Skip to main content

Vistfræði farfugla

​Langtímarannsóknir á merktum einstaklingum eru eina leiðin til að leysa ýmis vandamál í vistfræði og þróunarfræði. Slíkar rannsóknir gera rannsakendum meðal annars kleyft að tengja mismunandi lífsferilsstig, skoða félagskerfi, mæla hvernig tímgunarárangur breytist yfir ævina og í tilfelli farfugla að tengja hvernig atburðir sem verka á fjarlægum stöðum á mismunandi árstímum spila saman við takmörkun stofna. Á Íslandi er stór hluti fuglafánunnar farfuglar. Hér eru afar góðar aðstæður til að rannsaka farfuglastofna en einangrun landsins, norðlæg staða og breytileiki í búsvæðum auðvelda ýmsar mælingar á tímasetningum og varpárangri.

Jaðrakan

Mikilvægur hluti af rannsóknum við setrið eru nokkur verkefni á einstökum tegundum sem sýna breytileika í lífsháttum og lengd farflugs. Tímalengd verkefnanna er misjöfn en rannsóknir á jaðrakan hófust 1999 en rannsóknir á spóa, sandlóu og tjaldi seinna. Tíminn vinnur með langtímarannsóknum af þessu tagi en þær gefa einstaka innsýn í tengsl umhverfis og stofna með tímanum. Hér er stutt umfjöllun um þessi verkefni.

Rannsóknir á jaðrakan hafa verið í öndvegi rannsókna setursins í mörg ár og ýmis önnur verkefni hafa byggt á þeim grunni. Jaðrakanarannsóknir eru unnar í nánu samstarfi við Jenny Gill við University of East Anglia og ýmsa fleiri. Rannsóknirnar hafa verið leiðandi í því að tengja atburði sem verka á farfugla á varp- og vetrarstöðvum og hafa getið af sér margar greinar í virtustu fagtímaritum, s.s. í Nature, Proceedings of the Royal Society, Journal of Animal Ecology, Ecology og fleirum. Það sem gerir jaðrakana að óvenjugóðu kerfi til að rannsaka farfuglastofna er að mjög margir merktir fuglar sjást utan Íslands en fjöldi sjálfboðaliða víða um Evrópu sendir okkur athuganir af merktum fuglum. Þannig má fylgjast með einstaklingum árið um kring og byggja upp þekkingu á því hvernig varp- og vetrarstöðvar spila saman við að stjórna stofninum. Gott yfirlit um framlag sjálfboðaliða við rannsóknirnar má sjá á Wadertales bloggi Graham Appleton. Rannsóknir á jaðrakan hafa sýnt hvernig atburðir sem verka á einstaklinga á mismunandi tímum árs eru nátengdir og hvernig þetta samspil getur haft áhrif á stofna. 

Spói

Spóinn er einn algengasti landfugl á Íslandi (ennþá) og stór hluti heimsstofns spóa verpur hér. Ólíkt jaðrakan sem fer aðeins til Evrópu á veturna ferðast spóinn alla leið til Afríku eða um 6000 km. Þessa leið fara þeir í einum rykk án þess að stoppa að hausti og tekur ferðalagið að jafnaði rúmlega fjóra sólarhringa. Spóar veita áhugaverðan samanburð við jaðrakana því þessir fuglar eru á mismunandi ferðaáætlun en deila annars ýmsum kjörum yfir sumarið. Rannsóknir á spóa hófust sumarið 2009 með rannsóknum Borgnýar Katrínardóttur á lýðfræði spóa í mismunandi búsvæðum og rannsóknum á áhrifum eldvirkni á varpárangur. Á síðustu árum hafa spóar verið merktir með hnattstöðuritum (geolocators) sem gera kleyft að fylgjast með ferðum einstaklinga yfir árið og tengja ferðir þeirra við varpið hér á landi og er rannsóknin hluti af doktorsverkefni Camilo Carneiro.

Sandlóa

Öll viðfangsefni rannsókna hafa kosti og galla. Til dæmis er auðvelt að fylgjast með ferðum jaðrakana yfir árið en á móti eru þeir mjög felugjarnir í varpi svo erfitt er að afla góðra upplýsinga um varpárangur þeirra. Sandlóan sýnir aftur á móti mikinn samstarfsvilja í varpi og það er auðvelt að veiða og merkja varpfugla og að fylgjast með varpárangri þeirra. Þessir kostir gera að verkum að það er fremur auðsótt að stunda rannsóknir á þeim þáttum sem stjórna stofnum á varpstöðvum hjá sandlóu. Sandlóan sýnir áhugaverðan breytileika í farháttum en sumar ferðast til Evrópu á veturna en aðrar til Afríku. Rannsóknir á sandlóum hófust 2004 með meistaraverkefni Böðvars Þórissonar og hafa að mestu haldið áfram síðan. Nú standa yfir merkingar með hnattstöðuritum til að tengja farhætti einstaklinga betur við atburði í varpi.

Tjaldur

Breytingar á stofnum og farháttum farfugla standa yfir víða um heim samhliða breytingum á loftslagi en drifkraftar þessara breytinga eru að mestu óþekktir. Nauðsynlegt er að bæta skilning á því flókna samspili vistfræði og atferlis sem stjórnar viðbrögðum stofna við loftslagsbreytingum svo hægt sé að þróa verndaráætlanir fyrir farfugla. Stofnar sem sýna breytileika í farháttum eru sérlega gagnlegir í þessu efni því þá er hægt að skoða hvernig einstaklingsmunur í farháttum hefur áhrif á lífslíkur og nýliðun. Rannsóknir á tjöldum hófust 2012 en tjaldur er bæði farfugl og staðfugl á Íslandi sem veitir einstakt tækifæri til að bera saman einstaklinga sem hafa mismunandi hreyfingamynstur yfir árið. Veronica Méndez nýdoktor stundar nú rannsóknir á farhegðun og stofnvistfræði tjalda í samstarfi við Jenny Gill hjá háskólanum í Austur Anglíu og rannsóknir á fleiri stofnþáttum eru í vinnslu. Ágætt yfirlit yfir tjaldarannsóknirnar má finna á Wadertales blogginu.