Skip to main content

Upplýsingar um Inntökuprófið

Prófið er staðpróf sem lagt verður fyrir í rafræna prófakerfinu INSPERA.

Meginhluti prófsins (70%) eru krossaspurningar um efni sem kennt er í framhaldsskólum og tilheyrir raunvísindum, hugvísindum og félagsvísindum. Spurningarnar koma úr spurningasafni, sem er afrakstur samstarfs Læknadeildar og kennara úr fjölmörgum framhaldsskólum landsins. Fjöldi spurninga í hverjum prófhluta er ekki fast ákveðinn milli ára, en sýnishorn hér að neðan gefa nokkuð raunsanna mynd af gerð og eðli spurninga.

Aðrir prófhlutar byggja ekki á ákveðnu námsefni (30%), en leggja mat á almenna þekkingu, yrta rökfærslu og nálgun og úrlausn siðfræðilegra vandamála. Þessir prófhlutar verða einnig á formi krossaspurninga, en stuttar ritgerðir geta verið í spurningum um siðfræðileg álitamál og skal próftaki ná lágmarkseinkunn 5,0 að meðaltali í þeim spurningum.

Í krossaspurningum á einungis að merkja við einn svarlið í hverri spurningu, þ.e. rétta eða réttasta svarið, ef merkt er við fleiri svarliði telst það sem rangt svar. Ekki er þó dregið frá fyrir rangt svar. Öllum krossaspurningum er svarað á tölvutæk svarblöð. Próftakar eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um útfyllingu þeirra fyrir prófið.
Ritgerðarspurningum er svarað á sérstök spurningablöð, ef slíkar spurningar eru á prófinu.

Ákveðnum prófhlutum munu fylgja formúlublöð með þeim jöfnur/formúlur sem kennarar framhaldsskóla telja að próftakar þurfi að hafa við hendina til þess að geta svarað viðkomandi spurningum. Hér má sjá sýnishorn af formúlublöðum:

Síðast uppfært 02.2023 - Athugið að þessar upplýsingar kunna að vera uppfærðar áður en opnað er fyrir umsóknir ár hvert.

Læknadeild útvegar próftökum reiknivélar sem munu liggja frammi á prófstað

Ekki er heimilt að nota aðrar reiknivélar eða hjálpargögn í prófinu en þau sem Læknadeild útvegar.

Reiknivélarnar eru af tegundinni Casio fx-350ES PLUS.

Tengt efni