Skip to main content

Laus störf

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs

Háskóli Íslands leitar að öflugum leiðtoga fyrir Heilbrigðisvísindasvið sem er eitt af fimm fræðasviðum háskólans. Forseti Heilbrigðisvísindasviðs starfar í umboði rektors. Hann er æðsti yfirmaður og akademískur leiðtogi fræðasviðsins og stjórnar daglegri starfsemi þess. Með forseta fræðasviðs starfar öflugt teymi stjórnenda og sérfræðinga. Ráðið verður í starfið til fimm ára. Á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglur sem háskólaráð hefur sett getur rektor ákveðið að framlengja ráðningu forseta fræðasviðs til fimm ára í senn. Forseti fræðasviðs er ráðinn af rektor að fenginni umsögn sérstakrar nefndar um ráðninguna.

Sérfræðingur í stærðfræðilegri eðlisfræði

Laust er til umsóknar fullt starf sérfræðings í stærðfræðilegri eðlisfræði við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans.

Lektor í hjúkrunarfræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í hjúkrunarfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Innan Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands er starfrækt eitt af 14 ICN-vottuðum rannsókna- og þróunarsetrum í heiminum. Markmið setursins er að koma á fót samskiptaneti fyrir hjúkrunarfræðinga, heilbrigðis- og menntastofnanir og aðra hagmunaaðila til að þróa, þýða, dreifa og nota alþjóðleg flokkunarkerfi í hjúkrun (ICNP) í námi, rannsóknum og störfum hjúkrunarfræðinga.

Nýdoktor við Heimspekistofnun

Háskóli Íslands kallar eftir umsóknum um starf nýdoktors við Heimspekistofnun, Hugvísindasviði, tengt rannsóknaverkefninu Samræðutegundir sem styrkt er af Rannsóknasjóði (RANNÍS). Starfið er til tveggja ára.Samræðutegundir er þriggja ára rannsóknarverkefni sem hýst er við Háskóla Ísland. Tilgangur verkefnisins er að þróa nýja kenningu um ólíkar tegundir samræðna í því skyni að útskýra áhrif þeirra á rétta túlkun málgjörða. Verkefnið er þverfræðilegt og byggir á kenningum og gögnum úr málvísindum, sálfræði, hugfræði og heimspeki. Sérstök áhersla verður lögð á tilraun til að samræma almennt viðurkenndar hugmyndir úr formlegri merkingarfræði og heimspekilegri athafnafræði við gögn úr félagslegum málvísindum og túlkun þeirra.Leiðtogi verkefnisins er Elmar Unnsteinsson (Háskóla Íslands og University College Dublin). Verkefnisstjóri er Daniel W. Harris (CUNY Graduate Center og Hunter College). Meðal annarra samstarfsaðila eru Ethan Nowak, Henry Schiller, Jessica Keiser, Sam Berstler, Nat Hansen og Sarah Fisher.

Doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Laust er til umsóknar starf doktorsnema við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Starfið tengist samvinnuverkefni Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sem snýr að byggingareðlisfræði og burðarþoli íslenskra torfbæja með það að markmiði að auka skilvirkni og árangur af viðhaldi og bæta varðveislu þeirra. Viðkomandi þarf að hafa áhuga á hita- og rakaeiginleikum efna, mælingum og gagnaúrvinnslu ásamt því að hafa áhuga á byggingararfi og varðveislu bygginga. Verkefnið er styrkt til þriggja ára af Rannsóknasjóði Rannís (www.rannis.is).

Nýdoktor í tölfræði við Lífvísindasetur

Við leitum að áhugasömum nýdoktor til að vinna að rannsóknaverkefni við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Verkefnið er fjármagnað til þriggja ára og verður unnið á rannsóknastofu Eiríks Steingrímssonar. Nýdoktorinn mun starfa innan framhaldsnáms í sameindalífvísindum við Háskóla Íslands, sem er sameiginlegt nám rannsóknahópa við Háskóla Íslands og rannsóknastofnana tengdum háskólanum og mun því tilheyra hvetjandi, þverfræðilegri námsleið á sviði sameindalífvísinda.  

Lektor í leikskólafræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í leikskólafræði við Deild kennslu- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Meðal viðfangsefna lektorsins verða kennsla, bæði á staðnum og í gegnum fjarkennslubúnað, og rannsóknir í menntunarfræði yngri barna, með áherslu á fjölmenningu, læsi í leikskóla eða samstarf heimilis og leikskóla. 

Doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar starf til þriggja ára fyrir doktorsnema á sviði kennaramenntunar. Viðfangsefni nemans verður að vinna við rannsóknina Monitoring and improving teacher education sem styrkt er af Rannsóknarsjóði. Tilgangur verkefnisins er að kanna með heilstæðum hætti inntak grunnskólakennaranáms á Íslandi. Verkefnið á að veita mikilvæga sýn á undirbúning kennara á landsvísu, sem og að þróa og meta aðferðir í kennaramenntun sem tengja saman fræði og starf með árangursríkum hætti. Nemandinn mun vinna undir leiðsögn dr. Kirsti Klette, prófessors við Háskólann í Osló og dr. Berglindar Gísladóttur, lektors við Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Lektor í plöntulíffræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors á sviði plöntulíffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.Leitað er að einstaklingi með bakgrunn í rannsóknum á sviði plöntulíffræði og áhuga á að koma að menntun líffræðinema.

Aðjúnkt í stjórnun menntastofnana við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf aðjúnkts til tveggja ára við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í stjórnun menntastofnana. Meginviðfangsefni eru kennsla og rannsóknir í menntastjórnun með áherslu á skólastjórnun, faglega forystu og/eða starfstengda leiðsögn.  Starfsskyldur aðjúnktsins felast í kennslu, rannsóknum og stjórnun. 

Lektor í kennslufræði yngri barna og læsis með áherslu á lestrar- og ritunarkennslu

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í kennslufræði yngri barna og læsis með áherslu á lestrar- og ritunarkennslu, við Deild kennslu- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Meðal viðfangsefna lektorsins verða kennsla og rannsóknir í  kennslufræði yngri barna; læsis með áherslu á lestrar- og ritunarkennslu; samþætting námsgreina á yngsta stigi og skapandi kennsluhættir.

Dósent í örveru- og sýklafræði

Laust er til umsóknar 60% starf dósents á sviði örveru- og sýklafræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.Um er að ræða samstarfsverkefni milli Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar og Læknadeildar í því skyni að auka þverfræðilega samvinnu innan sviðsins. 

Dósent í bæklunarskurðlækingum

Laust er til umsóknar 50% starf dósents á fræðasviði bæklunarskurðlækninga við Læknadeild Háskóla Íslands. Starfið felur í sér kennslu og rannsóknir, auk stjórnunarskyldu.Forsenda fyrir ráðningu í starf dósents er að viðkomandi sé í starfi, eða muni hefja störf á árinu, sem sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum á Landspítala og hafi þar aðstöðu til að sinna klínískri kennslu læknanema.

Doktorsnemi í lífrænni efnafræði

Laust er til umsóknar starf doktorsnema í lífrænni efnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Verkefnið er styrkt til þriggja ára af Rannsóknasjóði Rannís. Við leitum að áhugasömum doktorsnema til að smíða stakeindir, annars vegar til innleiðingar í kjarnsýrur og hins vegar til að auka næmni kjarnsegulgreininga.

Lektor í stefnu- og stjórnunarfræðum menntastofnana við Deild menntunar og margbreytileika Menntavísindasviðs Háskóli Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf  lektors í stefnu- og stjórnunarfræðum menntastofnana við Deild menntunar og margbreytileika Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Í starfinu felst kennsla, rannsóknir og áframhaldandi uppbygging náms fyrir leiðtoga, stjórnendur og stefnumótendur í menntakerfinu öllu.  

Doktorsnemi í eðlisfræði

Laust er til umsóknar starf doktorsnema í eðlisfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Starfið er á sviði segulmetaefna og er styrkt til þriggja ára af Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs.

Doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Auglýst er eftir doktorsnema til að taka þátt í rannsóknarverkefni sem nýlega hlaut styrk frá Rannsóknasjóði. Markmiðið með rannsókninni er að fá innsýn í reynslu kennara af hegðunarstjórnun og meta áhrif handleiðslu í bekkjarstjórnun á nám, hegðun og líðan grunnskólanemenda sem og líðan og starfsánægju kennara. Notuð verður áfallamiðuð nálgun og gagnreyndar aðferðir sem hafa sýnt fjölþætt jákvæð áhrif, bæði á nemendur og kennara, sem og langtíma fyrirbyggjandi áhrif á fíkniefnanotkun, geðrænan vanda og brottfall úr skóla hjá nemendum í áhættuhópum. Við gagnaöflun verða notaðar fjölbreyttar aðferðir, bæði eigindlegar og megindlegar. Rannsóknarverkefnið er unnið af teymi rannsakenda við Háskóla Íslands í samstarfi við innlenda og erlenda fagaðila. Stjórnandi verkefnisins er dr. Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor og meðal samstarfsaðila eru dr. Erlingur Jóhannesson, prófessor og dr. Margrét Sigmarsdóttir, dósent, öll við Menntavísindasvið HÍ. Fengist hefur styrkfé til að ráða tvo doktorsnema í fullt starf til þriggja ára.

Rannsóknamaður, Talmeinafræði

Við námsleið í talmeinafræði er laust til umsóknar 70% starf rannsóknamanns. Um er að ræða tímabundið starf (20 mánuðir) við skimunarlistann LANIS. LANIS skimunartækið er verkfæri sem er ætlað fyrir leikskólakennara og foreldra til að kanna málfærni þriggja ára barna. Listinn hefur verið í þróun um nokkurt skeið og liggur fyrir að staðla listann og reikna skimunarnákvæmni hans.

Forstöðumaður Vigdísarstofnunar - alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, Háskóla Íslands

Vigdísarstofnun - alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar auglýsir starf forstöðumanns til umsóknar, sem jafnframt er starf akademísks sérfræðings. Miðað er við 100% starfshlutfall, þar af 70-80% rannsóknarskylda og 20-30% stjórnun eftir nánara samkomulagi. Stofnunin heyrir undir Hugvísindasvið og starfar undir merkjum UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og er rekin á grundvelli sérstaks fjárframlags skv. samstarfsamningi ríkisstjórnarinnar og UNESCO. Forstöðumaður sinnir starfi sínu frá aðsetri stofnunarinnar. Innan miðstöðvarinnar er staðið fyrir rannsóknum og margs konar miðlun og fræðslu um tungumál í víðu samhengi, sem þjóna markmiðum sem koma fram í samningi ríkisstjórnar Íslands og UNESCO. Samkvæmt samningnum eru helstu markmiðin að:Stuðla að fjöltyngi til að auka skilning, samskipti og virðingu milli menningarheima og þjóða.Auka vitund um mikilvægi tungumála sem grunnþáttar í menningararfleifð mannkyns.Stuðla að þýðingum og þýðingarannsóknum.Vinna að varðveislu tungumála og vöktun á málstefnu og málstýringu á sviði tungumála með fjöltyngi að leiðarljósi.Styðja við og stuðla að rannsóknum á móðurmálum sem hluta af almennum mannréttindum.Helstu áherslur í starfi Vigdísarstofnunar fyrsta áratug starfseminnar hafa verið þátttaka í Alþjóðlegum áratug frumbyggjamála (SÞ), bókmenntir, tungumál og menning Rómafólks víða um heim, vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum, þátttaka í Heimskorti tungumála á vegum UNESCO og sýningahald. 

Tvö störf nýdoktora í eðlisfræði

Laus eru til umsóknar tvö störf nýdoktora (postdoc) í eðlisfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Störfin eru á sviði segulmetaefna og eru styrktar til allt að tveggja ára af Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs.

Doktorsnemi í listfræðum við Hugvísindasvið

Háskóli Íslands kallar eftir umsóknum um starf doktorsnema við Hugvísindasvið, tengt þróunarverkefninu: Þróun doktorsnáms í listum og listfræði, sem styrkt er af háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu. Styrkurinn er til tveggja ára. 

Doktorsnemi í lífefnafræði/sameindalíffræði við Lífvísindasetur Háskóla Íslands

Við leitum að doktorsnema til að vinna að rannsóknaverkefni við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Verkefnið er fjármagnað til þriggja ára og snýr að auðkenningu á starfsemi æðaþels samfara hormónabreytingum. Æðaþelið er örþunnt lag af frumum á innanverðum æðum sem tekur þátt í að miðla bólgusvari líkamans. Skert starfsemi æðaþels er einkenni fjölda sjúkdóma til að mynda COVID-19 en einnig hjarta- og æðasjúkdóma sem eru leiðandi dánarorsök í heiminum. 

Húsasmiður við bygginga- og tæknideild

Á bygginga- og tæknideild við framkvæmda- og tæknisvið Háskóla Íslands er laust til umsóknar fullt starf húsasmiðs. Bygginga- og tæknideild hefur umsjón með endurbótum og viðhaldi bygginga Háskóla Íslands. Hjá deildinni starfar fagfólk í fullu starfi í ýmsum faggreinum s.s. smíði, rafvirkjun, málaraiðn og garðyrkju. Næsti yfirmaður húsasmiðs er deildarstjóri bygginga- og tæknideildar. 

Nýdoktor við rannsóknir á hormónasvari æðaþels

Við leitum að nýdoktor til að vinna að rannsóknaverkefni við Lífvísindasetur Háskóla Íslands sem snýr að auðkenningu á starfsemi æðaþels samfara hormónabreytingum í losti. Æðaþelið er örþunnt lag af frumum á innanverðum æðum sem tekur þátt í að miðla blóðstorku og bólgusvari líkamans. Breytt starfsemi æðaþels er fylgifiskur bráðasjúkdóma en einnig hjarta- og æðasjúkdóma sem eru leiðandi dánarorsök í heiminum. Umsækjandi þarf að hafa sterkan grunn í sameindalíffræði og áhuga á fjölþátta gagnaúrvinnslu.

Aðjúnkt við Námsbraut í sjúkraþjálfun

Laust er til umsóknar 65% starf aðjúnkts við Námsbraut í sjúkraþjálfun. Ráðið verður í starfið til tveggja ára.Starfskyldur aðjúnktsins skiptast í kennslu, rannsóknir og stjórnun. Aðjúnktinum er einkum ætlað að sjá um skipulagningu og kennslu námskeiða á sviði hreyfivísinda, aðferðafræði rannsókna, og rafmagnsfræði, auk þess að taka virkan þátt í starfsemi námsbrautarinnar með sérstaka áherslu á kennslufræði.

Lektor í frumu- og líffærafræði

Laust er til umsóknar fullt starf lektors á sviði frumu- og líffærafræði við Háskóla Íslands. Um er að ræða samstarf Líf- og umhverfisvísindadeildar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Læknadeildar Heilbrigðisvísindasviðs og verður 50% starfsins við hvora deild.Leitað er að einstaklingi með bakgrunn á sviði frumulíffræði og hefur áhuga á að koma að uppbyggingu kennslu og rannsókna á sviði frumulíffræði og líffærafræði innan líf- og læknavísinda.

Lektor við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild

Laust er til umsóknar 50% starf lektors við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Leitað er að öflugum einstaklingi með góða almenna þekkingu á hjúkrunarfræði, sem mun aðallega koma að kennslu í öldrunar- og heimahjúkrun.

Nýdoktorasjóður Háskóla Íslands 2024

Háskóli Íslands auglýsir nýdoktorastörf sem ætluð eru þeim sem hafa lokið doktorsprófi á síðastliðnum sjö árum (janúar 2018 og síðar) og þar með talin þau sem koma til með að ljúka doktorsprófi fyrir 1. júlí 2024. Tekið er tillit til veikinda og fæðingarorlofs við mat á tíma að loknu doktorsprófi. Styrkirnir verða veittir til allt að þriggja ára.Sérstök úthlutunarnefnd skipuð af rektor annast mat, forgangsröðun umsókna og úthlutun. Í úthlutunarnefnd situr einn fulltrúi frá hverju fræðasviði, ásamt formanni sem skipaður er af rektor án tilnefningar. 

Doktorsnemi í eðlisfræði

Laust er til umsóknar starf doktorsnema í eðlisfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Staðan er á sviði eðlisfræði hálfleiðara og rafeindatækni og er styrkt til þriggja ára af Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs.

Móttöku- og upplýsingastjóri Loftskeytastöðvarinnar

Laust er til umsóknar starf móttöku- og upplýsingastjóra Loftskeytastöðvarinnar. Ásamt því að vera vettvangur sýningarinnar ,,Ljáðu mér vængi. Ævi og störf Vigdísar Finnbogadóttur" er Loftskeytastöðin menningarhús sem mun starfa í anda Vigdísar Finnbogadóttur. Um hlutastarf er að ræða, 50-70% eftir samkomulagi.