Fullt nám í eitt kennsluár er metið til 60 eininga í Háskóla Íslands, 30 einingar á hvoru misseri. Einingar við HÍ eru jafngildar ECTS-einingum (European Credit Transfer and Accumulation System). Einingamat Námskeiðum eru gefnar einingar í hlutfalli við innbyrðis vægi þeirra og samtala eininga allra námskeiða á sama kennsluári er 60, eða 30 á hvoru misseri. Skipting eininga á milli missera getur í einstökum tilvikum verið til dæmis 28/32 í stað 30/30. Stúdent er þó heimilt að skrá sig í allt að 40 ECTS-einingar á misseri. Nám til BA-, B.Ed.- og BS-prófa er 180 ECTS-einingar (3 ár) í flestum tilvikum. BS-próf í hjúkrunarfræði er 240 einingar (4 ár). Almennt er miðað við að nám í eitt háskólaár sé 1.500 til 1.800 vinnustundir. Það gera 25 til 30 vinnustundir fyrir hverja ECTS-einingu. Sjá nánar um einingamat og ECTS í kennsluskrá. Einkunnir Einkunnir eru gefnar í heilum eða heilum og hálfum tölum frá 0 - 10. Aðaleinkunn er vegið meðaltal allra einkunna til lokaprófs og reiknast hún með tveimur aukastöfum. Ágætiseinkunn er 9,0 - 10. Fyrsta einkunn er 7,25 - 8,99. Önnur einkunn er 6,0 - 7,24. Þriðja einkunn er 5,0 - 5,99. Stúdent telst ekki hafa staðist próf nema hann hljóti einkunnina 5,0. Samkvæmt sameiginlegum reglum Háskóla Íslands er háskóladeildum heimilt að víkja frá þessu í einstökum prófum sem teljast til prófhluta eða prófflokks með sérstaka lágmarkseinkunn. Einkunnir birtast nemendum í Uglu undir Uglan mín → Námskeiðin mín. Hjá Þjónustuborði geta nemendur fengið útprentuð stöðluð yfirlit þar sem einkunnir koma fram. Nánari upplýsingar um einingamat og einkunnir er að finna í kennsluskrá. Í köflum einstakra deilda má einnig finna upplýsingar um námsmat, einkunnir og próf. facebooklinkedintwitter