Skip to main content
23. september 2022

Félagsráðgjöf háskólanema veitir stúdentum stuðning

Félagsráðgjöf háskólanema veitir stúdentum stuðning - á vefsíðu Háskóla Íslands

Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands hefur sett á laggirnar Félagsráðgjöf háskólanema sem veita mun háskólanemum og fjölskyldum þeirra ráðgjöf sem m.a. snertir fjölskyldumálefni, uppeldi og samskipti. Þjónustan var formlega opnuð í gær.

Markmiðið með Félagsráðgjöf háskólanema er í senn að þjálfa nemendur í starfsréttindanámi í félagsráðgjöf í að veita faglega ráðgjöf og bjóða háskólanemum stuðning í erfiðum málum sem þeir kunna að glíma við. Þjónustan er gjaldfrjáls og fer fram á Aragötu 9. 

„Rannsóknir sýna að nemendum í háskólanámi á Íslandi líður almennt verr en háskólanemum annars staðar í Evrópu. Hærra hlutfall nemenda á Íslandi eru foreldrar, í vinnu með námi og sinna umönnun ættingja. Til þess að mæta nemendum betur var ákveðið að setja Félagsráðgjöf háskólanema á laggirnar með það fyrir augum að veita stúdentum breiðari stuðning. Þau hafa aðgang að sálfræðiþjónustu hjá Náms- og starfsráðgjöf HÍ og Sálfræðiráðgjöf háskólanema og Félagsráðgjöf háskólanema er góð viðbót við þá þjónustu,“ segir Selma Björk Hauksdóttir, aðjunkt við Félagsráðgjafardeild, sem hefur umsjón með þessu nýja verkefni.

Selma hefur unnið að undirbúningi verkefnisins frá því í sumar en áður höfðu stjórnendur Félagsráðgjafardeildar, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Kennslusvið skólans lagt drög að hugmyndinni sem varð til þess að styrkur var veittur fyrir tveggja ára tilraunaverkefni. 

Hjá Félagsráðgjöf háskólanema verður veitt

  • Fjármálaráðgjöf
  • Fjölskylduráðgjöf
  • Ráðgjöf vegna samþættingar náms og fjölskyldulífs 
  • Ráðgjöf um réttindi fólks innan félagslega kerfisins
  • Samskiptaráðgjöf
  • Uppeldisráðgjöf

Nemendur geta bókað tíma hjá Félagsráðgjöf háskólanema á Uglu, innri vef skólans, en einnig er hægt að senda fyrirspurnir í gegnum netfangið felradgjof@hi.is

Löng hefð er fyrir því innan Háskóla Íslands að nemendur nýti þekkingu sína og krafta í þágu samfélagsins og með þessari nýju þjónustu bætast félagsráðgjafarnemar í þann öfluga flokk sem lætur gott af sér leiða með menntun sína að vopni. 

Myndir frá opnun þjónustunnar má finna hér að neðan. Þær tók Árni Torfason.

Selma Björk Hauksdóttir, aðjunkt og umsjónarmaður verkefnisins ávarpar gesti ásamt tveimur nemendum í félagsráðgjöf sem komið hafa að undirbúninig verkefnisins og munu veita ráðgjöf, þeim Kristrúnu Sigríði Bóasdóttur og Söru Sólrúnu Aðalsteinsdóttur.
Hervör Alma Árnadóttir, forseti Félagsráðgjafardeildar, ávarpar gesti við opnunina.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ávarpar gesti við opnunina.
Isabel Alejandra Diaz, fyrrverandi, forseti Stúdentaráðs HÍ, ávarpar gesti við opnunina.
Kristrún og Sara, nemendur í félagsráðgjöf, segja frá verkefninu.
Gestir við opnunina.
Gestir við opnunina.