Skip to main content

Fyrir kennara

Óski nemandi eftir sértækum úrræðum í námi þarf hann að hafa samband við Nemendaráðgjöf HÍ, afhenda tilskilin gögn frá sérfræðingi og ganga frá skriflegu samkomulagi (samningi) um úrræði. Ganga þarf frá slíkum samningi fyrir 1. október til að fá úrræði í prófum á haustmisseri og fyrir 1. mars til að fá úrræði í prófum á vormisseri.  

Samningurinn er undirritaður bæði af nemanda og ráðgjafa og nemandi fær afrit af samningnum. Nemandi er hvattur til þess að skanna samninginn inn eða taka góða mynd af honum í síma til að eiga hann einnig á rafrænu formi.

Í samningi kemur fram hvaða úrræði það eru sem nemandi þarfnast. Nemandi getur þurft að sýna kennara samninginn vegna úrræða í hlutaprófum sem eru á vegum kennara/deildar, heimaprófa og vegna úrræða sem krefjast samþykkis kennara s.s. óska um sveigjanleika á verkefnaskilum eða upptöku fyrirlestra.

NHÍ tryggir úrræði í prófum sem eru á vegum prófstjórnar í samvinnu við prófaskrifstofu. Haldi kennari hlutapróf eða heimapróf á eigin vegum er það í höndum deilda og kennara að tryggja umsamin úrræði. NHÍ er kennurum innan handar varðandi ráðgjöf við veitingu sértækra úrræða.

NHÍ veitir ekki úrræði í námi og/eða prófum vegna erlends móðurmáls. Nemendur með erlent móðurmál þurfa að leita til kennara/deilda vegna úrræða í námi og/eða prófum. 

Um það bil 10% nemenda við Háskóla Íslands eru með samninga um sértæk úrræði í námi. Samningur um úrræði getur verið tímabundinn (til eins misseris eða eins skólaárs) eða ótímabundinn (gildir á meðan viðkomandi einstaklingur stundar samfellt nám við skólann).

Úrræði geta verið af ýmsum toga en þau úrræði sem kalla á samþykki kennara og/eða samvinnu við hann eru t.d.: 

Hljóðritun fyrirlestra:
Þá óskar nemandi eftir að taka upp fyrirlestra/kennslustundir með leyfi viðkomandi kennara. Nemandi útvegar sjálfur upptökutæki. 

Myndataka af töflu/skjá:
Þá óskar nemandi eftir leyfi viðkomandi kennara fyrir því að taka mynd af töflu eða skjá í kennslustundum. 

Sveigjanleiki í verkefnaskilum:
Ef nemandi nær ekki, vegna fötlunar og/eða veikinda, að skila verkefnum á tilsettum tíma getur hann með góðum fyrirvara óskað eftir því að kennari veiti viðbótarfrest á verkefnaskilum. 

Undanþága frá mætingarskyldu:
Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi á erfitt eða ómögulegt með að standast kröfur kennara um mætingarskyldu getur hann óskað eftir undanþágu frá slíku.

Undanþága frá munnlegum verkefnaskilum:
Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi er ófær um að flytja verkefni munnlega getur nemandinn óskað eftir því við kennara að fá að skila verkefni með öðrum hætti.

Hópverkefni breytt í einstaklingsverkefni:
Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi á erfitt með að vinna í hópi getur nemandi óskað eftir því við kennara að fá að skila einstaklingsverkefnum.

Breytt prófform:
Ef ljóst er að fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemanda er ókleift að þreyta próf með hefðbundnum hætti má óska eftir breyttu prófformi hjá kennara og deild. Úrræðið er afar fátítt og fyrir því þurfa að vera skýrar og vel rökstuddar ástæður.

NHÍ býður kennurum og öðru starfsfólki HÍ upp á stutta kynningarfundi um veitingu sértækra úrræða í námi sé þess óskað. 

Ráðgjafarnir Ástríður Margrét EymundsdóttirHrafnhildur V. Kjartansdóttir og Þrúður Kristjánsdóttir halda utan um málefni nemenda með sértæk úrræði í námi sem og Magnús M Stephensen skrifstofustjóri og Inga Birna Albertsdóttir verkefnisstjóri.

Reglur um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands.