Laus störf | Háskóli Íslands Skip to main content

Laus störf

Laust starf við prófgæslu

Á næstu misserum verður prófhald Háskólans rafvætt, þ.e. nemendur munu leysa prófverkefni á eigin tölvur. Því er leitað eftir tölvuliprum einstaklingum sem geta brugðist við einföldum tæknilegum vandamálum.
Væntanlegir prófverðir fá þjálfun í prófaeftirliti í Inspera-próftökukerfinu sem verið er að innleiða.
Próf eru yfirleitt 3 klst. að lengd og greitt er jafnaðarkaup um kr. 2.800 á klst. fyrir 4 stundir hið minnsta.
Almenn próf eru haldin 2. til 18. desember og 25. apríl til 10. maí en að auki eru fjölmörg próf haldin utan þessara tímabila.
Vinsamlega fylltu þetta eyðublað út ef þú hefur áhuga á að starfa við prófgæsluna. Öllum umsóknum verður svarað.

Doktorsnemar við rannsóknir á umritun og lífeðlisfræði við Lífvísindasetur, Heilbrigðisvísindasvið,Háskóli Íslands

Auglýst er eftir tveimur doktorsnemum vegna verkefna við rannsóknir á umritunarstjórnun í litfrumum og endurnýjun mýelíns. Verkefnin hafa hlotið styrki frá Doktorssjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Verkefnin verða unnin við Lífvísindasetur (http://lifvisindi.hi.is ) innan Læknadeildar Háskóla Íslands. Jafnframt munu doktorsnemarnir vera tengdir við Námsbraut í sameindalífvísindum við Háskóla Íslands. Við Námsbrautina er boðið upp á sameiginlegt framhaldsnám á milli rannsóknarstofa við Háskóla Íslands og stofnanir tengdum honum. Aðalmarkmið námsbrautarinnar er að skapa lifandi og þverfaglegt námsumhverfi jafnframt því að efla rannsóknir og nám í sameindalífvísindum. Lífvísindasetur Háskóla Íslands er samstarfsverkefni rannsóknarhópa í lífvísindum við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Landspítala og býður upp á þverfagleg og alþjóðlegt rannsóknarumhverfi.

Innviðastjóri, Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla íslands

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands leitar að innviðastjóra í fullt starf. Við leitum að einstaklingi með þekkingu og frumkvæði í hóp úrvals starfsfólks sem hefur fagmennsku, góð samskipti og stöðugar umbætur að leiðarljósi. Innviðastjóri ber ábyrgð á málefnum er varða rekstur á aðstöðu til rannsókna, umsjón með tæknifólki, öryggismál rannsókna, gæði, og húsnæði á sviðinu og heyrir undir sviðsforseta. Viðkomandi verður jafnframt hluti af hópstjórateymi sviðsins. Hlutverk innviðastjóra og tæknifólks á sviðinu er að er að efla öryggisvitund, gæðamenningu, og skilvirkni í rekstri rannsóknainnviða í samstarfi við starfsfólk sviðsins. Við Verkfræði- og náttúruvísindasvið starfar afburða vísindafólk sem hefur hlotið alþjóða viðurkenningu fyrir störf sín.

Lektor í gervigreind, Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar starf lektors á sviði gervigreindar (e. machine learning) við Iðnaðar-verkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Lífvísindasetur Háskóla Íslands, doktorsnemi við rannsóknir á áhrifum umritunar á frumusérhæfingu.

Auglýst er eftir metnaðarfullum og drífandi doktorsnema til rannsókna á sameindaferlum og stjórnun umritunar í stofnfrumum úr fósturvísum músa við Háskóla Íslands. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Doktorssjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Verkefnið verður unnin við Lífvísindasetur (http://lifvisindi.hi.is) innan Læknadeildar Háskóla Íslands. Jafnframt munu nemarnir vera tengdir við Námsbraut í sameindalífvísindum við Háskóla Íslands. Við Námsbrautina er boðið upp á sameiginlegt framhaldsnám á milli rannsóknarstofa við Háskóla Íslands og stofnanir tengdum honum. Aðalmarkmið námsbrautarinnar er að skapa lifandi og þverfaglegt námsumhverfi jafnframt því að efla rannsóknir og nám í sameindalíffræði. Námsbrautin býður up á tækifæri í rannsóknum og menntun í örvandi umhverfi fyrir nemendur sem vinna að meistara- eða doktorsgráðu.

Markaðsstjóri Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf markaðsstjóra Félagsvísindasviðs við Háskóla Íslands.

Náms- og starfsráðgjafi - Háskóli Íslands

Við Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (www.hi.is/nshi) er laust til umsóknar fullt starf náms- og starfsráðgjafa. Starfið felur í sér þjónustu við nemendur Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum.

Rannsóknamaður á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Á réttarefnafræðideild/eiturefnafræðideild Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands er laust til umsóknar 80% starf rannsóknamanns. Hærra starfshlutfall kemur einnig til greina.

Sérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindadeild, Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Háskóli Íslands

Laust er fullt starf sérfræðings innan Líf- og umhverfisvísindadeildar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Hér er um að ræða krefjandi og áhugavert verkefni sem unnið er í samstarfi Háskóla Íslands og einkafyrirtækis. Starfið og rannsóknakostnaður er kostað af StofnFiski.

Umsjónaraðili kaffistofa Félagsvísindasviðs, Háskóli Íslands

Félagsvísindasvið auglýsir laust til umsóknar 40% starf umsjónaraðila kaffistofa Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Um er að ræða hlutastarf sem felst í umsjón, frágangi og léttum þrifum á kaffistofum starfsmanna sviðsins auk aðstoðar í tengslum við ýmsa viðburði á sviðinu. Vinnutími er eftir hádegi samkvæmt nánara samkomulagi.

Verkefnastjóri á skrifstofu námsbrauta í geisla- og lífeindafræði, Heilbrigðisvísndasvið, Háskóli Íslands

Laust er til umsóknar 50% starf verkefnastjóra á sameiginlegri skrifstofu námsbrauta í geisla- og lífeindafræði innan Læknadeildar Háskóla Íslands. Um framtíðarstarf er að ræða. Námsbrautirnar eru til húsa í Stapa við Hringbraut 31, steinsnar frá Háskólatorgi og hringiðu háskólasamfélagsins. Við námsbrautirnar starfa á annan tug fastráðinna kennara, auk fjölda stundakennara. Viðkomandi kemur til með að starfa náið með námsbrautarstjórum, kennurum og starfsfólki á skrifstofu Læknadeildar.

Lektor í lífeðlisfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Lífeðlisfræðistofnun, Læknadeild, á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands auglýsir eftir umsóknum um starf lektors í lífeðlisfræði. Leitað er eftir vísindamanni í fremstu röð innan lífeðlisfræði, en æskileg svið sérþekkingar og rannsóknavirkni eru eftirfarandi: útskilnaður og flutningur um þekjuvefi, æxlun, melting, efnaskipti, vöðvar og lífeðlisfræði hjarta og blóðrásar. Hins vegar eru umsækjendur með sérþekkingu og áhuga á öðrum sviðum lífeðlisfræði einnig hvattir til að sækja um stöðuna.

Dósent í sniðlækningum bólgusjúkdóma við Læknadeild Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar 50% starf dósents í sniðlækningum (precision medicine) bólgusjúkdóma við Læknadeild Háskóla Íslands.

Doktorsnemi við Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands

Auglýst er eftir doktorsnema við Raunvísindadeild, Háskóla Íslands vegna verkefnisins: Hitun rafeinda og endurvinnsla jóna í háaflspúlsaðri segulspætu. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Rannsóknasjóði Íslands til þriggja ára.

Doktorsnemi í jarðeðlisfræði, Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Háskóli Íslands

Opið er fyrir umsóknir fyrir starf doktorsnema í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Verkefnið er á sviði rannsókna á jarðskorpuhreyfingum með áherslu á eldvirkni og jarðhita. Aðalleiðbeinandi rannsóknaverkefnisins verður Freysteinn Sigmundsson. Nemandinn verður hluti af rannsóknahóp um jarðskorpuhreyfingar með starfsaðstöðu á Jarðvísindastofnun Háskólans. Starfið er fjármagnað til þriggja ára með sérverkefnum sem tengjast rannsóknasviðinu.

Nýdoktor, Skilningur og framfarir, í vísindum og víðar, Heimspekistofnun, Háskóli Íslands

Háskóli Íslands kallar eftir umsóknum um nýdoktorsstöðu við Heimspekistofnun, Hugvísindasviði, tengt rannsóknaverkefninu, Skilningur og framfarir, í vísindum og víðar (Understanding Progress, in Science and Beyond) sem styrkt er af Rannsóknasjóði (RANNÍS) til þriggja ára. Verkefnislýsing: Meginmarkmið þessa verkefnis er (i) að þróa og rökstyðja nýja heimspekilega kenningu um vísindalegar framfarir skilningskenninguna og (ii) að kanna hvort sambærileg kenning geti átt við um framfarir í heimspekinni sjálfri. Skilningskenningin um framfarir er frábrugðin þeim þremur kenningum um vísindalegar framfarir sem nær öll fræðileg umfjöllun hefur hverfst um, en þær kenningar tengja vísindalegar framfarir ýmist við þekkingu, sannleiksnálgun eða getuna til að takast á við vísindaleg úrlausnarefni. Þetta verkefni mun tengja saman rannsóknir á eðli skilnings annars vegar og framförum í vísindum og heimspeki hins vegar með það að markmiði að þróa heildstæða kenningu um slíkar framfarir á grundvelli skilningshugtaksins. Skilningskenningin kveður í grófum dráttum á um að framfarir í vísindum og heimspeki felist í því að auka skilning okkar á þeim fyrirbærum sem um er að ræða. Þessi kenning var nýlega sett fram sem kenning um vísindalegar framfarir af verkefnisstjóra þessa verkefnis, Finni Dellsén, og verður litið á hana sem vinnutilgátu verkefnisins. Stuðst verður við þekktar aðferðir úr vísindaheimspeki og þekkingarfræði og færð rök fyrir því að þessi heimspekilega kenning um framfarir hafi marga kosti umfram hinar kenningarnar þrjár, svo sem hvað varðar kerfisbindingu vísindalegrar og heimspekilegrar þekkingar, þekkingarfræðilegt gildi skilnings og sá háttur fræðimanna að líta vísvitandi framhjá þáttum sem flækja vísindaleg og heimspekileg líkön. Verkefnisstjóri er Finnur Dellsén (Háskóli Íslands), en Insa Lawler (UNC Greensboro) er meðrannsakandi í verkefninu. Meðal samstarfsaðila í verkefninu eru Alexander Bird (KCL), Henk de Regt (VU Amsterdam), Catherine Elgin (Harvard), Alison Hills (Oxford), Milena Ivanova (Cambridge), Kareem Khalifa (Middlebury), Ilkka Niiniluoto (Helsinki), Daniel Stoljar (ANU) og Michael Strevens (NYU). Nálgast má frekari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu verkefnisins: https://understandprogress.wordpress.com/

Lektor í hjúkrunarfræði með áherslu á hjúkrun gjörgæslusjúklinga við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar 50% starf lektors í almennri hjúkrunarfræði með áherslu á hjúkrun gjörgæslusjúklinga við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hjúkrun gjörgæslusjúklinga er sérgrein í hjúkrun sem miðar að umönnun sjúklinga með bráð og alvarleg veikindi. Hjúkrunarþarfir sjúklinga í gjörgæslu eru flóknar og margþættar og getur áhrifa meðferðar á heilsu sjúklings gætt lengi að lokinni eiginlegri gjörgæslumeðferð. Krafa um þekkingu á langtíma áhrifum flókinnar gjörgæslumeðferðar á heilsu, vellíðan og virkni sjúklinga er vaxandi. Hjúkrun sjúklinga með bráð og alvarleg veikindi og sem þurfa gjörgæslu krefst víðtækrar þekkingar á lífeðlisfræði og sjúkdómafræði auk þekkingar á flóknum tækjabúnaði og að geta unnið undir miklu álagi. Gæði hjúkrunar eru veigamikill þáttur í afturbata eftir áföll og í að vernda og efla lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Umfang heilbrigðisþjónustu þessa skjólstæðingahóps, þ.m.t. útgjöld, er verulegt og til mikils að vinna að lágmarka það. Rannsóknir innan fræðasviðsins á langtímaárangri gjörgæsluhjúkrunar hafa skipt sköpum við að auka gæði hjúkrunar.

Doktorsnemi í efnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands

Efnafræðideild auglýsir laust starf fyrir doktorsnema við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Staðan er fjármögnuð af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Dr. Krishna K Damodaran hefur umsjón með verkefninu.

Doktorsnemi í jarðeðlisfræði, Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Háskóli Íslands

Fullt starf doktorsnema við Háskóla Íslands er laust til umsókna. Starfið er hjá Jarðvísindastofnun og er styrkt til þriggja ára fyrir doktorsnema í jarðeðlisfræði með áherslu á rannsóknir á fornsegulsviði.

Doktorsnemi í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf doktorsnema við Stjórnmálafræðideild. Um er að ræða verkefni á sviði kynjafræði og er verkefnið styrkt til þriggja ára.

Verkefnastjóri við innleiðingu á upplýsingatækni í kennslu við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf verkefnastjóra við innleiðingu á upplýsingatækni vegna kennslu-, prófa- og námsumsjónarkerfa á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Um er að ræða fjölbreytt og spennandi nýtt starf. Verkefnastjórinn mun einkum hafa það hlutverk að styðja háskólakennara og aðra starfsmenn sviðsins í tengslum við innleiðingu námsumsjónarkerfis, sem og við að tileinka sér upplýsingatækni í kennslu, námsmati og prófahaldi. Verkefnastjórinn vinnur náið með kennurum, kennsluþróunarstjóra og öðru starfsfólki á sviði kennslumála.