Hér má sjá brot af umsögnum ánægðra nemenda við Matvæla- og næringarfræðideild. Umsagnirnar má einnig sjá á upplýsingasíðum viðkomandi námsleiða. Snorri Karl Birgisson, BS og MS í matvælafræði „Ég valdi matvælafræði vegna þess að ég hef unnið í nokkrum störfum sem tengjast sjávarútvegi og hef áhuga á að vita hvernig þetta allt virkaði. Í matvælafræði sá ég möguleika á að öðlast meiri þekkingu í nýsköpun, stjórnun og gæðaeftirliti. Einnig hef ég oft heyrt að það vanti matvælafræðinga á atvinnumarkaðinn.“ Thelma Rut Grímsdóttir, MS í klínískri næringarfræði „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat og næringu auk þess sem mér finnst áhugavert að vita hvernig líkaminn starfar, þess vegna fannst mér næringarfræðin alveg tilvalin fyrir mig. Ég sé mörg tækifæri í næringarfræðinni í framtíðinni, meðal annars vegna þess að það er aukin vitundarvakning í samfélaginu um mikilvægi góðrar næringar.“ Páll Arnar Hauksson, BS og MS í matvælafræði „Ég valdi matvælafræði vegna þess að ég vildi öðlast yfirgripsmikla þekkingu á matvælum, efnasamsetningu þeirra og vinnsluaðferðum. Ég hef sérstakan áhuga á vöruþróun og rannsóknum og sé fram á að starfa á þeim vettvangi að námi loknu.“ Vignir Snær Stefánsson, BS í næringarfræði „Næring er einn af þeim þáttum sem gerir það að verkum að líf getur þrifist. Hver einasta lífvera hér á jörð er háð næringu á einn eða annan hátt og hún skiptir sköpun þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl. Hún stuðlar að því að við vöxum og þroskumst og er stór partur af lífi hvers og eins. Það gerir það líka að verkum að margir hafa skoðun á málinu og oft mismunandi. Mér fannst því kjörið að taka slaginn á næringarfræði og komast að því hverju vísindin hafa í dag komist að um heilbrigt samband fæðu og manns og hvaða spennandi þekking er að verða til.“ Hildur Inga Sveinsdóttir. BS, MS og PhD í matvælafræði „Ég valdi matvælafræði af því að ég hef mikinn áhuga ýmsu tengdu matvælaiðnaði þá sérstaklega gæðum og öryggi matvæla. Einnig hef ég alltaf haft gaman af raungreinum og því heillaði kennsluskráin sérstaklega en þar er nokkuð mikil áhersla á efnafræði. Í framhaldi af þeirri miklu vitundarvakningu sem hefur orðið í samfélaginu er varðar mataræði og matvæli almennt tel ég atvinnumöguleika matvælafræðinga að námi loknu vera mjög góða.“ Birna Þórisdóttir, BS, MS og PhD í næringarfræði „Námið í næringarfræði er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég skipti úr annarri deild innan Heilbrigðisvísindasviðsins eftir eitt ár og vegna þess hve næringarfræðin (sem og flestar námsgreinar innan Heilbrigðisvísindasviðsins) byggir á sterkum grunni m.a. í efnafræði, lífeðlis- og líffærafræði fékk ég mikið metið og hef í vetur setið hluta af 1. árs og hluta af 2. árs námskeiðum. Skemmtilegt er hversu fljótt hafist er handa við að læra næringarfræðina sjálfa, en bæði á 1. og 2. ári eru krefjandi en skemmtileg næringarfræðinámskeið. Í náminu er hægt að sérhæfa sig í ýmsar áttir, sem endurspeglast í því að á 2. og 3. námsári eru spennandi valnámskeið í boði á ýmsum sviðum auk næringarfræðinnar, m.a. í íþróttafræði, sálfræði, viðskiptafræði, matvælafræði o.fl. Miklir möguleikar eru fyrir áhugasama einstaklinga að komast fljótt í tengsl við alvöru störf sem næringarfræðingar framkvæma, m.a. mun mun hópur næringarfræðinema sem lokið hafa 1. ári eða meira taka þátt í að framkvæma Landskönnun á mataræði næsta vetur. Ég tel atvinnumöguleika að námi loknu vera góða þar sem næringarfræðingar koma víða við og tilfinningin er sú að næringarfræðin sé vísindagrein sem eigi eftir að vaxa og dafna á næstu árum. Mín reynsla af náminu hingað til er mjög ánægjuleg. Mikil áhersla er lögð á að þjálfa vísindaleg vinnubrögð og gagnrýna hugsun ásamt því að læra um mannslíkamann og áhrif næringar á hann, allt frá því að skoða það hvernig frumur taka til sín næringu upp í að læra um næringarfræðilega sjúkdóma sem hafa áhrif á heimsvísu. Meðfram náminu í vetur hef ég æft íþróttir og dansað í háskóladansinum og skemmt mér konunglega.“ Telma Björg Kristinsdóttir, BS í næringarfræði og MS í matvælafræði „Námið í næringarfræði er í stuttu máli sagt fjölbreytt, áhugavert og krefjandi. Við komum gríðarlega víða við og lærum sérstaklega mikið um mannslíkamann, eðlilega. Við lærum um hvernig meltingarfærin verða til og þroskast í móðurkviði, hvernig þau starfa við að brjóta niður matinn sem við innbyrðum, hvernig upptaka næringarefna og nýting fer fram og svo hvernig efnin koma til góðs í viðhaldi og starfi líkamans. Systurfög næringarfræðinnar eru mörg og meðal þeirra er vísindin um matvæli, hvernig eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum þau eru gædd, hvaða örverur hafa slæm og jafnvel góð áhrif á matvæli og hvernig framleiðsla og vinnsla getur haft áhrif á næringarefni. Námið gengur út á það að skilja þátt næringarefna í vexti og heilbrigði einstaklinga sem og að fræðast um kvilla og sjúkdóma sem tengjast næringu og orkuefnum, í fljótu bragði er þar að nefna offitu með sína fylgikvilla sem og vannæringu og átraskanir. Þegar fólk veikist alvarlega getur það oft haft í för með sér breytingar á getu líkamans til nýtingar á orku- og næringarefnum eða þörf á meðferðum þar sem næringin spilar stóran þátt. Mín reynsla af náminu hingað til er mjög góð. Mér finnst ég vera feta einhvers konar sannleiksstíg þar sem gagnrýnin hugsun og tilhneiging til vísindalegra vinnubragða vex og styrkist sem og að ég skil betur og betur starf mannslíkamans, allt frá heildarmyndinni niður í einstöku frumulíffæri.“ Atli Arnarson, PhD í næringarfræði „Mikill áhugi á lífeðlisfræði leiddi mig út í nám í næringarfræði en flestar rannsóknir innan næringarfræðinnar tengjast sterkt inn á þá fræðigrein. Ég hef starfað við ýmsar rannsóknir á Rannsóknastofu í næringarfræði, en mestur tími fer þó í doktorsverkefnið mitt sem fjallar um áhrif mjólkurpróteina á árangur styrktarþjálfunar og ýmsar heilsufarsbreytur meðal aldraðra. Ég hef einnig kennt sem leiðbeinandi í verklegum æfingum í nýja BS náminu í næringarfræði eftir að ég lauk MS námi sjálfur í greininni. Áður en ég hóf undirbúningsnám fyrir MS námið í næringarfræði lauk ég BS námi í líffræði við Háskóla Íslands vorið 2005. Þessar fræðigreinar eiga vel saman.“ Reynir Björgvinsson, BS og MS í matvælafræði „Ástæðan fyrir því að ég valdi matvælafræði frekar en annað fag var sú að ég tel mikla atvinnumöguleika í framtíðinni fyrir matvælafræðinga og að þörfin fyrir einstaklinga með þessa menntun muni bara aukast með tímanum. Menn þurfa jú alltaf að borða þannig að það er sjaldan mikil kreppa í þessum geira.“ Björn Kristmannsson, BS í matvælafræði „Ég valdi matvælafræði vegna þess að ég hef áhuga á ýmsu tengdu matvælaiðnaði s.s. flutningi og geymslu matvæla og einnig fiskvinnslu. Námið inniheldur mikið af raungreinum, ein af aðal greinunum er efnafræði og mæli ég sterklega með því að hafa góðan gurnn í þeim fræðum fyrir þetta nám.“ Ellen Alma Tryggvadóttir, MS í næringarfræði „Ég var að spá í að fara í líffræði því mig langaði að læra meira í raunvísindum. En þar sem ég hef svo mikinn áhuga á matreiðslu og næringu skoðaði ég kennsluskrána og sá þar að næringarfræðin var blanda af næringarfræði, efnafræði, lífeðlisfræði, líffræði o.s.frv. svo þetta var fullkomið fyrir mig.“ Adda Bjarnadóttir, MS í næringarfræði „Ég hafði brennandi áhuga á líkamsrækt og næringu þegar ég ákvað að byrja í næringarfræði, ásamt miklum áhuga á lífeðlis- og lífefnafræði. Í næringarfræðinni sá ég tækifæri til að læra meira um næringu alveg niður í ítrustu efnaferla, hvar og hvernig ég gæti aflað mér réttra upplýsinga og staðið fyrir rökréttum og marktækum svörum við mikið af þeim staðhæfingum sem verið er að halda fram um næringu og næringarfræði út um allt í samfélaginu í dag.“ facebooklinkedintwitter