Skip to main content

Um Háskóla Íslands

Um Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur verið undirstaða atvinnulífs og framfara í meira en 110 ár. Hann er stærsti háskóli landsins með langmesta fjölbreytni í námsframboði enda býður hann á fjórða hundrað spennandi námsleiðir á öllum fræðasviðum. Námið við skólann stenst alþjóðlegar gæðakröfur og opnar þannig dyr að framhaldsnámi og störfum víða um heim.  

Fjölbreytni í stað- og fjarnámi  

Háskóli Íslands býður upp á mjög fjölbreytt nám á grunn- og framhaldsstigi. Háskólinn býður einnig upp á fjölbreytt fagnám og starfsnám. Nám við skólann býr nemendur ekki bara undir þátttöku í fjölbreyttu og síbreytilegu atvinnulífi heldur líka til að hafa þar áhrif. HÍ menntar fólk fyrir nær öll svið samfélagsins og íslensks atvinnulífs.  

HÍ býður fjölda námsleiða og námskeiða í stað- og eða fjarnámi og vinnur stöðugt að því að fjölga fjarnámsleiðum með gæði að leiðarljósi. Hvort sem stefnan er að stunda nám í heimabyggð eða með vinnu, þá er til staðar fjölbreytt fjarnám með öflugum stuðningi og þjónustu. HÍ býður líka öfluga þjónustu náms- og starfsráðgjafa sem geta stutt faglega við val á námi, meðal annars eftir áhugasviðum og færni.  

Öflug sí- og endurmenntun 

Háskóli Íslands starfrækir víðtæka sí- og endurmenntun til að stuðla að betra samfélagi með því að efla þekkingu og hæfni einstaklinga. Með starfi sínu á þessu sviði leiðir HÍ saman fólk með ólíkan bakgrunn og skapar því ný tækifæri með nýrri þekkingu.

Endurmenntun HÍ er í fararbroddi í endur- og símenntun á Íslandi og tengir saman háskóla, atvinnulíf, samfélag og einstaklinga. Markmiðið Endurmenntunar HÍ er að þróa fjölbreytt nám til að efla hæfni og þekkingu einstaklinga í lífi og starfi. 

Alþjóðlegur háskóli í íslensku umhverfi 

Rannsóknir, nýsköpun, kennsla og miðlun eru kjarninn í starfi Háskóla Íslands og sameiginlegt verkefni allra sem starfa og nema innan hans. Þannig mynda starfsfólk og nemendur framsækið, alþjóðlegt og lifandi þekkingarsamfélag þar sem gagnkvæm virðing og jafnrétti eru undirstaðan. 

Með öflugu starfi sínu hefur Háskóli Íslands skapað sér traust og virðingu á alþjóðlegum vettvangi sem alhliða og metnaðarfullur rannsóknaháskóli. Fræða- og vísindafólk skólans er enda margt í fremstu röð samkvæmt alþjóðlegu mati á háskólum en HÍ hefur verið metinn á meðal þeirra bestu í heimi í rösklega tíu ár af alþjóðlega viðurkenndum matsaðilum. Háskóli Íslands leiðir Aurora, öflugt net evrópskra háskóla, sem í sameingu stuðlar að betra námi, öflugri rannsóknum og því að breyta landslagi háskólamenntunar í álfunni til að gera Evrópumenn öflugri að mæta alþjóðlegri samkeppni.  
 

Áhersla á nýsköpun 

Háskóli Íslands er kraumandi samfélag og suðupottur pælinga þar sem nýjar hugmyndir kvikna á hverjum einasta degi ársins. Hlutverk HÍ er enda að skapa umhverfi þar sem þekkingarsköpun nemenda og starfsfólks blómstrar. Í því felst meðal annars náið samstarf við nær- og alþjóðasamfélag á sama tíma og HÍ veitir stuðning fyrir nýjar hugmyndir og hagnýtingu þeirra. Þannig veitir Háskólinn sérstakan stuðning við frumkvöðla úr hópi nemenda og kennara sem feta vilja nýsköpunarveginn. Mikill fjöldi sprotafyrirtækja hefur enda orðið til í Háskóla Íslands sem sum hver hafa orðið að stórum atvinnuskapandi fyrirtækjum. HÍ býður bæði upp á námsleiðir og einstök námskeið sem tengjast nýsköpun og frumkvöðlafræði.  

Mikilvægt afl í upplýstri umræðu 

HÍ er í mjög nánu sambandi við meginstoðir samfélagsins og í víðtæku samstarfi við íslenskt atvinnulíf. Háskólinn gegnir líka mikilvægu hlutverki í lýðræðislegri og upplýstri samfélagsumræðu.

Háskóli Íslands leggur áherslu á baráttu gegn falsfréttum og falsvísindum og miðlar gagnmerkum upplýsingum til almennings, meðal annars í gegnum Vísindavef skólans og allskyns verkefni í þágu ungmenna og almennings. Háskóli Íslands leggur fram rannsóknir, gögn og sérfræðiþekkingu til að styðja opinbera stefnumörkun.

Þekkingarsköpun við HÍ styður þannig samfélagið allt við að takast á við margvíslegar og flóknar áskoranir, allt frá umhverfisbreytingum, náttúruvá og örum tæknibreytingum til margvíslegrar ógnar við heilsu og velferð fólks og lífríkis.  

Alþjóðlegt samfélag nemenda  

Nemendur HÍ eru hluti af fjölbreyttu og alþjóðlegu samfélagi. Háskólinn býður tækifæri til skiptináms í hundruðum framúrskarandi háskóla um allan heim. Nemendur geta líka tekið virkan þátt í rannsóknum og nýsköpun innan skólans og úti í atvinnulífinu.  

Háskóli Íslands hefur útskrifað hartnær 70 þúsund nemendur sem hafa látið að sér kveða á öllum sviðum samfélags og atvinnulífs.  Alls eru nú rösklega 14 þúsund nemendur við skólann á grunn-, meistara- og doktorsstigi frá meira en eitt hundrað þjóðlöndum. Með undirstöðu í námi og rannsóknum frá Háskóla Íslands munu þau móta framtíðina. Erlendir nemendur við HÍ eru um 2.000 talsins. 

Háskólinn í náttúruperlunni og miðborginni – Allt til alls  

Háskóli Íslands tekur vel á móti fjölbreyttum hópi nýrra nemenda og starfsfólks sem skapar í sameiningu hvetjandi umhverfi með traustum rannsóknainnviðum og góðri aðstöðu til þróunar náms og kennslu.  

Í HÍ er áhersla á að nýta nýjustu tækni við að miðla þekkingu og þjónustu. Aðstaða er framúrskarandi með les- og vinnurýmum, tölvuverum, veitingastöðum, verslunum, stúdentagörðum, leikskólum, grunnskólum, kaffihúsum, líkamsræktarstöðvum og bóksölu. Innan seilingar er sundlaug, fjaran og sjálf miðborgin með öllu sínu mannlífi. Á háskólasvæðinu er líka einstök náttúruperla, friðland borgarinnar í Vatnsmýrinni með sjálfa Tjörnina í hjarta Reykjavíkur. Vatnsmýrin býður upp á einstakt lífríki, ekki síst varpland fugla að vorlagi.  

Háskóli Íslands er í hjarta borgarinnar og leggur höfuðþunga heilsusamlegt starfsumhverfi og vistvænar samgöngur sem stuðla að jöfnu aðgengi og samheldnu og sjálfbæru samfélagi. 

HÍ státar af glæsilegum húsakosti þar sem Aðalbyggingin landsþekkta er í miðju svæðisins með fjölbreyttum byggingum til allra átta. Þær nýjustu eru Edda og Veröld sem báðar eru helgaðar menningu og tungumálum, sú fyrrnefnda íslenskunni sem er sérstakt áherslumál HÍ. Senn verður Saga opnuð að nýju, meðal annars í þágu menntavísinda en fullyrða má að HÍ mennti kennara fyrir öll kennslustig á Íslandi.  

Einn stærsti vinnustaður landsins með mikla starfsánægju 

Háskólinn er einn stærsti vinnustaður landsins og mælist starfsánægja mikil innan hans. Markmið HÍ er og hefur verið að byggja upp góðan vinnustað fyrir öll sem þar starfa. Byggðir eru upp traustir innviðir sem styðja við alla starfsemi skólans og gera nemendum og starfsfólki kleift að blómstra.

Við HÍ starfa rúmlega sextán hundruð fastráðnir starfsmenn og yfir tvö þúsund stundakennarar og lausráðnir starfsmenn sem margir hafa náin tengsl við íslenskt samfélag og atvinnulíf. 

HÍ er stofnaður árið 1911 til margvíslegra áhrifa í íslensku samfélagi  

Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní árið 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta. Fyrstu 29 árin var hann til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Við stofnun Háskóla Íslands voru Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn sameinaðir og mynduðu hver skóli sína deild auk þess sem heimspekideild var bætt við. Háskólaárið 1911-1912 voru nemendur einungis 45 og þar af ein kona. Í dag eru konur tæplega 2/3 hluti þeirra sem stunda nám við HÍ. Háskóli Íslands er í dag alþjóðlegur rannsóknarháskóli sem þjónar íslensku samfélagi auk þess að eiga í samstarfi við yfir 400 háskóla úti um allan heim.  

Betri háskóli – betra samfélag 

Háskóli Íslands hefur sett sér þá stefnu að gera góðan háskóla betri. Þessi stefna er ekki einungis sett í þágu Háskólans sjálfs heldur í þágu þjóðarinnar sem á hann. Háskóli Íslands ætlar sér með starfi sínu að styrkja íslenskt samfélag og bæta hér lífsgæði. Háskóli Íslands hefur árum saman verið í hópi þeirra stofnanna samfélagsins sem njóta mests trausts. Þetta traust er ekki sjálfgefið – það helgast af víðtæku framlagi Háskólans til íslensks samfélags. Það byggist á gæðum, jafnrétti og sjálfbærni á öllum sviðum sem tryggir að Háskólinn ræki forystuhlutverk sitt í þekkingarsköpun fyrir íslenskt samfélag. Allt starf Háskóla Íslands er í sífelldri þróun í takt við þarfir nemenda og starfsfólks og þróun atvinnulífs, umhverfis, lífríkis og samfélags.  

Háskóli Íslands vinnur í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem taka til helstu áskorana sem mannkyn stendur frammi fyrir.  Háskóli Íslands er eins og aðrir öflugir háskólar þekkingarveita sem gegnir lykilhlutverki í leitinni að svörum við þessum áskorunum. Það skiptir sköpum fyrir lífsskilyrði okkar á jörðinni í framtíðinni að finna þessi svör og bregðast við í anda þeirra. 

Í stefnu skólans er þremur leiðarljósum fylgt:  

 • Gæði til að styrkja styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni í kennslu og rannsóknum. 
 • Traust sem byggist á jákvæðum verkum skólans í þágu samfélagsins. Traustið laðar að sér öflugt starfsfólk og nemendur með fjölbreyttan bakgrunn. 
 • Snerpa til að ryðja hindrunum úr vegi. HÍ hefur tekið frumkvæði til að mæta breytingum og áskorunum innan skólans og í samfélaginu öllu. 

Allt starf skólans byggist á grunngildum hans um akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennsku 

Öflug tengsl við samfélag á landsbyggðinni 

Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á tengsl við samfélag, ekki síst á landsbyggðinni. Skólinn rekur rannsóknasetur á ellefu stöðum víða um land þar sem áhersla er á tengsl við samfélag og atvinnulíf, ekki síst á viðkomandi svæðum.

Á rannsóknasetrunum eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir með áherslu á náttúruvísindi, lífríki hafsins (meðal annars hvali og fiska), umhverfi og landnýtingu, fugla, ferðaþjónustu, bókmenntir, sagnfræði, þjóðfræði og fornleifafræði. 

Skipulag, skipurit og stjórnkerfi 

Háskóli Íslands skiptist í fimm fræðasvið sem hvert um sig skiptist í nokkrar deildir. Alls eru deildir skólans 26. Auk þess er starfræktur fjöldi rannsókna- og þjónustustofnana við skólann ásamt ellefu rannsóknasetrum um allt land.  

Fræðasvið 

Félagsvísindasvið – innan þess eru sex deildir: 

 • Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild 
 • Félagsráðgjafardeild 
 • Hagfræðideild 
 • Lagadeild 
 • Stjórnmálafræðideild 
 • Viðskiptafræðideild 

Heilbrigðisvísindasvið – innan þess eru sex deildir: 

 • Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild 
 • Lyfjafræðideild 
 • Læknadeild 
 • Matvæla- og næringarfræðideild 
 • Sálfræðideild 
 • Tannlæknadeild 

Hugvísindasvið – innan þess eru fjórar deildir: 

 • Guðfræði- og trúarbragðafræðideild 
 • Íslensku- og menningardeild 
 • Mála- og menningardeild 
 • Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði 

Menntavísindasvið – innan þess eru fjórar deildir: 

 • Deild faggreinakennslu 
 • Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda 
 • Deild kennslu- og menntunarfræði 
 • Deild menntunar og margbreytileika 

Verkfræði- og náttúruvísindsvið – innan þess eru sex deildir: 

 • Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild 
 • Jarðvísindadeild 
 • Líf- og umhverfisvísindadeild 
 • Rafmagns- og tölvuverkfræðideild 
 • Raunvísindadeild 
 • Umhverfis- og byggingarverkfræðideild