Skip to main content

UT þjónustur fyrir kennslu

Háskóli Íslands er fyrst og fremst menntastofnun og því fylgir mörg kerfi tengd kennslu. Upplýsingatæknisvið er í góðu samstarfi við Kennslusvið um þær hugbúnaðarlausnir sem notaðar eru við nám og kennslu við Háskóla Íslands. Upplýsingatæknisvið sér einnig um búnað í kennslustofum, að setja búnaðinn upp og viðhalda, auk þess að aðstoða kennara með tæknileg vandamál tengdum búnaði í kennslustofum með góðri aðstoð frá umsjónarmönnum bygginga.

Námsumsjónarkerfi Háskólans er Canvas, öll námskeið eiga kennsluvef í Canvas sem kennarar setja námsefni inná og þar fá nemendur allar þær upplýsingar sem þörf er á til að sinna námskeiðunum enda býður Canvas upp á fjölmarga möguleika í uppsetningu á námsefni, verkefnaskilum, endurgjöf og umræðum. Á kennsluvef námskeiðs veitir kennari nemendum aðgang að kennsluáætlun og námsefni námskeiðs, hvort sem það eru skjöl eða upptökur.  

Uglan er upplýsingakerfi sem er þróað af Upplýsingatæknisviði og heldur utan um margt sem hefur að gera með skipulagningu kennslu, nemendaskráningu, kennsluskrá, námsumsóknir, prófahald, vottorð, kennslukannanir og fleira.

Nokkur upptöku og fjarfundarkerfi eru í boði hjá Háskólanum sem notuð eru í fjarkennslu auk þess sem upptaka af tímum er í boði fyrir nemendur í flestum tilfellum. Panopto er það kerfi sem oftast er notað til að taka upp kennslustundir og streyma þeim til nemenda. Canvas studio er hluti af Canvas og hentar það vel til að taka upp styttri kennslumyndbönd sem ekki á að streyma til nemenda. Zoom og Teams eru fjarfundarkerfi sem eru notuð í fjarkennslu.

Inspera er rafrænt prófakerfi HÍ. Það býður upp á mikið öryggi í próftöku og fjölda spurningagerða. FeedbackFruit er jafningjamatskerfi sem býður kennurum upp á spennandi og öflug verkfæri til að virkja nemendur og styðja við námssamfélag þar sem nemendur takast saman á við námsefni og verkefni.  Turnitin er notað til að skima verkefni frá nemendum til að minnka líkur á ritstuldi og leiðbeina nemendum um rétta notkun heimilda. Allir íslenskir framhaldsskólar og háskólar hafa aðgang að Turnitin.