Skip to main content

Vistfræði í nærsjó og á strandsvæðum

Strandsvæði gegna veigamiklu vistfræðilegu hlutverki, frumframleiðsla er gjarnan mikil, búsvæði eru fjölbreytt og þessi svæði skapa mikilvæga tengingu á milli ferskvatns og sjávar og lands og sjávar. Vegna nálægðar við byggðir og góðs aðgengis að nærsjó þá verða þessi svæði oft fyrir meiri áhrifum af mannanna verkum en úthöf eða djúpsjór. 

Það má segja að hreyfanleiki einkenni lífið á strandsvæðum enda þurfa þær lífverur sem þar búa að lifa við sjávarföll, brim, vorleysingar og fleiri reglulegar breytingar á umhverfinu. Jafnvel á aðeins meira dýpi þar sem áhrifa sjávarfalla gæti minna er algengt að stærri lífverur séu mjög hreyfanlegar. Þannig nýta margar tegundir fiska sem veiðast á strandsvæðum og í nærsjó þessi svæði einungis tímabundið á sinni lífsögu. Í grunnum sjó finnast t.d. uppeldisstöðvar margra þorskfiska og flatfiska, þar eru hrygningarstöðvar og laxfiskar nýta gjarnan strandsjó til fæðunáms að sumri. Þessar ferðir fiskanna á milli standsjávar, úthafa og ferskvatns eiga stóran þátt í því að flytja lífrænt efni og næringarefni á milli þessarra svæða. Slíkir flutningar gera vistkerfi stöðugri og rask að þessum flutningsleiðum getur að sama skapi ógnað stöðugleika.

Rannsóknarverkefni setursins á þessu sviði eru t.d. vistfræði og búsvæðanýting þorskfiskseiða á uppeldisstöðvum, uppruni frumframleiðslu á seiðastöðvum, áhrif umhverfisbreytinga á strandsvæðum á fiskistofna, ferðir laxfiska og flundru milli ferskvatns og sjávar.
 

Vistfræðirannsóknir á Vestfjörðum