Fyrirlestraröð haust 2024 Vinnuferli háskólanema Þriðjudagur 3. september kl. 11:00 – 11:30 - Opnað verður fyrir skráningu 27. ágúst Þriðjudagur 10. september kl. 14:00 – 14:30 - Opnað verður fyrir skráningu 3. september Í þessum fyrirlestri verður farið yfir atriði sem styrkja nemendur í að tileinka sér skilvirk vinnubrögð, færni og þekkingu sem stuðla að ánægju og velgengni í námi við HÍ. Háskólanám byggir á skipulagi, aga og þrautseigju en líka á gleði, vellíðan og góðum tengslum. Það er gott veganesti að kynna sér í upphafi háskólanáms gagnleg atriði, skoða eigin vinnubrögð og vega og meta hvort hægt sé að gera gott betur. Tímastjórnun – skipulag Fimmtudagur 5. september kl. 13:00 – 13:30 - Opnað verður fyrir skráningu 29. ágúst Miðvikudagur 30. október kl. 14:00 – 14:30 - Opnað verður fyrir skráningu 23. október Í þessum fyrirlestri verður farið yfir mikilvægi þess að hafa gott skipulag og tímastjórnun. Skipulag og góð tímastjórnun eru lykilþáttur að velgengni í háskólanámi. Farið verður yfir gerð tímaáætlana, áhrif tímaþjófa, ávinning af tímastjórnun og gefin gagnleg ráð varðandi skipulag. Lestur og glósur Fimmtudagur 12. september kl. 10:00 – 10:30 - Opnað verður fyrir skráningu 5. september Í þessum fyrirlestri verður fjallað um lestur námsefnis, mikilvægi upprifjunar og leiðir til að lesa erfiðan texta. Einnig verður farið yfir ýmiskonar glósuaðferðir. Vellíðan í námi Miðvikudagur 2. október kl. 13:00 – 13:30 - Opnað verður fyrir skráningu 25. september Það að líða vel í námi er undirstaða þess að ganga vel í námi. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um skilgreiningu á vellíðan, andlega heilsu og mikilvægi góðrar sjálfsmyndar og sjálfstrausts. Farið verður yfir leiðir til að auka og viðhalda vellíðan og hvernig við eflum sjálfstraust og trú á eigin getu. Frestun Mánudagur 7. október kl. 11:00 – 11:30 - Opnað verður fyrir skráningu 30. september Farið verður yfir helstu atriði er tengjast frestun. Frestun (e. procrastination) er tilhneiging til að fresta því sem nauðsynlegt er að gera til að ná einhverju markmiði þ.e. að vinna ekki þau verkefni sem liggja fyrir. Frestun eða tilhneiging til hennar hefur mikil áhrif á nám háskólanema. Farið verður yfir helstu ástæður frestunnar, afleiðingar, réttlætingar og svo framvegis. Þá verður farið yfir hvernig vinna má gegn frestun. Prófundirbúningur og próftaka: Mánudag 4. nóvember kl. 11:30 – 12:00 - Opnað verður fyrir skráningu 28. október Þessi fyrirlestur fjallar um atriði sem styrkja nemendur í því að takast á við próf og prófatímabil á heilbrigðan hátt. Farið er yfir þætti sem snúa að persónulegum undirbúningi nemenda, atriði sem varða próftökuna sjálfa og hvað sé gott að hafa í huga varðandi mismunandi prófform og fjölbreytta próftöku. Lokaverkefni í grunnnámi BA, BS, B.Ed: Hagnýt vinnubrögð Við bjóðum upp á fyrirlestra um hagnýt vinnubrögð við skrif á lokaverkefni í grunnnámi. Farið er yfir gagnleg atriði svo sem samskipti við leiðbeinanda, skipulag og gefnar ábendingar um vinnuferlið. Fyrirlestrar eru ýmist á staðnum eða á Teams. Um er að ræða eitt skipti í 2 klst. Í senn. Námskeið haustmisseris 2024 eru eftirfarandi Fimmtud. 12. sept. kl. 13:00 - 15:00 - Á staðnum - skráning Mánud. 16. sept. kl. 10:00 - 12:00 - Teams - skráning Fimmtud. 19. sept. kl. 10:00 - 12:00 - Á staðnum - skráning Miðvikud. 25. sept. kl. 13:00 - 15:00 - Teams - skráning Sjálfstyrkingarnámskeið Sálfræðiþjónusta NHÍ býður nemendum skólans upp á fimm vikna sjálfstyrkingarnámskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Á námskeiðinu verða kenndar aðferðir til að rjúfa vítahring lágs sjálfsmats með því að vinna með óhjálplegar hugsanir (sjálfsgagnrýni) og óhjálplega hegðun (frestun, forðun og fullkomnunaráráttu). Við munum skoða gagnlegar leiðir til að takast á við lágt sjálfsmat og bæta þannig líðan okkar. Námskeiðsgjald er 6.000 kr. Aðeins 15 pláss eru í boði og því er nauðsynlegt að skrá sig.Skráning fer einungis fram á Þjónustuborðinu, Háskólatorgi. Vinsamlegast athugið að skráning á námskeið er bindandi. Hægt er að óska eftir endurgreiðslu í síðasta lagi tveimur virkum dögum áður en námskeið hefst. Námskeið vormisseris 2024 verða auglýst síðar Seigla og bjargráð - með verkfærum HAM og jákvæðrar sálfræði Sálfræðiþjónusta NHÍ býður upp á 5 vikna námskeið um að auka og viðhalda vellíðan fyrir nemendur HÍ. Verkfæri hugrænnar atferlismeðferðar og jákvæðrar sálfræði verða kynnt til leiks eins og vítahringir óhjálplegra hugsana og hegðunar, þakklætis- og núvitundaræfingar ásamt gildum og markmiðasetningar. Leiðbeinendur eru Guðlaug & Katrín klínískir sálfræðingar. Námskeiðsgjald er 6000 kr.Skráning fer einungis fram á Þjónustuborðinu, Háskólatorgi. Aðeins 12 pláss eru í boði og því er nauðsynlegt að skrá sig sem fyrst. Námskeið vormisseris 2024 verða auglýst síðar Núvitundarnámskeið Núvitund: Hagnýtt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi Helstu efnisatriði Um er að ræða 6 vikna núvitundarnámskeið sem byggir á Mindfulness-Based Cognitive Therapy (MBCT) sem er ítarlega rannsökuð og gagnreynd meðferð fyrir endurteknu þunglyndi. Núvitundarnámskeiðið er styttri útgáfa af MBCT og er hugsað til að takast á við streitu daglegs lífs. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að núvitundarþjálfun hefur jákvæð áhrif á almenna líðan, bætir heilsufar, dregur úr streitu, kvíða og depurð. Hún felur í sér að læra að nema staðar, vera heilsuhugar til staðar og lifa lífinu í takt við eigin lífsgildi. Námskeiðið er skipulagt í samræmi við metsölubókina „Núvitund: Hagnýt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi“ eftir Mark Williams og Danny Penman þar sem sérstök áhersla er lögð á að ná tökum á streitu daglegs lífs. Það er eitt útbreiddasta núvitundarnámskeið í Bretlandi um þessar mundir. Það hefur m.a. verið haldið fyrir breska þingmenn, starfsmenn í viðskipta- og heilbrigðisgeiranum og starfsmenn heilbrigðiskerfisins, NHS. Háskólarnir í Oxford, Exeter og Bangor bjóða upp á þetta námskeið fyrir sína háskólanema, almenning og starfsmenn fyrirtækja. Námsmarkmið Markmið námskeiðsins er að þjálfa núvitund, öðlast meiri hugarró og njóta betur líðandi stundar. Kennsluform Stuðst verður einna helst við reynslunám (experiential learning) þar sem áhersla er lögð á að þátttakendur upplifi efnið á eigin skinni með hugleiðsluæfingum og annarri hugarþjálfun. Einnig verður fræðsla og umræða. Kennslugögn Með námskeiðinu fylgir bókin „Núvitund: Hagnýtt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi“ og hljóðskrá. Fyrir hverja Námskeiðið er fyrir alla sem vilja kynna sér nálgun núvitundar til að takast á við depurð, kvíða og streitu daglegs lífs. Auka almenna vellíðan sem skilar sér bæði í einkalífi og starfi. Tími Námskeiðið er 6 vikna langt. Hver tími er 1,5 klst. að lengd og mælt er með 20-40 mínútna heimavinnu á hverjum degi á meðan á námskeiðinu stendur. facebooklinkedintwitter