Málstefna Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content

Málstefna Háskóla Íslands

Samþykkt á háskólaþingi 10. maí og í háskólaráði 19. maí 2016

Stefna

Háskóli Íslands er helsta vísinda- og menntastofnun íslensku þjóðarinnar og skal m.a. vinna að „miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls“ samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006.

Skólanum ber því rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu og sjá til þess að hún sé nothæf – og notuð – á öllum fræðasviðum. Jafnframt er skólinn hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi og virkur þátttakandi í margs kyns alþjóðlegu samstarfi á sviði kennslu, rannsókna og stjórnunar. Málstefna Háskólans mótast af þessu tvíþætta hlutverki hans, enda segir í stefnu skólans 2016-2021 að málstefnan skuli „styðja bæði við íslensku og alþjóðlegt starf skólans“.

Grundvallaratriði málstefnunnar er að talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu.

Íslenska er því sjálfgefið tungumál í öllu starfi Háskólans og notuð nema sérstakar ástæður séu til annars. Þetta er í samræmi við þingsályktun um íslenska málstefnu frá 2009 og lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011. Samkvæmt þeim lögum er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta, og nýtur því einnig sérstakra réttinda innan Háskólans.

Enska er einnig mjög mikilvæg í starfi Háskólans, vegna erlendra kennara og stúdenta, vegna þjálfunar stúdenta til þátttöku í alþjóðlegu akademísku starfi, og vegna þátttöku skólans í margs kyns alþjóðlegu samstarfi. Því er lögð áhersla á að sem víðtækastar og ítarlegastar upplýsingar um skólann og starfsemi hans séu aðgengilegar á ensku á ytri vef skólans og í Uglu.

Skólinn hvetur einnig til þess að stúdentar og kennarar nýti önnur erlend mál en ensku í starfi sínu ef þess er kostur.

Útfærsla og framkvæmd

 1. Meðferð íslensks máls í ræðu og riti innan Háskóla Íslands verði til fyrirmyndar, bæði hjá stúdentum og starfsfólki. Ritver Háskólans verði efld og þeim gert kleift að þjóna stúdentum á öllum sviðum skólans. Kennarar eigi kost á málfarsráðgjöf og annarri sérhæfðri leiðsögn við að koma námsefni á framfæri á íslensku. Slíkri ráðgjöf mætti til dæmis koma fyrir hjá Kennslumiðstöð eða ritverum.

 2. Kennslutungumál námsleiða og einstakra námskeiða verði tilgreind í kennsluskrá þannig að alltaf sé ljóst fyrir fram hvenær vikið er í kennslu frá þeirri meginreglu að íslenska sé tungumál Háskólans. Fái erlendir stúdentar heimild til að sækja námskeið sem kennt er á íslensku samkvæmt kennsluskrá leitist kennarar við að koma til móts við þá án þess þó að skipta um kennslutungumál.

 3. Íslenska sé sjálfgefið kennslumál í grunnnámi, nema í tungumálakennslu. Kennsla á ensku verði bundin við námsleiðir sem sérstök ástæða er til að kenndar séu á ensku; námskeið kennara sem ekki hafa íslensku að móðurmáli; og námskeið sem verður að kenna á ensku vegna alþjóðlegs samstarfs skólans. Skyldunámskeið í grunnnámi, nema í tungumálakennslu og námsleiðum á ensku, verði að jafnaði kennd á íslensku.

 4. Íslenska sé sjálfgefið kennslumál í framhaldsnámi, nema í tungumálakennslu, en deildir geti þó ákveðið að framhaldsnám þeirra verði á ensku að einhverju eða öllu leyti. Ef kennari er íslenskumælandi og engir erlendir stúdentar eru í nemendahópnum geti deild heimilað að kennsla fari fram á íslensku þótt í kennsluskrá sé tilgreint að námskeiðið sé kennt á ensku.

 5. Námsmat fari fram á sama tungumáli og kennsla. Í námskeiðum (öðrum en tungumálanámskeiðum) kenndum á ensku af íslenskumælandi kennara geti deild heimilað stúdentum að skila verkefnum og taka próf á íslensku. Í námskeiðum kenndum á íslensku geti deild heimilað stúdentum með annað móðurmál að skila verkefnum og taka próf á öðru tungumáli.

 6. Þótt enska sé megintungumál doktorsritgerða geti þær verið á íslensku ef doktorsnemi óskar, reglur deildar heimila og aðstæður leyfa. Viðkomandi deild og Miðstöð framhaldsnáms meti í hverju tilviki hvort óháðir íslenskumælandi sérfræðingar með nægilega sérþekkingu séu tiltækir þannig að örugglega verði unnt að fá hæfa andmælendur sé ritgerð skrifuð á íslensku.

 7. Fastir kennarar og stjórnendur með annað móðurmál en íslensku sinni starfi sínu á íslensku eftir eðlilegan aðlögunartíma. Við ótímabundna ráðningu verði tekið tillit til færni til að kenna og sinna stjórnunarstörfum á íslensku. Vísað verði til málstefnu Háskólans í starfsauglýsingum. Skólinn bjóði upp á ókeypis íslenskunámskeið ætluð erlendum kennurum sem geti sótt um kennsluafslátt vegna þátttöku í þeim.

 8. Kennurum og stúdentum með annað móðurmál en ensku verði auðveldað að taka þátt í háskólastarfi á ensku. Námskeið í akademískri ensku fyrir kennara og stúdenta verði efld og gerð skylda í doktorsnámi þar sem við á. Komið verði á sérstakri stoðþjónustu í ensku fyrir stúdenta, til dæmis hjá ritverum eða Tungumálamiðstöð, til að auðvelda þeim nám og ritgerðaskrif á ensku.

 9. Stúdentum með annað móðurmál en íslensku verði auðveldað að taka þátt í námi og öðru starfi á íslensku innan Háskólans. Erlendir stúdentar sem hefja nám kennt á íslensku gangist undir leiðbeinandi stöðupróf í málinu. Þeir eigi kost á íslenskunámskeiðum til að auðvelda þeim að fylgjast með kennslu á íslensku. Skiptistúdentar eigi kost á sérstökum íslenskunámskeiðum og öðrum stuðningi eftir því sem við á.

 10. Í námsleiðum og námskeiðum kenndum á ensku verði gerðar ákveðnar lágmarkskröfur um enskukunnáttu til stúdenta. Erlendum stúdentum með annað móðurmál en ensku sem sækja um inngöngu í nám kennt á ensku verði gert að sýna fram á lágmarkseinkunn á viðurkenndu alþjóðlegu enskuprófi fyrir útlendinga. Deildir skilgreini lágmarkskröfur um enskukunnáttu skiptistúdenta.

 11. Komið verði til móts við þarfir táknmálstalandi stúdenta og starfsfólks þannig að notendur íslenska táknmálsins geti nýtt táknmálið til jafns við íslensku við nám og störf í Háskólanum. Táknmálstúlkar verði tiltækir þegar þeirra er þörf, bæði í kennslustundum og öðrum samskiptum kennara og stúdenta, svo og á fundum og fyrirlestrum ef við á.

 12. Kennarar verði hvattir til að miðla fræðum sínum á íslensku til stúdenta og almennings í bókum, greinum, kennsluefni og á annan hátt. Fræðibækur og fræðigreinar á íslensku geti gefið þjónustustig til viðbótar rannsóknastigum. Einnig verði unnt að veita þjónustustig fyrir aðra miðlun fræðilegs efnis á íslensku, svo sem samningu kennsluefnis, ráðgjöf til stjórnvalda og almennings og þátttöku í samfélagsumræðum.

 13. Kennarar verði hvattir til að sinna íðorðasmíð í fræðigrein sinni og miðla íðorðum til stúdenta og almennings. Einstakar kennslu- og fræðigreinar beiti sér fyrir skipulegri íðorðasmíð og íðorðasöfnun, hver á sínu sviði. Kennarar verði einnig hvattir til að sinna þýðingum fræðirita, kennsluefnis og bókmennta á íslensku. Unnt verði að veita kennurum umbun innan matskerfis Háskólans fyrir störf á þessu sviði.

 14. Allir fundir og önnur starfsemi námsbrauta, deilda og sviða Háskólans, svo og nefnda í stjórnsýslu skólans, fari fram á íslensku ef þess er kostur. Deildarforsetar og formenn nefnda sjái til þess að kennarar og aðrir starfsmenn sem ekki skilja íslensku fylgist með málum og geti tekið þátt í fundarstörfum og öðrum stjórnunarstörfum eftir því sem nauðsyn krefur.

 15. Skrifleg gögn í stjórnsýslu Háskólans, svo og opinberar upplýsingar sem skólinn eða einstakar stjórnsýslueiningar hans senda frá sér, s.s. fundarboð, fundargerðir, boð á fyrirlestra, tilkynningar um viðburði og svo framvegis, séu ævinlega á íslensku, en enskur texti fylgi með þar sem við á. Einstök fundargögn geti þó verið á erlendu máli ef sérstakar ástæður eru til.

 16. Máltækni verði nýtt til að aðstoða stúdenta og starfsfólk við meðferð málsins og leiðbeina um málnotkun. Stúdentar, kennarar og annað starfsfólk eigi kost á að nýta sér allan tiltækan máltæknibúnað fyrir íslensku, svo sem leiðréttingarforrit, talgervla, talgreina og þýðingarforrit. Sérstök áhersla verði lögð á máltæknibúnað sem nýtist fötluðu fólki í námi og daglegu lífi.

 17. Tölvuumhverfi í Háskólanum sé á íslensku eftir því sem kostur er. Sjálfgefið notendaviðmót alls algengs hugbúnaðar sem starfsfólk og stúdentar nota innan skólans verði á íslensku. Reiknistofnun Háskólans beiti sér fyrir íslenskum þýðingum á hugbúnaði sem hún dreifir innan skólans. Kennarar og stúdentar verði hvattir til þátttöku í þýðingum á opnum hugbúnaði.

 18. Innan Háskólans starfi föst málnefnd sem heyri undir rektor, skipuð fulltrúum allra fræðasviða, miðlægrar stjórnsýslu og stúdenta. Hún verði stjórnendum og öðrum starfsmönnum skólans til ráðuneytis um málefni íslenskrar tungu, geri tillögur um framkvæmd málstefnunnar og fylgist með hvernig henni sé framfylgt, og standi fyrir kynningu stefnunnar og endurskoðun eftir þörfum.

Umsjón og ábyrgð

Nánari útfærsla og framkvæmd málstefnu Háskóla Íslands er falin miðlægri stjórnsýslu skólans og einstökum fræðasviðum, deildum og stofnunum eftir því sem við á.

Rektor ber ábyrgð á stefnunni og getur heimilað tímabundin frávik frá einstökum ákvæðum hennar ef nauðsyn krefur.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Ef þú vilt fá svar frá okkur.
Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.
Skrár verða að vera minni en 2 MB.
Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png.
CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.