Háskóli Íslands vill leggja sitt að mörkum við að efla til vistvænni samgöngumáta hjá starfsmönnum og nemendum. Stærsti hluti af losun af starfsemi HÍ er vegna samgangna og með því að velja vistvænan ferðamáta er hægt að stíga stórt skref í rétta átt! Hér að neðan má finna ýmsan fróðleik tengdum vistvænum samgöngum. Hjólreiðar við HÍ Hjólastandar eru við allar byggingar Háskóla Íslands auk þess sem finna má yfirbyggt hjólaskýli við Lögberg og VR II. Við Háskólatorg, VR II og Stakkahlíð eru enn fremur að finna viðgerðarstand ef eitthvað smálegt þarf að laga á hjólinu þínu. Hjólakort HÍ Á vefsíðu íþróttahúss HÍ er að finna kort þar sem sýndur er radíus tímavegalengda frá Háskóla Íslands. Hjólað í vinnuna Háskóli Íslands hefur tekið þátt í átakinu Hjólað í vinnuna frá árinu 2015. Markmið átaksins er að hvetja fólk til þess að nota umhverfisvænan samgöngumáta á leið til vinnu. Hjólavottun Háskóli Íslands hefur hlotið silfur í hjólavottun fyrir bæði Stakkahlíð og miðsvæði HÍ. Flugsamgöngur Loftslagsbreytingarnar er einn stærsti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir og hvað neikvæð áhrif einstaklinga varðar vegur flugið einna þyngst. Við búum á eyju þannig að ekki er alltaf hægt að komast hjá því að fljúga, en spurningin er hvort öll flug séu jafn mikilvæg. Við hvetjum starfsfólk Háskóla Íslands og aðra háskólaborgara til að hugsa sig um áður en flogið er. Hér er ákvörðunartré til að hjálpa ykkur að svara spurningunni „Á ég að fljúga?“ Ákvörðunartré fyrir flug Á eftirfarandi grafi má sjá losun koltvísýrings (CO2) vegna flugsamgangna starfsmanna Háskóla Íslands fyrir árið 2018-2020, bæði vegna innanlands- og millilandaflugs. Losun vegna flugsamgangna í Háskóla Íslands. Við hvetjum starfsfólk Háskóla Íslands sem dvelja erlendis að leitast eftir að gista á stöðum sem uppfylla vandaðar umhverfiskröfur, samanber Svaninn, Evrópublómið, Græna lykilinn, ISO 14001, gullmerki Vakans eða sambærilega vottun. Fækkun bílferða Um 90% af losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Háskóla Íslands má rekja til samgangna. Hér er að finna nokkur góð ráð við að fækka bílferðum Rafdeilibílar HÍ Starfsfólki Háskóla Íslands stendur til boða að bóka rafmagnsdeilibíla til afnota til að sinna vinnutengdum erindum. Rafmagnsdeilibílarnir eru staðsettir við Háskólatorg, Tæknigarð, Öskju, Læknagarð og Stakkahlíð og fer bókun fram í gegnum Uglu. Hleðslustöðvar fyrir rafbíla Hleðslustöðvar Orku Náttúrunnar eru á tveimur stöðum á háskólasvæðinu: Við Stakkahlíð eru tvær hleðslustöðvar, fjórir geta hlaðið í einu (22,1 kW) Við Tæknigarð eru þrjár hleðslustöðvar, sex geta hlaðið í einu (22,1 kW) Bílastæðin við hleðslustöðvarnar eru ekki ætluð til almennra nota heldur einungis fyrir þá aðila sem hyggjast nýta sér þjónustuna. Fjarfundir Hægt er að fækka óþarfa ferðum og spara þannig ferðakostnað og tíma, meðal annars með góðum fundarsíma, fjarfundabúnaði eða tölvupósti. Inn á vef Upplýsingatæknisviðs (UTS) Háskóla Íslands er að finna góðar leiðbeiningar um notkun fjarfundabúnaðar. facebooklinkedintwitter