Stúdentar við Háskóla Íslands nýta þekkingu sína og krafta með ýmsum hætti í þágu samfélags og samnemenda. Hér að neðan má fræðast um fjölbreytt verkefni þar sem nemendur láta gott af sér leiða.Ástráður – forvarnastarf læknanema Læknanemar hafa síðustu ár farið í framhaldsskóla landsins og grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu til að kveða sér hljóðs á sviði forvarna gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum. Forvarnastarfið byggist á skólaheimsóknum þar sem áhersla er lögð á fræðslu um kynsjúkdóma, getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Miðað er við að fara til nýnema í framhaldsskólum því þannig er hægt að ná til sem flestra. Upplýsingar og fréttir af starfsemi félagsins má nálgast á vef þess, astradur.is. Bangsaspítalinn Lýðheilsufélag læknanema hefur á undanförnum árum boðið leikskólabörnum á aldrinum 3-6 ára að koma í heimsókn á spítalann með veika eða slasaða bangsa. Tilgangur verkefnisins er tvíþættur: Annars vegar til að fyrirbyggja hræðslu hjá börnum við lækna, heilbrigðisstarfsfólk og spítalaumhverfið og hins vegar að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti við börn. Finna má upplýsingar og fréttir frá Bangsaspítalanum á Facebook. Félagsráðgjöf háskólanema Félagsráðgjöf háskólanema veitir háskólanemum og fjölskyldum þeirra ráðgjöf sem m.a. snertir fjölskyldumálefni, uppeldi og samskipti. Markmiðið með þjónustunni er bæði að þjálfa nemendur í starfsréttindanámi í félagsráðgjöf í að veita faglega ráðgjöf og bjóða háskólanemum stuðning í erfiðum málum sem þeir kunna að glíma við. Þjónustan er gjaldfrjáls. Nemendur geta bókað tíma hjá Félagsráðgjöf háskólanema á Uglu, innri vef skólans, en einnig er hægt að senda fyrirspurnir í gegnum netfangið felradgjof@hi.is Nánar um þjónustuna Hollráður Nemendur í grunnámi í sjúkraþjálfunarfræðum hafa á undanförnum árum boðið framhaldsskólanemendum upp á kynningu á námi í sjúkraþjálfun ásamt heilsueflandi fræðslu. Verkefnið kallast Hollráður en tók við af Hreyfingi sem upphaflega var BS-verkefni árið 2007. Síðan þá hafa nemendur farið í heimsókn í framhaldsskóla að jafnaði einu sinni á ári, í mars og apríl. Tilgangur Hollráðs er: Miðla efni um lýðheilsu og heilsueflingu Kynna sjúkraþjálfun sem fag Þjálfa sjúkraþjálfunarnema í að koma fram Ef framhaldsskólar hafa áhuga á að fá fræðslu til sín, er sjálfsagt að senda tölvupóst á physio@hi.is. Lögfræðiaðstoð Orator Orator, félag laganema, veitir almenningi endugjaldslausa lögfræðiaðstoð í síma 551-1012 á fimmtudagskvöldum kl. 19:30 - 22:00. Starfsemin hefst í september ár hvert og stendur fram í miðjan apríl, að undanskildum desembermánuði þar sem laganemar þreyta próf við deildina á þeim tíma. Lögfræðiaðstoðin hefur verið starfrækt um árabil og meðal annars hlotið Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins. Nemendur í meistaranámi við lagadeild Háskóla Íslands undir umsjón starfandi lögmanna sjá um að veita aðstoð og svör við fyrirspurnum. Upplýsingar um Orator eru á vef félagsins, Orator.is. Sálfræðiráðgjöf háskólanema Sálfræðiráðgjöf háskólanema er þjálfunarstöð í klínískri sálfræði og er starfrækt á vegum Sálfræðideildar Háskólans. Sálfræðiráðgjöfin hefur tvíþætt markmið; að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í að sinna klínískum störfum og að veita skjólstæðingum sálfræðiþjónustu, þ.e. háskólanemum og börnum þeirra. Sálfræðinemar á cand. psych. stigi veita ráðgjöfina undir faglegri handleiðslu löggiltra sálfræðinga. Upplýsingar um ráðgjöfina, s.s. tímapantanir, verð og fleira má nálgast á vef sálfræðideildar. Tannlæknaþjónusta Tannlæknadeild Háskóla Íslands býður upp á tannlæknaþjónustu fyrir almenning. Þjónustan er í boði á meðan kennsla við deildina fer fram, frá miðjum ágúst og út nóvember og frá byrjun janúar fram í miðjan apríl. Nánari upplýsingar má finna á vef Tannlæknadeildar. Tengt efni Háskólinn og samfélagið facebooklinkedintwitter