Skip to main content

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur

Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar. Samkvæmt erfðaskránni skal nota sjóðinn til eflingar íslenskri tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands telur að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði er sett að sjóðurinn verði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði, en gangi ekki til almenns rekstrarkostnaðar háskólans.

Fyrst af öllu er sjóðnum ætlað styrkja málefni er stuðla að eflingu íslenskrar tungu.

Styrkir skulu veittir starfsmönnum eða nemendum Háskóla Íslands til sérverkefna á vegum háskólans á sviði íslenskra fræða er falla að þessu markmiði, s.s. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða tækja og búnaðar í þágu tilgangs sjóðsins. Sérstaklega skal stutt við verkefni er lúta að ritfærni og þjálfun nemenda allra fræðasviða háskólans við beitingu íslensks máls og til að styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.

Sjóðurinn er stofnaður af Háskóla Íslands til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.