Skip to main content

Rannsóknir við Lyfjafræðideild

Rannsóknir við Lyfjafræðideild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Lyfjafræðideild er sterk rannsóknareining innan Háskóla Íslands þar sem stundaðar eru margvíslegar rannsóknir á hinum mörgu sviðum lyfjafræðinnar.

Samstarf er við fjölmarga aðila innanlands og utan, háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki. Kennarar í lyfjafræði eru aðilar að norrænum og evrópskum kennslu- og rannsóknarnetum sem gefur nauðsynleg tengsl við það sem er að gerast annars staðar og gerir nemendum mögulegt að taka hluta af sínu námi erlendis.

Kennarar Lyfjafræðideildar eru virkir vísindamenn á sínu sviði og þátttaka þeirra í hinu alþjóðlega vísinda- og rannsóknarsamfélagi hefur vaxið verulega hin síðari ár. Hér á landi hafa kennarar við Lyfjafræðideild haldið og skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur, þar sem meðal annars hefur verið fjallað um efnafræði sýklódextrína, klínískar lyfjarannsóknir og slímhimnu-ónæmisfræði, kemómetríu og efnisverkfræði í lyfjaþróun.

Rannsóknasérsvið kennara við deildina eru mjög fjölbreytt og beinast þær meðal annars að lyfjameðferðum og lyfjaþróun, lyfhrifafræði og faraldsfræði, nanólyfjaberum, gegndræpiseiginleikum lyfjaefna, lyfjagjöf, fjöllyfjameðferðum og fleiru.

Sérsvið kennara við Lyfjafræðideild

Með virkum rannsóknum og kennslu í lyfjafræði er lagt af mörkum í þekkingarsköpun fyrir íslenskt samfélag á sviði heilbrigðis- og lífvísinda. Rannsóknarþjálfun á sviði lyfjafræði nýtist ekki einungis við hefðbundnar lyfjafræðilegar rannsóknir, heldur einnig sem þáttur í stærri heildarmynd rannsókna á heilbrigðissviði. Með vaxandi samstarfi og samvinnu er hægt að takast á við og leysa flóknari og viðameiri verkefni en ella.

Lyfjafræðideild býður upp á rannsóknatengt framhaldsnám í lyfjavísindum.