Skip to main content

Reglur læknadeildar HÍ um endurtöku prófa, endurinnritun og umskráningu úr öðrum deildum

1. Endurtaka prófs
Ef nemandi hlýtur ekki tilskylda lágmarkseinkunn á prófi í einstöku námskeiði, hefur hann rétt á að þreyta prófið öðru sinni samkvæmt ákvæðum 57. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Ef nemandi hins vegar hlýtur ekki tilskylda lágmarkseinkunn í annað sinn, getur hann sótt um undanþágu til læknadeildar til að þreyta prófið í þriðja sinn. Undanþága til þriðju próftöku verður einungis veitt ef um sérstakar aðstæður er að ræða að mati deildar og verður aðeins veitt einu sinni á námsferli hvers nemenda. Ef undanþága er veitt er tilskilið að nemandinn endurtaki jafnframt öll próf í einstökum námskeiðum sem tilheyra sama námsári þar sem einkunn var lægri en 6,0.

2. Endurinnritun
Ef nemi hefur fallið frá námi við læknadeild af einhverjum orsökum getur hann endurinnritast í deildina með því að uppfylla sömu skilyrði og aðrir umsækjendur, þar á meðal að standast inntökupróf þess háskólaárs sem sótt er um inngöngu á, ef slíkt próf er viðhaft. Ef nemandinn er að uppfylltum inntökuskilyrðum í hópi þeirra er öðlast rétt til náms við deildina getur hann sótt um að fá að halda þeim prófum sem áður var lokið með einkunn 6,0 eða hærri og minna en 3 ár eru liðin frá því próf í viðkomandi námskeiði var þreytt. Önnur próf þarf að endurtaka.

3. Umskráning úr öðrum deildum
Ef nemandi úr annarri deild innan háskólans óskar eftir að hefja nám við læknadeild getur hann innritast í deildina með því að uppfylla sömu skilyrði og aðrir umsækjendur, þar á meðal að standast inntökupróf þess háskólaárs sem sótt er um inngöngu á, ef slíkt próf er viðhaft. Ef nemandinn er að uppfylltum inntökuskilyrðum í hópi þeirra er öðlast rétt til náms við deildina getur hann sótt um að fá metnar einstakar greinar úr öðrum deildum, eða eftir atvikum öðrum háskólum, og þarf þá ekki að taka þau námskeið við læknadeild. Skrifstofa læknadeildar sendir slíkar umsóknir til hlutaðeigandi kennara til umsagnar. Almennt gildir þó sú regla að prófið skal hafa verið þreytt innan jafn margra ára og tilgreind lengd viðkomandi náms er samkvæmt kennsluskrá og einkunn að lágmarki 6,0 til þess að hægt sé að fá það metið til jafns við lokna námsgrein við læknadeild HÍ.