Skip to main content

Málstefna Háskóla Íslands

Stefna samþykkt á háskólaþingi 26. apríl og í háskólaráði 2. nóvember 2023

Háskóli Íslands er helsta vísinda- og menntastofnun íslensku þjóðarinnar og skal m.a. vinna að „miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls“ samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006.

Háskólanum ber því rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu og sjá til þess að hún sé nothæf – og notuð – á öllum fræðasviðum. Jafnframt er skólinn hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi og virkur þátttakandi í margs kyns alþjóðlegu samstarfi á sviði kennslu, rannsókna og stjórnunar. Málstefna Háskólans mótast af þessu tvíþætta hlutverki hans og er ætlað að styðja bæði við íslensku og alþjóðlegt starf skólans.

Talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu. Íslenska er því sjálfgefið tungumál í öllu starfi skólans og notuð nema sérstakar ástæður séu til annars. Þetta er í samræmi við lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011. Samkvæmt þeim lögum er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og nýtur því einnig sérstakra réttinda innan Háskólans.

Enska er einnig mikilvæg í starfi Háskólans, vegna kennara og stúdenta með annað móðurmál en íslensku, þjálfunar stúdenta til þátttöku í alþjóðlegu akademísku starfi, og þátttöku skólans í alþjóðlegu samstarfi. Því er lögð áhersla á að víðtækar og ítarlegar upplýsingar um skólann og starfsemi hans séu aðgengilegar á ensku á ytri vef skólans og í Uglu. Skólinn hvetur jafnframt til þess að stúdentar og starfsfólk nýti önnur erlend mál en ensku í starfi sínu ef þess er kostur.