Skip to main content

Laus störf

Lektor í hjúkrunarfræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í hjúkrunarfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Innan Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands er starfrækt eitt af 14 ICN-vottuðum rannsókna- og þróunarsetrum í heiminum. Markmið setursins er að koma á fót samskiptaneti fyrir hjúkrunarfræðinga, heilbrigðis- og menntastofnanir og aðra hagmunaaðila til að þróa, þýða, dreifa og nota alþjóðleg flokkunarkerfi í hjúkrun (ICNP) í námi, rannsóknum og störfum hjúkrunarfræðinga.

Doktorsnemi í lífefnafræði/sameindalíffræði við Lífvísindasetur Háskóla Íslands

Við leitum að doktorsnema til að vinna að rannsóknaverkefni við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Verkefnið er fjármagnað til þriggja ára og snýr að auðkenningu á starfsemi æðaþels samfara hormónabreytingum. Æðaþelið er örþunnt lag af frumum á innanverðum æðum sem tekur þátt í að miðla bólgusvari líkamans. Skert starfsemi æðaþels er einkenni fjölda sjúkdóma til að mynda COVID-19 en einnig hjarta- og æðasjúkdóma sem eru leiðandi dánarorsök í heiminum. 

Nýdoktor við rannsóknir á hormónasvari æðaþels

Við leitum að nýdoktor til að vinna að rannsóknaverkefni við Lífvísindasetur Háskóla Íslands sem snýr að auðkenningu á starfsemi æðaþels samfara hormónabreytingum í losti. Æðaþelið er örþunnt lag af frumum á innanverðum æðum sem tekur þátt í að miðla blóðstorku og bólgusvari líkamans. Breytt starfsemi æðaþels er fylgifiskur bráðasjúkdóma en einnig hjarta- og æðasjúkdóma sem eru leiðandi dánarorsök í heiminum. Umsækjandi þarf að hafa sterkan grunn í sameindalíffræði og áhuga á fjölþátta gagnaúrvinnslu.

Lektor í frumu- og líffærafræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors á sviði frumu- og líffærafræði við Háskóla Íslands. Um er að ræða samstarf Líf- og umhverfisvísindadeildar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Læknadeildar Heilbrigðisvísindasviðs og verður 50% starfsins við hvora deild.Leitað er að einstaklingi með bakgrunn á sviði frumulíffræði og hefur áhuga á að koma að uppbyggingu kennslu og rannsókna á sviði frumulíffræði og líffærafræði innan líf- og læknavísinda.

Lektor við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild

Laust er til umsóknar 50% starf lektors við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Leitað er að öflugum einstaklingi með góða almenna þekkingu á hjúkrunarfræði, sem mun aðallega koma að kennslu í öldrunar- og heimahjúkrun.

Forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf forstöðumanns við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Félagsvísindastofnun er rannsókna- og fræðastofnun innan Háskóla Íslands. Megin markmið stofnunarinnar hefur frá upphafi verið að annast hagnýtar og fræðilegar rannsóknir sem stuðla að því að styrkja og efla íslenskt samfélag. Stofnunin er öflugur þátttakandi í uppbyggingu rannsóknarinnviða í félagsvísindum og er samstarfsvettvangur rannsókna á Félagsvísindasviði. Stofnunin sinnir jafnframt verkefnum innan háskólans sem utan t.d. með því að framkvæma úttektir og mat á samfélagslegum árangri ýmissa stjórnvaldsaðgerða. Forstöðumaður stýrir stofnuninni og ber ábyrgð á daglegum rekstri hennar, aflar henni verkefna og tekna, annast áætlanagerð, fjármál og starfsmannamál og sér um framkvæmd á þeim málum sem stjórn stofnunarinnar felur honum. Forstöðumaður ber ábyrgð á þeim rannsóknarverkefnum sem stofnunin hýsir, stýrir þeim eftir aðstæðum og er ábyrgur fyrir fagmennsku, framgangi þeirra og skilum.Í boði er mjög áhugavert og krefjandi starf fyrir öflugan einstakling sem vill taka þátt í að leiða stofnunina á komandi árum. 

Störf aðjúnkta II í kennslu íslensku sem annars máls

Laus eru til umsóknar full störf aðjúnkta II við námsbrautina Íslenska sem annað mál við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Mögulegt er að ráðið verði í allt að fjögur störf. Námsbrautin er sú fjölmennasta við Háskóla Íslands en þar eru kennd fjölbreytt málnotkunarnámskeið auk námskeiða á sviði málvísinda, bókmennta og menningar.

Doktorsnemi í faraldsfræði

Leitað er að doktorsnema í faraldsfræði, með áhuga á hnattrænni heilsu, við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild Háskóla Íslands. Staðan er styrkt af Rannís. Doktorsneminn mun taka þátt í rannsóknarverkefni sem hefur hlotið styrk frá Rannís á upplifunum og útkomum unglingsstúlkna og ungra kvenna í Mósambík sem nálgast fyrirbyggjandi lyfjameðferð gegn HIV (PrEP). Í Afríku sunnan Sahara eru unglingsstúlkur og ungar konur sérlega útsettar fyrir HIV, en 75% nýrra smita í aldurshópnum 15-24 ára eru á meðal kvenna. Fyrirbyggjandi HIV lyfjameðferð, PrEP, er mjög árangursrík forvarnaraðferð sem er lykilþáttur í alþjóðlegri baráttu við faraldurinn, en hefur þó reynst misvel á meðal kvenna í Afríku. Misjafn árangur skýrist einkum af því að brottfall úr meðferð er hátt og meðferðarheldni misgóð.HIV faraldurinn í Mósambík er einn af tíu alvarlegustu faröldrum heims, en 13.2% fullorðinna eru HIV smituð. Í þessu verkefni munum við lýsa núverandi stöðu í PrEP meðferð í Manica héraði í Mósambík, PrEP meðferðarferli, brottfalli og helstu flöskuhálsum. Við munum gera ferilrannsókn á unglingsstúlkum og ungum konum sem eru að hefja PrEP meðferð og bera kennsl á einstaklingsbreytur sem eru tengdar brottfalli úr meðferð; lýsa reynslu heilbrigðisstarfsfólks af PrEP þjónustu, og safna frumgögnum til að undirbúa inngripsrannsókn á gæðabetrunarinngripi í PrEP þjónustu.

Doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Umhverfis- og byggingarverkfræðideild er með laust fullt starf doktorsnema í umhverfisfræði vegna verkefnisins "Íslenskt móberg bjargar heiminum?". Verkefnið hefur verið fjármagnað til 2,5 ára en sækja þarf um auka fjárveitingu fyrir síðustu 6 mánuðunum á meðan verkefninu stendur.

Aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf aðjúnkts við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í tómstunda- og félagsmálafræði. Í starfinu felst kennsla, rannsóknir og þátttaka í áframhaldandi mótun náms í tómstunda- og félagsmálafræði.  Sérstaklega er leitað eftir fólki með menntun, reynslu og sérþekkingu á einu eða fleirum af eftirfarandi sviðum: Fagþróun og fagmennsku á vettvangi tómstunda og æskulýðsstarfs, jafnréttismál og jaðarsettir hópar, grasrótarhreyfingar, stjórnun og stefnumótun.