Skip to main content

Gæðastefna Háskóla Íslands

Samþykkt á háskólaþingi 14. apríl og í háskólaráði 7. júní 2018

Almennt

 • Við Háskólann er stunduð frjáls þekkingarleit og vísindastarf þar sem siðareglur vísinda eru hafðar í heiðri.
 • Markmið Háskólans er að mennta fólk, sem er hæft til að takast á við áskoranir samtímans, og byggja upp öflugt háskólasamfélag þar sem unnið er markvisst að varðveislu, öflun og miðlun þekkingar.
 • Öllu starfsfólki og nemendum ber skylda til að rækta og styðja við gæðamenningu sem grundvallast á gildum Háskóla Íslands og stuðla þannig að gæðum náms, rannsókna og þeirrar þjónustu sem háskólafólk veitir samfélaginu í krafti þekkingar sinnar.
 • Starfsfólk Háskólans nálgast öll sín verk með stöðugar umbætur í huga til þess að tryggja skilvirkt, nútímalegt og hvetjandi lærdómsumhverfi sem og frjótt vinnuumhverfi.
 • Háskólinn þjónar íslensku samfélagi og tekur jafnframt mið af alþjóðlegum straumum og stefnum.
 • Háskólinn leitast við að ráða hæfustu einstaklingana til starfa og stuðla að nýliðun þannig að jafnvægi ríkir í aldursdreifingu akademískra starfsmanna.

Nám og kennsla

 • Nám við Háskólann byggist á grunngildum skólans og skal auk þess vera hvetjandi, krefjandi, takast á við áskoranir samtímans, uppfylla gæðakröfur og vera vel skipulagt.
 • Kennarar miða framsetningu og kennsluaðferðir við þarfir nemenda og hvetja til heilinda, þar sem ítrustu kröfum um fræðileg vinnubrögð er fylgt.
 • Nemendur njóta menntunar sem uppfyllir kröfur íslensks samfélags og stenst alþjóðleg viðmið og gæðakröfur.
 • Kennarar og nemendur eru virkir í að þróa og endurskoða námið í samræmi við viðmið og kröfur Háskólans.
 • Inntak námsleiða endurspeglar nýjustu þekkingu úr alþjóðlega viðurkenndum rannsóknum. Námið samþættir rannsóknir og kennslu á markvissan hátt og leitast við að mæta þeim áskorunum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma.
 • Námsleiðir eru þróaðar, eftir því sem við á, í nánu samstarfi við þátttakendur í atvinnulífinu.

Rannsóknir

 • Háskólinn stuðlar að því að rannsóknir séu í takt við samfélagslegar þarfir og áskoranir samtímans.
 • Rannsakendur beita vísindalega viðurkenndum aðferðum á viðfangsefni sín.
 • Háskólinn styður að afurðir vísindarannsókna, þar með talin gögn og rannsóknarniðurstöður, séu gerðar aðgengilegar öllum með hjálp upplýsingatækninnar. Niðurstöður rannsókna skal birta á viðurkenndum vísindavettvangi.
 • Háskólinn stuðlar að því að niðurstöður rannsókna birtist á viðeigandi vettvangi og skili umbótum í samfélaginu.
 • Háskólinn hvetur til samstarfs akademískra starfsmanna, bæði innanlands og utan, svo og til myndunar rannsóknarhópa sem fást við skýr og þverfræðileg rannsóknarviðfangsefni. Háskólinn leitar leiða til þess að allt akademískt starfsfólk fái notið sín í rannsóknum og hvetur starfsmenn til þess að hjálpast að.

Innviðir

 • Háskólinn hefur skýra stefnu um uppbyggingu innviða, sem styður við stefnu hans í kennslu og rannsóknum, og gerir starfsfólki kleift að stunda framúrskarandi rannsóknir.
 • Innviðir uppfylla lögbundnar skyldur og kröfur og miðast við fyrirmyndar starfshætti.
Tengt efni