Hér að neðan má finna fróðleik um ýmsa umhverfisþætti og hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum af þeim. ÚrgangsmálSorpflokkunarkerfi HÍ Háskóli Íslands er samfélag nemenda og starfsfólks og einn stærsti vinnustaður landsins. Háskólaborgararnir eru því stór hluti neytenda landsins og rétt eins og öðrum fylgir þeim sorp. Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni og því er nauðsynlegt að flokka allt sorp sem okkur fylgir. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og því er mikilvægt að nýta þær vel, stunda neyslu í hófi og endurnýta eða endurvinna það sem við erum með undir höndum. Með því að endurvinna er komið í veg fyrir óþarfa sóun þó enn betra sé að forðast að kaupa drasl eða óþarfa umbúðir sem enda strax í ruslinu. Hér má finna nánari upplýsingar um sorpflokkunarkerfi HÍ. Sorpmagn - þróun Hér má skoða þróun heildarsorpmagns, sorp á hvern starfsmann og hlutfall flokkunar í Háskóla Íslands árin 2012-2020. Flokkunartafla HÍ Upplýsingar um staðsetningu sorpíláta og losunaraðila má finna í flokkunartöflu HÍ Spilliefni Rétt meðferð spilliefna er öryggis og umhverfismál. Það er stefna Háskóla Íslands að fylgja alþjóðlegum reglum um umhverfismál og förgun lífsýna og spilliefna. Mörg þeirra efna sem notuð eru innan háskólans eru skaðleg umhverfi, mönnum og dýrum. Því ber að flokka allt sorp og spilliefni á réttan hátt og senda til förgunar hjá viðurkenndum aðila. Inná heimasíðu öryggisnefndar HÍ er að finna upplýsingar um flokkun og förgun spilliefna. Pappírsnotkun í HÍ Pappír getur haft margvísleg áhrif á umhverfið allt frá framleiðslu til notkunar. Háskóli Íslands leggur sitt að mörkum við að draga úr pappírsnotkun. OrkumálOrkunotkun í Háskóla Íslands Hér má skoða þróun á orkunotkun fyrir rafmagn (kWst) og heitavatn (m3) á stöðugildi við Háskóla Íslands frá 2012-2020. Upprunavottorð raforku HÍ Háskóli Íslands notar vottað rafmagn frá endurnýjanlegum orkulindum Orku náttúrunnar og hefur fengið upprunavottorð á 100% endurnýjanlega orku. Upprunavottorð orku 2020 Upprunavottoð orku 2019 Raforka Nokkur góð ráð til þess að spara rafmagn: Stilltu orkunotkun á tölvunni þinni þannig að þær fari í viðbragðsstöðu (standby) eða svefnham standi þær ónotaðar í skemmri eða lengri tíma. Raftæki í biðstöðu geta eytt um 40% af þeirri orku sem er notuð þegar kveikt er á þeim. Gott er að koma fyrir millistykkjum þar sem mörg raftæki eru sem hægt er að slökkva á með einum takka. Stilltu ljósritunarvélar og prentara þannig að tækin fari í viðbragðsstöðu þegar þau hafa ekki verið í notkun í skemmri tíma eða lengri tíma. Veldu orkunýtin rafmagnstæki – það sparar bæði orku og peninga. Ekki nota skjáhvílur. Slökktu á tölvum og skjám að loknum vinnudegi. Slökktu ljós í þeim rýmum sem eru ekki í notkun og öll ljós í lok dags. Ljós í mannlausum herbergjum er sóun á orku og peningum. Það er tilvalið að nýta dagsbirtuna og slökkva ljós þegar tækifæri gefst – dagsbirtan er alltaf fallegasta birtan! Veldu sparnaðarastillingu á uppþvottavélum, þekktu skammtastærðir og gangsettu einungis fullhlaðnar vélar á kaffistofum. Uppþvottavél notar jafnmikið rafmagn hvort sem hún er hálftóm eða full! Veldu frekar að ganga upp stigann en að fara í lyftu. Gakktu frá rýmum fyrir frí, slökktu öll ljós og taktu raftæki úr sambandi. Taktu hleðslutæki fyrir t.d. fartölvu, farsíma eða spjaldtölvur alveg úr sambandi ef þeirr er ekki þörf – þau taka rafmagn jafnvel þó tækin séu fullhlaðin. Taktu farsímann úr sambandi að lokinni hleðslu. Bæði sparar það rafmagnsnotkun og eykur líftíma batterísins. Hleðslan endist lengur ef síminn helst hlaðinn í milli 40-80%! Háskóli Íslands er þátttakandi í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri sem hefur það að markmiði að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í starfsemi sinni, meðal annars með því að draga úr rafmagnsnotkun. Er umhverfisvænna að slökkva ljósin? Oft hefur verið rætt um hvort að endingartími ljósapera styttist ef það er sífellt veri að slökkva og kveikja á þeim allan daginn. Er sú orka sem fer í að kveikja á perunum meiri en orkusparnaðurinn sem næst við það að hafa ljósin slökkt? Meginreglan er sú að best sé að slökkva á ljósum þegar rými eru ekki í notkun. Hins vegar getur skipt máli hvaða ljósapera er í notkun á vinnustaðnum. Hér að neðan má finna stuttan fróðleik um mismunandi gerðir á ljósaperum: Halogen ljós. Best er að slökkva alltaf á ljósum með halogen perum. Flúorljós og sparperur. Flúorljós og sparperur nýta orku mjög vel og getur reynst flókið að segja til um hvenær best er að slökkva á slíkum ljósum. Þumalputtareglan er þó sú að ef þú kemur aftur inn í rými innan 15 mínútna þá skuli hafa kveikt á ljósunum, en ef rýmið mun standa ónotað lengur en í 15 mínútur skuli slökkva á ljósunum. Það hefur engin áhrif á líftíma LED ljósa hve oft er slökkt og kveikt á þeim. Því skal alltaf slökkva á LED perum þegar þau eru ekki í notkun. Glóperur. Glóperur eru óhagkvæmasti ljósgjafinn og þær nýta orkuna verst af þeim ljósgjöfum sem eru í boði. 90% af orkunni sem þær nota skila sér sem hiti og aðeins 10% sem ljós. Ljós sem eru með glóperum á alltaf að slökkva þegar þau eru ekki í notkun. Heitavatns notkun Hér að neðan er að finna fróðleik um heitavatn okkar Íslendinga og nokkur ráð um hvernig megi draga úr notkun heitavatnsins. Íslendingar telja heitt vatn til grunnþarfa sinna. Oft gleymist að þessi orka telst til munaðar víða í heiminum. Ein sú dýrmætasta auðlind sem við Íslendingar eigum er heita vatnið okkar. Heita vatnið er í senn ódýrt, vistvænt og öruggt. Ísland nýtur sérstöðu hvað húshitun varðar, en víða í heiminum eru hús hituð með kolum og annarri konar brennslu með tilheyrandi loftmengun. 90% af notkun heita vatns er vegna húshitunar. Afganginn notum við til annarra hluta, eins og að þrífa, vaska upp eða baðnota. Sparaðu með að lækka í ofninum. Það getur munað heilmiklu og sparað umtalsverðar fjárhæðir að lækka hita um einungis 1 gráðu á stillingum. Um leið og hlýnar utandyra er hægt að byrja að huga að því að spara heitavatnsnotkunina, til dæmis þarf ekki að hita hús í 10° hita jafnmikið og í 5° frosti. Stilltu ofna reglulega. Gott er að hafa í huga að stilla ofna reglulega og nýta sem best heita vatnið á veturna. Ekki er mælt með að ofnar séu byrgðir með húsgögnum eða gluggatjöldum, en þau geta hindrað loftstreymið frá ofnunum og þannig „gabbað“ ofnlokur þannig að ofnar loka fyrir hitun áður en herbergishiti er nægilegur. Gott er að hafa það skráð einhvers staðar hvaða stilling hentar best hverju rými fyrir sig. Þannig er auðveldara að fylgjast með og taka eftir því ef hitastillirinn er ranglega stilltur. Að halda réttu hitastigi innandyra getur haft áhrif á vinnuafköst fólks. Verði of kalt í vinnurými bregst líkaminn við með því að auka vöðvaspennu, vinnuhraði minnkar og hætta á mistökum getur aukist. Hins vegar ef of heitt verður í vinnurými getur færst drungi yfir fólk, minnkað andlega og líkamlega færni og aukið vanlíðan. Hæfilegt hitastig er 18-22°C en við kyrrsetustörf er þægilegasta hitastigið talið vera um 20-22°C. Ekki hita ofna að óþörfu. Það er eðlilegt að ofnar séu hafðir á lágum hita ef mikið er af ókeypis varma í herberginu, sem er t.d. sólarljós eða raflýsing. Þannig má spara heitavatnið með tilheyrandi sparnaði. Nánari upplýsingar er að finna hér Kalda vatnið Fróðleikur um kalda vatnið Kalda vatnið okkar er dýrmæt auðlind sem okkur ber að vernda með öllum tiltækum ráðum. Vatn á sér hvorki upphaf né endi í náttúrunni, það er á eilífri hringrás. Neysluvatnið á Íslandi inniheldur lítið af steinefnum miðað við nágrannalönd okkar. Sýrustig kalda vatnsins (þ.e. ph gildi) á Reykjavíkursvæðinu er frá 8,75 uppí 9 sem er fremur hátt. Ástæða þess er að vatnið okkar rennur í gegnum hraun sem er ríkt af basalti. Íslenskt vatn er undir 2°dh og því mjög mjúkt, á Reykjavíkursvæðinu er það 0,2 til 0,6 °dh eða sérstaklega mjúkt. Ekki á að þurfa nein mýkingarefni eða kalkhreinsi eða sölt í þvotta/uppvöskunarvélar á Íslandi. Mýkt vatnsins hefur þau áhrif að mun minn magn af sápu þarf til að þvo sér um hár og hendur, einnig þarf minna þvottaduft við fata og diskaþvott! Matís hefur eftirlit að beiðni Veitna um að fylgjast með gæðum neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu. Nánari upplýsingar um kalda vatn okkar er að finna á hér. Efnamál Rannsóknastofa er enginn venjulegur vinnustaður. Fólk sem vinnur á rannsóknastofu er umkringt ýmis konar hættum. Efni sem þar eru geymd geta verið leysandi, ætandi eða eldfim, jafnvel sprengifim, og ef vinnubrögð eru óvönduð getur margt farið úrskeiðis, eiturgufur geta myndast, eldur kviknað eða veirur sloppið út. Rannsóknir og tilraunir geta verið mjög skemmtilegar en þær krefjast árvekni og skipulagðra vinnubragða. Kæruleysi eða augnabliks hugsunarleysi getur verið dýrkeypt og valdið miklum skaða, bæði þér og umhverfinu. Á vef öryggisnefndar Háskóla Íslands er að finna gagnlegt fræðsluefni sem við kemur rannsóknarstofunni og meðferð hættulegra efna. Notkun og meðhöndlun efna getur haft áhrif á heilsu og öryggi manna og umhverfið. Innkaup Innkaup er mikilvægur þáttur til að ná árangri í umhverfismálum. Vistvæn innkaup geta haft margvíslegan ávinning í för með sér fyrir kaupendur, seljendur og samfélagið allt. Með vistvænum innkaupum er annars vegar átt við þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur eða þjónustu sem uppfylla sömu þörf. Einföld leið til að innleiða umhverfissjónarmið í innkaup er að kaupa umhverfismerkta þjónustu eða vöru. Hér má finna verklagsreglu Háskóla Íslands um vistvæn innkaup og upplýsingar um umhverfis- og öryggismál hjá HÍ fyrir verktaka og þjónustuaðila. Neysla okkar hefur áhrif á jörðina okkar, framleiðslu, flutning, geymslu og förgun. Öll neysla hefur í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda og önnur mengunarefni og því skiptir miklu máli að í hvert skipti sem við kaupum eitthvað, að við hugsum okkur um og veltum fyrir okkur hvort við raunverulega þurfum á þessu að halda. Eitt það mikilvægasta sem við sem einstaklingar getum gert til að draga úr umhverfisáhrifum okkar er að huga að neyslu okkar. Það getur verið gott að spyrja sjálfa(n)(t) sig að eftirfarandi áður en eitthvað er keypt: Á ég fyrir þessu? Þarf ég á þessu að halda? Langar mig í þetta? Af hverju? Er eitthvað annað en þetta sem ég vil/þar frekar? Kemst ég af án þess að kaupa þetta? Kolefnisreiknir Kolefnisspor er reikningur á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem einstaklingur veldur. Ef þú vilt vita hvert kolefnispor þitt er, læra hvernig þú getur minnkað það og aðstoðað við rannsókn á sviði loftslagsbreytinga hvetjum við þig til að taka þátt í rannsókn á vegum umhverfis- og byggingaverkfræðideildar Háskóla Íslands, ásamt teymi frá Íslandi, Finnlandi og Póllandi. Með því að átta sig á kolefnisspori sínu og hvaða þættir vega þar mest skapast tækifæri til að draga úr losun! Sorpflokkunarkerfi Háskóla Íslands facebooklinkedintwitter