Skip to main content

Vefstefna Háskóla Íslands

Fyrir ytri vefsvæði

Vefstefna Háskóla Íslands er unnin af markaðs- og samskiptasviði og vefstjórum fræðasviða Háskóla Íslands í náinni samvinnu við stýrihóp vefmála sem rektor skipar.

Háskóli Íslands, júní 2020.

1. Vefstefna Háskóla Íslands

Ytri vefsvæði Háskóla Íslands eru mikilvægustu miðlarnir sem skólinn hefur til að veita upplýsingar um starfsemi sína.

Vefstefna Háskóla Íslands nær yfir alla miðlun á ytri vefsvæðum skólans. Með ytri vefsvæðum er átt við hi.is, english.hi.is og tengd lén, þar með talin vefsvæði fræðasviða, deilda og námsleiða. Ytri vefsvæði skólans eiga að uppfylla þarfir framangreindra eininga (fræðasviða, deilda og námsleiða) og er þeim með öllu óheimilt að reka sjálfstæð vefsvæði utan skipulags sem þessi vefstefna tekur til.

Öllum þeim sem vinna efni fyrir vefsvæði háskólans og samfélagsmiðla ber að fylgja tilmælum í vefstefnunni. Við uppbyggingu og þróun einstakra vefsvæða skal stefnunni fylgt í einu og öllu.

Vörður vefstefnunnar eru:

  • Traust og áreiðanleiki
  • Þjónusta, fagmennska og gæði
  • Virkni/uppitími og hraði

Vefstefnan nær einnig til samfélagsmiðla sem Háskólinn hagnýtir sér til að koma upplýsingum á framfæri.

Vefsvæði Háskóla Íslands skulu alltaf vera í anda heildarstefnu skólans og í samræmi við lög.

Markmið

Markmið með rekstri ytri vefsvæða Háskóla Íslands er að:

  • Veita trausta stafræna þjónustu.
  • Miðla upplýsingum til allra haghafa um fjölbreytta og mikilvæga starfsemi Háskóla Íslands, m.a. á sviði kennslu, náms, vísindamiðlunar, samfélagstengsla, rannsókna og nýsköpunar.
  • Laða nýja nemendur að skólanum og styðja þá markvisst við val á námi.
  • Tryggja að notendur finni allar upplýsingar og þjónustu með afar einföldum og skjótvirkum hætti.
  • Auka vitund um gildi Háskólans og sýna hvernig starf hans hefur víðtæk samfélagsleg áhrif og tekst á við áskoranir samtímans.
  • Tryggja samfelld, einföld og heildræn notendaskil í öllum helstu tækjum og vöfrum.

Markhópar

Markhópar ytri vefsvæða Háskólans eru verðandi, núverandi og fyrrverandi nemendur skólans, fjölmiðlar, stjórnvöld og atvinnulíf, þ.m.t. samstarfsaðilar, almenningur (hollvinir) og starfsfólk. Efni er sniðið að ólíkum markhópum.

Áherslur

Þróun og smíði vefsvæða Háskóla Íslands skal alltaf byggjast á ítarlegri þarfagreiningu sem unnin er með hliðsjón af þörfum allra haghafa. Áherslur á ytri vefsvæðum eru eftirfarandi í grundvallaratriðum:

  • Leitarvélar
  • Námsleiðir
  • Þjónusta
  • Rannsóknir, nýsköpun og áhrif
  • Samstarf við samfélag og atvinnulíf
  • Starfið / viðburðir / fréttir
  • Skipulag skólans

Útlit - Hönnun og miðlun efnis

Útlit vefsvæða Háskóla Íslands skal vera í takt við hönnunarstaðal skólans og skal hönnun sniðin að þörfum notenda. Vefumsjónarkerfi, sem er í notkun á hverjum tíma, skal geta leyst þessa þætti. Við framsetningu efnis á vefjum Háskóla Íslands er nýtt fjölbreytt miðlun: réttur, einfaldur og lýsandi texti, áberandi myndir og áhersla á myndbönd.

Myndmiðlun

Öll myndmiðlun á vefnum fylgir hönnunarstaðli og miðast við að endurspegla háskólasamfélagið í anda stefnu og gilda skólans: náms- og starfsánægju, jafnréttis og fjölbreytileika, nýsköpunar og tengsla við samfélag og atvinnulíf. Myndefni endurspeglar fjölbreytta kennslu, litríkt mannlíf og mikilvægi rannsókna og áhrif þeirra á samfélag. Myndefni skal sem mest tekið á vettvangi við raunveruleg störf/nám. Allar ljósmyndir á vefsvæðum Háskóla Íslands eru í lit.

Aðgengi

Ytri vefir Háskóla Íslands skulu hafa heildstæða umgjörð og útlit með einföldum notendaskilum fyrir öll helstu tæki og alla útbreidda vafra. Vefirnir eiga að vera hannaðir fyrst með það tæki í huga sem er útbreiddast á hverjum tíma hjá stærstu markhópum. Allt efni á vefjum Háskóla Íslands tekur mið af þörfum ólíkra hópa eins og kostur er, svo sem blindra, sjónskertra, lesblindra, fólks með hreyfihömlun og annarra hópa fólks með fötlun. Farið skal eftir helstu aðgengisstöðlum fyrir fatlaða í vinnu við alla vefi skólans.

Samfélagsmiðlar

Háskóli Íslands nýtir samfélagsmiðla til hartnær sömu þátta og ytri vefi með þeim takmörkunum sem samfélagsmiðlarnir setja varðandi miðlun upplýsinga og þjónustu. Þeir eru einnig nýttir til samskipta við alla haghafa. Háskólinn nýtir sér þá samfélagsmiðla sem mesta útbreiðslu hafa á hverjum tíma og stýrir miðlun miðað við þá markhópa sem eru stærstir á hverjum samfélagsmiðli fyrir sig.

Svartími og virkni

Ytri vefsvæði Háskóla Íslands eiga að hafa mjög áreiðanlega virkni og upptíma með því besta sem þekkist. Svartími á jafnframt að vera með því besta sem þekkist.

Verklagsreglur og gildistími

Í tengslum við vefstefnuna eru settar verklagsreglur og leiðbeiningar sem skýra nánar framkvæmd hennar eftir því sem við á. Þær eru hér í viðaukum og víðar.

Vefstefna Háskóla Íslands er samþykkt af vefstjórum Háskóla Íslands, vefritstjóra, vefritstjóra english.hi.is, sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs, vefstjórum fræðasviða og stýrihópi vefmála.

Allir þeir sem vinna efni á vefsvæði Háskóla Íslands skulu kynna sér stefnuna vandlega. Vefstefnan er endurskoðuð árlega að frumkvæði vefstjóra og sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs í náinni samvinnu við stýrihóp vefmála.

Tengt efni