Skip to main content

Hvað er matvælafræði?

Matvælafræði er fræði- og vísindagrein sem byggir á grunni raunvísinda og verkfræði. Matvælafræðin er  þverfagleg og læra matvælafræðingar greinar eins og:

  • matvælaefnafræði sem fjallar um efnafræði matvæla eins og samsetningu, byggingu og breytingar sem eiga sér stað við vinnslu og geymslu.
  • matvælavinnsla og matvælaverkfræði fjalla um framleiðslu og þá tækni sem notuð er við gerð og geymslu matvæla.
  • matvælaörverufræði fjallar um örverur sem notaðar eru í matvælavinnslu eins og við vinnslu mjólkurvara og bjór- og víngerð og um skaðleg áhrif örvera þar sem fjallað er um matvælaöryggi, geymsluþol, gæðaeftirlit og gæðastaðla.
  • næringarfræði fjallar um afdrif næringarefna í líkamanum og áhrif næringarefna á vöxt, heilsu og líðan.
  • skynmat er ríkur þáttur í störfum matvælafræðinga en þar er vísindalegum aðferðum beitt við smökkun og aðra skynjun matvæla.
  • líftækni í matvælaiðnaði við þróun og framleiðslu á lífefnum og heilsuvörum og við þróun á hefðbundinni matvælavinnslu eins nýjungar í og bjór- og ostagerð.
  • vöruþróun, nýsköpun og neytendafræði fjalla um vöruþróun frá hugmynd að fullunninni vöru, almennt um nýsköpun og tengsl við neytendur.

Tækifæri á sviði matvælafræði og líftækni eru mikil og uppbygging á þessum sviðum mikilvægur grundvöllur aukinnar verðmætasköpunar og aukinna útflutningstekna í íslensku hagkerfi. Áhugi almennings á góðum og næringarríkum matvælum fer einnig vaxandi, matvælaframleiðsluþörf heimsins eykst sífellt og allt þetta kallar á matvælafræðinga til margra starfa í þjóðfélaginu og á alþjóðavettvangi.