Skip to main content

Nordplus

Nordplus er menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið áætlunarinnar er að efla og þróa norræna samvinnu í menntamálum á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum, styðja við norræn tungumál og menningu og stuðla að sameiginlegum menningarskilningi landanna. Innan Nordplus er lögð áhersla á að fleiri en þrír háskólar séu í samstarfi á tilteknu fræðasviði og myndi þannig fagnet og er Háskóli Íslands þátttakandi í mörgum og fjölbreyttum fagnetum. Að auki er Háskóli Íslands þátttakandi í þverfaglega netinu Nordlys sem gagnast sérstaklega þeim sem ekki eiga þess kost að sækja um styrki úr fagneti. Nemendur og kennarar geta sótt um styrki í netið til Alþjóðasviðs. Nemendur geta sótt um styrki fyrir dvöl frá 5 dögum til 12 mánaða. Doktorsnemar geta ekki sótt um Nordplus styrk.

Nordplus styrkurinn fyrir nemendur samanstendur af ferðastyrk að hámarki 660€ og að hámarki 250€ dvalarstyrk á mánuði. Einnig er hægt að sækja um styrk vegna styttri heimsókna, lágmark 5 dagar og er dvalarstyrkur þá 70€ á viku.

Kennurum gefst kostur á að sækja um styrk til kennslu við einhvern af skólunum í Nordlys-netinu. Styrkurinn samanstendur af ferðastyrk að hámarki 660€ og dvalarstyrkur er að hámarki 70€ á dag, eða 500€ á viku. Þetta hentar t.d. fyrir kennara sem vilja fara til Færeyja þar sem Erasmus+ styrkir ekki ferðir til Færeyja.

Fyrir frekari upplýsingar sendið póst á outgoing.europe@hi.is

Almennur umsóknarfrestur um Nordplus styrk er til og með 1. febrúar ár hvert (eða næsta virka dag ef umsóknarfrestur er á almennum frídegi). Ef um styttri námsdvöl eða starfsþjálfun er að ræða er tekið við umsóknum utan almenns umsóknarfrests.