriðja sinn verður nákvæm útskýring á ástæðu að fylgja. Sama nemanda skal ekki veitt undanþága oftar en þrisvar til að fara í próf í þriðja sinn.
 • Undanþágur eru ekki veittar til próftöku í fjórða sinn.

Hámarksnámstími

Samkvæmt 98. gr. reglna nr. 569/2009 skal stúdent í BS námi í hjúkrunarfræði hafa lokið prófi eigi síðar en sex árum eftir innritun.


Námsleyfi

Hámarksnámstími við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild er sex ár. Stúdent getur óskað eftir að vera skráður í leyfi á námstímanum. Það gerir hann með því að senda beiðni til deildarstjóra, Sigrúnu Sigurðardóttur á sigrunsi [hjá] hi.is. Sé leyfið veitt greiðir nemandi leyfisgjald hjá Nemendaskrá.
48. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 segir um námsleyfi að óski stúdent eftir að gera hlé á námi sínu í heilt kennslumisseri eða lengur, skuli hann þá leita heimildar viðkomandi háskóladeildar og skrá sig árlegri skráningu, meðan á leyfistíma stendur. Námsleyfi lengir ekki hámarks námstíma. Að öllu jöfnu er stúdentum í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild ekki veitt námsleyfi á fyrsta námsári.


Reglur um endurtöku klínísks náms

Eftirfarandi samþykkt var gerð á deildarfundi Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar 12. desember 2001:
„Nemandi, sem ekki stenst lágmarkskröfur í klínísku námi, skal endurtaka námstímabilið. Einungis er hægt að endurtaka hvert klínískt námstímabil einu sinni. Tímabilið skal endurtekið á sama starfssviði, en á öðrum starfsvettvangi. Endurtekning á klínísku námstímabili kann að valda seinkun á brautskráningu.“

Reglur um verkefnaskil

Öllum verkefnum, nema þeim sem fjalla um klínísk viðfangsefni er varða trúnaðarupplýsingar um sjúklinga, skal skilað með rafrænum hætti í Uglu og Turnitin eða Moodle, sjá nánar í kennsluáætlun viðkomandi námskeiðs. Nemendur skrá sig inn á Turnitin með HÍ-netfangi sínu og Turnitin lykilorði sem þeir hafa fengið sent í tölvupósti. Í Turnitin birtast þau verkefni sem þar á að skila, á öllum námskeiðum á kennslumisserinu. Verkefni er varða klínísk viðfangsefni er skilað á pappír til kennara. Ekki er tekið við verkefnum í tölvupósti. Nemendur geta leitað til verkefnisstjóra í klínísku námi, Arnheiðar Sigurðardóttur arnheid [hjá] hi.is ef þeir þurfa aðstoð vegna verkefnisskila.

Reglur um einkunnagjöf og endurtöku námskeiðshluta í námskeiðum með lágmarkseinkunn í hverjum námshluta

Til að gæta jafnræðis er mikilvægt að allir kennarar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar beiti sama verklagi við einkunnagjöf og þegar nemandi fellur á verkefni/prófi í námskeiðum með lágmarkseinkunn í hverjum námskeiðshluta. Reglur um slíkt verklag eru nauðsynlegar til að allir nemendur sitji við sama borð ef til þess kemur að þeir falla á afmörkuðum þætti námskeiðs. Með námskeiðshluta er átt við próf, verkefni o.fl.

A. Reglur um einkunnagjöf

 1. Einkunn úr hverjum námskeiðshluta skal gefa með tveimur aukastöfum.
 2. Einkunn er einungis hækkuð upp eða lækkuð niður þegar búið er að leggja saman alla hluta námskeiðsins.
 3. Nemandi sem fær einkunnina 4,75 - 5,0 í hluta námskeiðs þar sem lágmarkseinkunn er 5,0 er talinn hafa náð þeim hluta. Sams konar regla gildir um námskeið þar sem lágmarkseinkunn í hluta er 6,0 (eða önnur heil tala). Heildareinkunn í námskeiði er reiknuð út frá einkunn úr hverjum námskeiðshluta sem gefin er með tveimur aukastöfum.
 4. Nemandi sem fellur í einum eða fleiri skilgreindum hlutum (svo sem skriflegt próf, frammistaða í klíník, ritgerð o.s.frv.) námskeiðs er skráður með fall í því námskeiði.
 5. Umsjónarkennari metur hvort sá hluti sem nemandi fellur í hafi áhrif á aðra hluta námskeiðsins og hvort nemandi þarf einnig að endurtaka þá.
 6. Einkunnir úr námskeiðshlutum sem hefur verið náð geymast í 2 ár.

B. Reglur um endurtöku einstakra hluta námskeiða

 1. Í samræmi við reglur HÍ á nemandi kost á að endurtaka ritgerð/próf sem gildir sem hluti af námsmati.
 2. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að í námslýsingu komi skýrt fram hvaða hlutar námskeiðs krefjast lágmarkseinkunnar til að standast námskeiðið og hver sú einkunn er. Koma þarf skýrt fram í námslýsingu hvort nemandi sem þarf að endurgera einhvern hluta námskeiðsins hafi þrátt fyrir það rétt á að taka annan námskeiðshluta eða ekki.
 3. Kennari metur í hverju tilviki hvort þörf er á að nemandi sem fær að endurtaka ritgerð/próf endurtaki klínískt námstímabili eða hluta þess ef það á við.
 4. Nemandi sem fellur í tilteknum námskeiðshluta, en hefur að öðru leyti áunnið sér próftökurétt, má taka prófið. Fall er samt skráð sem lokaeinkunn þótt nemandi hafi ekki fallið á prófinu. Þegar nemandi hefur endurunnið/lokið viðkomandi námskeiðshluta er einkunn í námskeiðinu breytt.
 5. Nemandi sem fellur í einum eða fleiri hlutum námskeiðs í annað sinn er skráður með tvífall í því námskeiði.
 6. Nemandi sem skráður er með tvífall í námskeiði getur sótt um undanþágu til próftöku í þriðja sinn og gilda þá reglur deildarinnar um tvíföll og endurinnritun við mat á undanþágubeiðni.

Reglur um frádrátt varðandi verkefnaskil

a) Frádráttur frá heildareinkunn verkefnis er 0,1 fyrir einn vanskiladag og 0,3 á dag þar eftir í eina viku.
b) Ekki er tekið á móti verkefnum að liðinni viku frá skilafresti og telst nemandi þá fallinn í námskeiðinu.
c) Aðeins er hægt er að gera undantekningar frá þessum viðurlögum ef aðstæður nemanda eru það alvarlegar að honum hafi verið ógjörningur að skila verkefni á tilsettum tíma. Nemendur verða undantekningalaust að skila vottorði komi til veikinda.


Reglur varðandi fyrirgjöf í krossaprófum

Fjöldi um einkunnagjöf fyrir krossapróf
Til að gæta jafnræðis við einkunnagjöf mælir hjúkrunardeild eindregið með að kennarar við deildina fylgi eftirfarandi reglum við gerð krossaprófa og einkunnagjöf.

Fjöldi og vægi krossaspurninga
Áreiðanleiki og réttmæti krossaprófa eykst með fjölda spurninga. Því er lagt til að krossaspurningar séu aldrei færri en 15 á prófi og að gildi hverrar spurningar sé ekki meira en 2%.

Einkunnagjöf
Ef hlutur krossaspurninga á prófi er 20% eða meira skal beita aðferð „leiðréttrar stigagjafar" (corrected score) við einkunnagjöf. Ef hlutur krossa er minni en 20% er kennurum í sjálfsvald sett
hvort þeir nota „einfalda stigagjöf" (simple score) eða „leiðrétta stigagjöf".

Með „leiðréttri stigagjöf" er átt við að einkunnagjöf er leiðrétt með tilliti til rangra svara. Með öðrum orðum, rangt svar á krossaspurningu er dregið frá heildareinkunn prófs. Til að gæta jafnræðis er mikilvægt að allir kennarar fylgi sömu reglu við frádráttinn og er henni líst hér á eftir. Einföld stigagjöf merkir aftur á móti að röng svör eru ekki dregin frá einkunn.

Reglur um leiðrétta stigagjöf, eða frádrátt rangra svara við krossaspurningum
Frádráttur fyrir rangt svar við krossaspurningu er í réttu hlutfalli við vægi spurningarinnar, en í öfugu hlutfalli við fjölda svarmöguleika þar sem líkurnar á að „geta upp á“ réttu svari aukast með færri svarmöguleikum. Ef nemandi gefur rangt svar við krossaspurningu skal frádrátturinn því vera þessi: p/n-1, þar sem p er hlutfallslegt gildi spurningarinnar á prófinu og n fjöldi svarmöguleika.
 

DÆMI:
Fyrir ranga fjórkosta spurningu sem gildir 2% af prófi skal dregið 2/(4-1) = 0,67%
Fyrir ranga fimmkosta spurningu sem gildir 2% af prófi skal dregið 2/(5-1) = 0,50%
Fyrir ranga tvíkosta spurningu sem gildir 2% af prófi skal dregið 2/(2-1) = 2,00%
Fyrir ranga fjórkosta spurningu sem gildir 1% af prófi skal dregið 1/(4-1) = 0,33%
Fyrir ranga fimmkosta spurningu sem gildir 1% af prófi skal dregið 1/(5-1) = 0,25%
Fyrir ranga tvíkosta spurningu sem gildir 1% af prófi skal dregið 1/(2-1) = 1,00%


Brot á reglum og agaviðurlög

Þung viðurlög eru í Háskóla Íslands við hvers konar misferli í prófum, verkefnavinnu og ritgerðasmíð. Nemanda sem staðinn er að misferli í prófi er vísað frá prófi. Jafnframt kann nemandinn að missa próftökurétt í öðrum námskeiðum á próftímabilinu. Einnig er heimilt að veita nemandanum áminningu eða víkja honum úr skóla, tímabundið eða fyrir fullt og allt. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi, svo sem ef nemandi leggur fram verkefni eða ritgerð þar sem hann gerir verk eða vinnu annarra að sinni eigin, eða vísar ekki til heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

Verði nemandi uppvís að ámælisverðri hegðun, til dæmis ritstuldi eða misferli í prófi, ber viðkomandi kennara eða öðrum háskólastarfsmanni að vekja athygli deildarforseta á því. Deildarforseti rannsakar málið, boðar nemanda í viðtal, gefur honum kost á andmælum og gerir honum ljóst að forseti viðkomandi fræðasviðs hafi endanlegt úrskurðarvald í málinu af hálfu Háskólans. Hafi nemandinn með óyggjandi hætti gerst sekur um háttsemi sem er andstæð lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, eða reglum settum samkvæmt þeim, getur forseti fræðasviðs veitt honum áminningu eða vikið honum úr Háskólanum um tiltekinn tíma eða að fullu, eftir því hversu alvarlegt brot nemandans telst vera. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta fræðasviðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sbr. 51. gr. reglna nr. 569/2009. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta. Sjá einnig 19. gr. laga um opinbera háskóla.

Ritstuldur (Plagiarism) felst meðal annars í því að texti sem annar hefur skrifað er notaður orðrétt án þess að nota beina tilvitnun, að texti sem annar hefur skrifað er notaður en einu og einu orði er breytt (ekki umorðað) eða að texti sem annar hefur skrifað er umorðaður en heimildar ekki getið. Þegar texti er þýddur þarf að nota beina tilvitnun (nema ef textinn hefur verið umorðaður) annars flokkast það sem plagiarism. Dæmi um vefsíður með góðum upplýsingum um plagiarism:
http://www.academicintegrity.uoguelph.ca/

Leiðbeiningar um notkun ritstuldarforritsins Turnitin fyrir nemendur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar má sjá í sérstökum kafla á vefsíðu Kennslumiðstöðvar en forritið er notað til að bera saman skjöl nemenda við textasöfn. Nánari upplýsingar veitir Arnheiður Sigurðardóttir arnheid [hjá] hi.is.


Reglur um starfsreynslu

 
 

98. gr. Námsframvinda, námsmat, einkunnir og hámarksnámstími

Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild ákveður hvaða forkröfur skuli gilda um aðgang stúdenta að einstökum námskeiðum. Til þess að flytjast milli 2. og 3. námsárs í almennu grunnnámi í hjúkrunarfræði má nemandi eiga eftir eitt próf hið mesta úr námsefni fyrri ára. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum reglum, ef sérstaklega stendur á.

Deildin ákvarðar námsleiðir og kennslugreinar, skiptingu þeirra í námskeið og vægi þeirra, að fengnum tillögum námsnefndar í grunnnámi í hjúkrunarfræði og skal það tilgreint í kennsluskrá. Allar breytingar á kennsluskrá skal tilkynna eigi síðar en við upphaf kennsluárs.
Próf skulu að jafnaði vera skrifleg, en geta verið munnleg eða verkleg eftir ákvörðun deildar.

Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri, er deildarfundi heimilt, að tillögu kennara, að ákveða, að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluáætlun.

Árangur stúdents í verklegu námi skal metinn af þeim kennara sem kennsluna veitir. Einkunn í verklegu námi reiknast ekki til lokaeinkunnar í námskeiði. Þó er kennara það heimilt með samþykki deildar og skal slík ákvörðun þá tilgreind í kennsluáætlun.

Til þess að öðlast BS-gráðu í hjúkrunarfræði verður stúdent að hafa hlotið eigi lægri einkunn en:

 • 6,0 í hjúkrunarnámskeiðum samkvæmt nánari ákvörðun deildar.
 • 5,0 í öðrum námskeiðum.

Stúdent í námi til BS-prófs í hjúkrunarfræði skal hafa lokið prófi eigi síðar en sex árum eftir skráningu. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum tímamörkum ef veikindum eða öðrum gildum ástæðum er til að dreifa.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega að tillögu deildarinnar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í hjúkrunarfræði í samæmi við fjölda klínískra námsplássa á heilbrigðisstofnunum. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs sem hún tekur til.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í Hjúkrunarfræðideild.


Undanþága frá reglum um námsframvindu við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild

Deildarráð getur veitt nemendum, sem vegna barneigna eða langvarandi veikinda nemandans hafa ekki öðlast rétt til að fara á milli ára, undanþágu til að taka námskeið næsta árs að því gefnu að meðaleinkunn þeirra sé ekki lægri en 6,5 og að nemandinn hafi ekki fallið oftar en einu sinni á námsferlinum. Forsendur skráningar í námskeið næsta árs eru að öllum forkröfum fyrir viðkomandi námskeið sé lokið. Áður en leyfið er veitt gerir nemandi námssamning með deildarstjóra þar sem tilgreint er hvenær námskeiðum sem eftir eru á fyrra ári verður lokið og þau námskeið sem nemanda er heimilað að skrá sig í á næsta námsári eru tiltekin. Áframhaldandi nám við deildina er háð því að nemandinn standi við þennan námssamning.

Nemendur þurfa að sækja um undanþágu um námsframvindu til deildarstjóra, Sigrúnu Sigurðardóttur sigrunsi [hjá] hi.is sem fer með erindi nemanda fyrir deildarráðsfund.