Skip to main content

Líftækni nemur land á Íslandi

Í hlaðvarpinu Líftækni nemur land á Íslandi er rætt við brautryðjendur í líftækni hér á landi. Saga þessarar greinar spannar yfir 50 ár. Hún hófst með rannsóknastarfi kennara við líffræðiskor Háskóla Íslands upp úr 1970. Meðal viðmælenda í þáttunum er fjölmargt fyrrverandi starfsfólk Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Öll komu þau að upphafi líftækni á Íslandi á einn eða annan hátt.

Líftækni nemur land á Íslandi

Sagan af landnámi líftækni hér á landi er um leið sagan af því hvernig Háskóli Íslands hefur og getur stuðlað að mikilvægri þekkingarsköpun sem skilar sér út í atvinnulífið.

Hlaðvarpið samanstendur af fimm þáttum. Umsjónarmaður þess er Leifur Reynisson sagnfræðingur

Efni þáttanna

Fyrsti þáttur:

Guðmundur Eggertsson – faðir erfðafræðinnar á Íslandi

Guðmundur Eggertsson er oft nefndur faðir erfðafræðinnar á Íslandi en hann átti veigamikinn þátt í að móta líffræðinámið við Háskóla Íslands eftir að það var sett á laggirnar árið 1968. Hann kynnti nemendum fyrir sameindalíffræði og skyldum greinum. Guðmundur var jafnframt meðal þeirra fyrstu í heiminum sem tileinkuðu sér sameindaklónun og hann flutti tæknina til Háskóla Íslands áður en hún var almennt komin til háskóla í nágrannalöndunum.

Annar þáttur:

Líftækni kemur til sögunnar

Einn helsti frumkvöðull líftækninnar á Íslandi er Jakob Kristjánsson. Í gegnum störf sín hjá Háskóla Íslands og Iðntæknistofnun vann hann m.a. ásamt Guðna Alfreðssyni, dósent í örverufræði, að því rannsaka og nýta hveraörverur á níunda áratug síðustu aldar. Þeir stofnuðu fyrsta íslenska líftæknifyrirtækið, Genís.

Þriðji þáttur:

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Ein öflugasta rannsóknastofa landsins frá fyrri árum er Tilraunastofa Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Með þeirri aðstöðu sem þar byggðist upp myndaðist mikilvægur jarðvegur fyrir íslenskt vísindastarf sem kom líftækninni að góðum notum og þar byggðist upp verðmæt þekking sem mátti m.a. nýta til líftæknirannsókna. Rannsóknir á Keldum höfðu m.a. þýðingu þegar vísindamenn víða um heim fóru að rannsaka hina skæðu HIV-veiru.

Fjórði þáttur:

Rannsóknastofa Krabbameinsfélagsins

Helga Ögmundsdóttir og Jórunn Eyfjörð byggðu upp Rannsóknastofu Krabbameinsfélagsins um og upp úr 1990 og komu henni á alþjóðakortið með öflugu vísindastarfi þar sem erfðafræðin var lögð til grundvallar. Rannsóknastofa Krabbameinsfélagsins var sú fyrsta til að stunda grunnrannsóknir í lífvísindum en þar voru aðferðir líftækninnar nýttar til þess að varpa nýju ljósi á erfðafræði krabbameina, þar á meðal hinna þekktu BRCA-afbrigða brjóstakrabbameins.

Fimmti þáttur:

Háskólinn sem rannsóknastofnun

Í fimmta og síðasta þætti hlaðvarpsins „Líftækni nemur land á Íslandi“ er rætt við fjölmarga aðila um þátt Háskóla Íslands í landnámi líftækninnar en efling skólans sem rannsóknastofnunar hefur skipt þar miklu máli. Með því að bjóða upp á meistara- og doktorsnám í auknum mæli jukust möguleikar til rannsókna mjög og þá jókst hagnýting rannsókna í góðu samstarfi nemenda og starfsfólks. Jarðvegurinn var lagður fyrir líftæknifyrirtæki sem tóku að líta dagsins ljós undir lok síðustu aldar.