Skip to main content

Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við HÍ

Samþykkt af háskólaþingi 14. nóvember 2013 og af háskólaráði 5. desember 2013

Háskóli Íslands hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra til að bjóða nám til bakkalár-, meistara- og doktorsprófs á öllum fræðasviðum sínum, skv. lögum um háskóla nr. 63/2006, reglum um viðurkenningu háskóla nr. 1067/2006 og reglum um doktorsnám í háskólum nr. 37/2007. Var viðurkenningin veitt að undangenginni faglegri úttekt erlendra sérfræðinga á gæðum starfseminnar.

Við Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á að nám sé í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur og starfrækir skólinn formlegt gæðakerfi sem tekur til allra þátta starfseminnar, náms og kennslu, rannsókna og nýsköpunar, stjórnsýslu og stoðþjónustu. Árið 2004 samþykktu háskólafundur og háskólaráð formleg Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands og voru þau endurskoðuð árið 2012.

Árið 2006 var sett á laggirnar gæðanefnd háskólaráðs og árið 2009 Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Hlutverk hennar er að tryggja og efla gæði framhaldsnáms við skólann og fylgja eftir settum viðmiðum og kröfum um námið, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglur Háskóla Íslands um framhaldsnám hafa síðan verið endurskoðaðar og hafa öll fræðasvið skólans útfært þær með nánari reglum.

Loks er í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 kveðið á um að á stefnutímabilinu verði skilgreind Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands og er þetta plagg niðurstaða þeirrar vinnu.

Viðmiðin og kröfurnar fjalla ekki sérstaklega um diplómanám á meistarastigi, þótt fjölmörg atriði sem hér koma fram eigi einnig við um slíkt nám.

Viðmiðin má lesa í heild sinni í PDF-útgáfu hér fyrir neðan.

Prentútgáfa