Skip to main content

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala

Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði.

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði sjóðinn 25. maí 2001, með framlagi hlutafjár sem hann gefur til minningar um föður sinn Þorstein Scheving Thorsteinsson lyfsala í Reykjavíkurapóteki og eiginkonu hans Bergþóru Patursson. Bergþóra var fædd 26. febrúar 1898 í Kirkjubæ í Færeyjum, dáin 22. október 1970 í Reykjavík, og Þorstein Scheving Thorsteinsson var fæddur 11. febrúar 1890 á Brjánslæk í Vestur-Barðastrandarsýslu, dáinn 23. apríl 1971 í Reykjavík.

Sjóðurinn er einn þriggja sjóða sem Bent hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á sviði eineltis.

Það er ósk gefanda að verðlaunum sé úthlutað við hátíðlega opinbera athöfn og þess þá getið í hverra minningu þau eru veitt, og fram tekið hverjum veitt, upphæð verðlauna og framlag verðlaunahafa.