Tilgangur sjóðsins er að styðja við og efla doktorsnám við Háskóla Íslands. Nýjum styrkjum úr doktorssjóðum Háskóla Íslands, Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, fylgir ráðstöfunarfé úr Doktorssjóði Styrktarsjóða Háskóla Íslands til reksturs doktorsverkefna styrkþega. Styrkfjárhæð er háð ávöxtun Doktorssjóðs Styrktarsjóða Háskóla Íslands og er styrkur greiddur til styrkþega á formi eingreiðslu, samhliða fyrstu styrkgreiðslu úr doktorssjóðum háskólans. Vísinda- og nýsköpunarsvið og Miðstöð framhaldsnáms hafa umsjón með sjóðnum og annast úthlutun styrkja í umboði stjórnar hans. Sjóðurinn heitir Doktorssjóður Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Sjóðurinn er stofnaður við sameiningu sjóða sem ekki hafa verið virkir um árabil, tengjast ekki ákveðnum fræðasviðum og/eða deildum í Háskóla Íslands og heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands ásamt peningagjöfum. Stjórn sjóðsins Stjórn sjóðsins skipa: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og formaður stjórnar Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri Miðstöðvar framhaldsnáms Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Doktorssjóð Styrktarsjóða Háskóla Íslands 1. grein Nafn sjóðs og uppruni Sjóðurinn heitir Doktorssjóður Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Sjóðurinn er stofnaður við sameiningu sjóða sem ekki hafa verið virkir um árabil, tengjast ekki ákveðnum fræðasviðum og/eða deildum í Háskóla Íslands og heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands ásamt peningagjöfum. 2. grein Heimilisfang Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. 3. grein Tilgangur sjóðsins og styrkir Tilgangur sjóðsins er að styðja við og efla doktorsnám við Háskóla Íslands. Nýjum styrkjum úr doktorssjóðum Háskóla Íslands, Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, fylgir ráðstöfunarfé úr Doktorssjóði Styrktarsjóða Háskóla Íslands til reksturs doktorsverkefna styrkþega. Styrkfjárhæð er háð ávöxtun sjóðsins og er styrkur greiddur til styrkþega í formi eingreiðslu, samhliða fyrstu styrkgreiðslu úr doktorssjóðum háskólans. Vísinda- og nýsköpunarsvið og Miðstöð framhaldsnáms hafa umsjón með sjóðnum og annast úthlutun styrkja í umboði stjórnar hans. 4. grein Stofnandi sjóðsins Sjóðurinn er sameinaður sjóður eftirtalinna sjóða sem stofnaðir voru undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands: Sjóðasafn Háskóla Íslands Gjafasjóður Guðmundar J. Andréssonar gullsmiðs Gjöf Gunnar Th. Bjargmundssonar Framfarasjóður B. H. Bjarnasonar kaupmanns Gjöf Soffíu Jónsdóttur Sörensen Háskólasjóður Stúdentafélags Reykjavíkur Gjafasjóður Guðmundar Thorsteinssonar Styrktarsjóður Ragnheiðar Jónsdóttur Minningarsjóður Theódórs Johnson 5. grein Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnframlag sjóðsins er eign þeirra sjóða sem nefndir eru í 4. grein og er stofnfé sjóðsins 210 milljónir. Sjóðurinn tekur við gjöfum og framlögum. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingarstefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands, að öðru leyti en getið er um í 1. mgr. Ef stjórn ákveður að greiða ekki út styrki bætast þeir fjármunir sem lausir voru til styrkveitingar það ár við þá sem lausir eru til ráðstöfunar árið eftir. 6. grein Stjórn Rektor Háskóla Íslands skipar þriggja manna stjórn til þriggja ára í senn. Við skipun stjórnar skal taka mið af tilgangi sjóðsins. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnin skipar sjálf með sér verkum og velur sér formann og ritara. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. 7. grein Fundarboðun Formaður stjórnar skal boða til stjórnarfunda. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningu á honum í samstarfi við Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Stjórnin tekur ákvörðun um fjárhæð styrkja. Stjórnin hefur eftirlit með ráðstöfun og meðferð fjármuna og fer yfir ársreikning sjóðsins. Stjórnin setur sér nánari starfsreglur innan ákvæða skipulagsskrár, svo sem um veitingu styrkja. Starfsreglur sjóðsins skulu endurskoðaðar reglulega og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Sjóðsstjórn heldur fundargerðabók og skilar fundargerðum til Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. 8. grein Umsýsla og endurskoðun sjóðsins Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur Styrktarsjóða Háskóla Íslands, kjörnir af háskólaráði. Reikningar sjóðsins skulu birtir með sama hætti og aðrir sjóðir í vörslu Háskólans. 9. grein Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður, eða gera breytingar á tilgangi hans, af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Sé tekin slík ákvörðun skal hún borin undir sýslumann Norðurlands vestra. Verði sjóðurinn lagður niður skulu fjármunir hans renna til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. 10. grein Sjóðir sem eru lagðir niður og voru með staðfesta skipulagsskrá Við staðfestingu skipulagsskrár þessarar eru lagðir niður eftirtaldir sjóðir: Sjóðasafn Háskóla Íslands. Stjt. 221/1975 Gjafasjóður Guðmundar J. Andréssonar gullsmiðs. Stjt. 245/1969 Framfarasjóður B. H. Bjarnasonar kaupmanns. Stjt. 110/1935 Háskólasjóður Stúdentafélags Reykjavíkur. Stjt. 764/1982 Gjafasjóður Guðmundar Thorsteinssonar. Stjt. 105/1951 Minningarsjóður Theódórs Johnson. Stjt. 307/1980 Reykjavík, 13. september 2018. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumanns Norðurlands vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988 facebooklinkedintwitter