Skip to main content

Nemendastýrt tungumálanám

Nemendastýrt tungumálanám (self-directed language learning) þýðir í raun að nemandinn stjórnar sjálfur öllum helstu þáttum námsins, svo sem markmiðum, aðferðum, efni og námsmati. Þannig getur hann lagað námið að eigin þörfum. Fyrir nemendastýrðu tungumálanámi eru þó tvö skilyrði: nemandinn þarf að vera hæfur til að stjórna fyrrgreindum þáttum og hann þarf að hafa aðgang að fjölbreyttum námsgögnum sem henta til sjálfsnáms.

Námið byggir því á sjálfræði nemandans (learner autonomy) og þetta sjálfræði er lært. Nemandinn þarf að læra að verða sjálfstæður, hann þarf að læra að læra. Til þess að ná þessu markmiði þarf nemandinn aðstoð sérfræðings sem er í þessu tilfelli tungumálakennari.

Í nemandastýrðu tungumálanámi er hlutverk kennarans því annað en í hefðbundnu námi, hann er ekki lengur kennari heldur er hann fremur ráðgjafi (advisor). Sem ráðgjafi leiðir kennarinn nemandann til aukins sjálfræðis með því að gera hann meðvitaðan um námsferlið, aðferðirnar sem hann beitir í náminu og hugmyndir sem hann hefur um námið og námsefnið. Þannig getur nemandinn smátt og smátt náð stjórn á náminu og lagað það að eigin þörfum.

Aðgangur að fjölbreyttum námsgögnum er einnig skilyrði fyrir nemandastýrðu tungumálanámi. Þar leika tungumálamiðstöðvar lykilhlutverk, því þar má finna námsgögn af ýmsum toga sem henta til sjálfsnáms. Nemandinn getur valið úr fjölbreyttu úrvali námsgagna og fengið aðstoð kennara og/eða starfsfólks miðstöðvarinnar við valið.

Hver nemandi getur því valið námsefni í samræmi við markmið sem hann hefur sett sér og eftir áhugasviði. Með tilkomu upplýsingatækni hefur framboð á námsgögnum til sjálfsnáms aukist til muna, það á sérstaklega við um svo kallað raunefni þ.e. efni sem ekki er ætlað upphaflega til tungumálanáms en sem nemandinn getur nýtt sér í náminu. Raunefni færir nemandann nær hinu erlenda tungumáli og menningu og gerir honum kleift að skyggnast inn í erlenda menningarheima og fylgjast með málefnum líðandi stundar.

Um nemendastýrt tungumálanám