Á Hugvísindasviði er unnt að leggja stund á doktorsnám í þeim námsgreinum þar sem viðkomandi deild og Hugvísindasvið meta að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi, enda hafi sviðsstjórn og háskólaráð samþykkt námið. Markmið doktorsnáms er að veita doktorsnemum víðtæka og trausta rannsóknaþjálfun, gera þá færa um að stunda sjálfstæð vísindastörf, afla nýrrar þekkingar og miðla henni. Doktorsnám á Hugvísindasviði er að jafnaði þrjú ár (180e) í Mála- og menningardeild, Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild en fjögur ár (240e) í Íslensku- og menningardeild. Umsókn um doktorsnám Umsóknarfrestur fyrir doktorsnám á Hugvísindasviði er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en umsóknarfrestur erlendra umsækjenda utan Norðurlandanna er til 1. febrúar. Umsóknarfrestur fyrir innritun á vormisseri er til 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum ef sérstaklega stendur á. Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans. Umsóknum sem skilað er án nauðsynlegra fylgigagna og/eða fylgja ekki öðrum leiðbeiningum er hafnað á grundvelli formgalla. Athuga ber að náms- og rannsóknaráætlun skal vera fyllt út á þar til gerðu eyðublaði. Með umsókn um doktorsnám skulu eftirfarandi gögn fylgja: Ferilskrá (CV). Staðfest afrit af prófskírteinum og fyrri námsferli hafi það nám ekki verið við Háskóla Íslands. Staðfestum afritum af prófskírteinum má skila til nemendaskrár. Yfirlýsing um markmið og væntingar (hámark 1 blaðsíða). Náms- og rannsóknaráætlun í fjórum hlutum á sérstöku eyðublaði: I. Almenn lýsing á rannsóknarverkefni, markmiðum þess, rannsóknarspurningum og faglegum forsendum nemandans til að vinna verkefnið (hámark 5 blaðsíður). II. Drög að áætlun um skipulag námsins, þ.e. námsáætlun (hámark 2 blaðsíður). III. Áætlun um fjármögnun námsins. IV. Heimildaskrá (hámark 5 blaðsíður). Mikilvægt er að vanda sérstaklega vinnu við þennan þátt umsóknar. Sjá upplýsingar og eyðublað fyrir náms- og rannsóknaráætlun. Skrifleg staðfesting frá leiðbeinanda. Í staðfestingu, sem á að vera hálf til ein blaðsíða, þarf að koma fram 1) að viðkomandi hafi samþykkt að leiðbeina umsækjanda, 2) að leiðbeinandi hafi lesið og samþykkt náms- og rannsóknaráætlun þá sem umsækjandi leggur fram og 3) rökstuðningur fyrir því að verkefni umsækjanda falli undir sérsvið leiðbeinanda, sem teljast megi vera viðurkenndur og virkur sérfræðingur á viðkomandi sviði og hafi birt ritsmíðar á því sviði á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur, eins og reglur um doktorsnám kveða á um. Staðfestingu skal skila beint til skrifstofu Hugvísindasviðs. ATH: Hugvísindasvið fylgir eftir viðmiðum Háskóla Íslands um að hver leiðbeinandi hafi að hámarki 4 doktorsnema á hverjum tíma. Leiðbeinendur geta því aðeins tekið að sér nýja nemendur hafi þeir 3 eða færri doktorsnema á sínum snærum. Yfirlýsing um væntanleg námslok. Ef nemandi hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur yfirlýsing viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri við lok yfirstandandi misseris. Sé leiðbeinandi ekki starfsmaður þeirrar deildar sem umsækjandi hyggst stunda nám við skal umsækjandi, í samráði við leiðbeinanda, leita eftir akademískum starfsmanni deildar með doktorspróf til að sitja í doktorsnefnd sinni sem umsjónarmaður fyrir hönd deildar. Skriflegt samþykki umsjónarmanns skal þá fylgja umsókn. Námsbraut er að auki heimilt að krefjast sýnishorna af ritgerðum umsækjenda telji hún þörf á. Ef umsókn uppfyllir formkröfur fær námsbraut eða deild hana til efnislegrar umfjöllunar og því næst er hún send doktorsnámsnefnd til afgreiðslu. Umsækjendur fá svar sent á það netfang sem þeir gáfu upp í umsókninni. Umsókn er samþykkt eða henni synjað á grundvelli undirstöðu umsækjanda og faglegs mats á rannsóknarverkefninu sem og á aðstöðu og sérþekkingu innan deildarinnar, ásamt öðrum þáttum, s.s. fjármögnun, er deild telur máli skipta svo væntanlegt doktorsverkefni geti uppfyllt kröfur sem til þess eru gerðar, sbr. 3. gr. Einungis er hægt að samþykkja nemendur í doktorsnám í námsleiðum sem deildir sviðsins bjóða upp á. Sjá 4. og 5. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið. Náms- og rannsóknaráætlun Vönduð náms- og rannsóknaráætlun er nauðsynlegur hluti góðrar umsóknar um doktorsnám. Umsækjandi skal vinna hana í samstarfi við fyrirhugaðan leiðbeinanda. Náms- og rannsóknaráætlunin er í fjórum hlutum: Í fyrsta hluta er rannsóknaráætlun upp á 5 blaðsíður að hámarki (Times New Roman eða svipað, 12 punkta letur, 1,15 línubil). Þar skal gera grein fyrir markmiðum fyrirhugaðrar doktorsrannsóknar og rannsóknaspurningum, stöðu þekkingar á sviði rannsóknarinnar og að lokum faglegum forsendum nemandans til að vinna verkefnið (heimildaskrá er ekki inni í þessum hluta). Í öðrum hluta skal gera grein fyrir áætlun um skipulag náms (1-2 blaðsíður). Í þriðja hluta skal gera grein fyrir hvernig umsækjandi hyggst fjármagna nám sitt; sjálfur, með lánum eða styrkjum. Ef með styrkjum skal umsækjandi tilgreina til hvaða sjóða verður leitað (hámark 1 blaðsíða). Heimildaskrá (hámark 5 blaðsíður). Mikilvægt er að skrifa umsókn af nákvæmni og á skýru máli. Umsóknin þarf að vera raunsæ en á sama tíma sýna mikinn metnað og áhuga umsækjenda á viðfangsefninu. Hér að neðan er eyðublað fyrir náms- og rannsóknaráætlun. Náms- og rannsóknaráætlun - eyðublað (pdf) Forkröfur Nemandi sem hefur lokið meistaraprófi með fyrstu einkunn (7,25) eða samsvarandi prófi getur sótt um aðgang að doktorsnámi í meistaraprófsgreininni. Nemandi sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi í annarri grein en sótt er um doktorsnám í, frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur einnig sótt um aðgang að doktorsnámi. Í slíkum tilvikum skal doktorsnámsnefnd, í samráði við námsbraut/deild og væntanlegan leiðbeinanda, meta gögn um fyrra nám nemanda og rannsóknir. Heimilt er að gera kröfur um frekara nám (námskeið eða einstaklingsbundin verkefni) eftir atvikum. Slíkar viðbótar- eða forkröfur skal skrá í nemendakerfi Háskólans. Leiðbeinandi metur hvenær doktorsefni hefur uppfyllt þessar forkröfur og lætur skrá upplýsingar þar um í nemendakerfið. Ef nemandi hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur yfirlýsing viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri við lok yfirstandandi misseris. Sé umsókn samþykkt með þessum fyrirvara er hægt að hefja doktorsnámið en hafi fyrirvari ekki verið uppfylltur eftir eins misseris doktorsnám fellur samþykkið úr gildi. Námsferli viðkomandi í nemendakerfi Háskólans er þá lokað án skráðra eininga og nemandi þarf að sækja um að nýju, óski hann þess. Samþykki fyrirhugaðs leiðbeinanda er forsenda fyrir endanlegri afgreiðslu umsóknar. Umsækjandi getur, við undirbúning umsóknar, haft beint samband við akademískan starfsmann á Hugvísindasviði og óskað þess að viðkomandi verði leiðbeinandi sinn. Nemandi getur líka snúið sér til formanns greinar eða námsbrautar óski hann aðstoðar við að finna leiðbeinanda. Sjá 3. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið. Viðmið og reglur um doktorsnám Reglur um doktorsnám og doktorspróf við Hugvísindasvið Háskóla Íslands Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands Doktorsnámsnefnd Doktorsnámsnefnd Hugvísindasviðs hefur umsjón með doktorsnámi innan sviðsins og fylgist með því að samræmis sé gætt í verklagi og viðmiðum, kröfum og skyldum sem móta námið og umgjörð þess. Eftir faglega umfjöllun í námsbraut/deild fjallar hún um og afgreiðir umsóknir í samræmi við 5. gr. reglna um doktorsnám og doktorspróf á Hugvísindasviði. Hún staðfestir náms- og rannsóknaráætlanir og breytingar á þeim, staðfestir val á leiðbeinanda og öðrum í doktorsnefnd, og einnig val á sérstökum umsjónarkennara þar sem við á, sbr. 9. gr. reglnanna. Að fenginni tilnefningu viðeigandi deildar og staðfestingu Miðstöðvar framhaldsnáms skipar doktorsnámsnefnd andmælendur, tekur við áliti þeirra og fylgir eftir kröfum um lagfæringar, komi til þess. Einnig sinnir nefndin öðrum málum varðandi doktorsnám sem forseti fræðasviðs eða sviðsstjórn kann að fela henni. Sjá nánar í 2. gr. reglna um doktorsnám og doktorspróf á Hugvísindasviði. Skipan doktorsnámsnefndar: Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs (formaður) Sólveig Anna Bóasdóttir, fulltrúi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Gunnþórunn Guðmundsdóttir, fulltrúi Íslensku- og menningardeildar Gísli Magnússon, fulltrúi Mála- og menningardeildar Ragnheiður Kristjánsdóttir, fulltrúi Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Sigrún Hannesdóttir, fulltrúi doktorsnema Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri Með nefndinni starfar Romina Werth, umsjónarmaður doktorsnáms. Félag doktorsnema Félag doktorsnema á Hugvísindasviði (Hugdok) (Sjá einnig á Facebook) Félag doktorsnema og nýdoktora (FeDoN) facebooklinkedintwitter