Skip to main content

Hvað er sjálfbærni?

Hvað er sjálfbærni og hvernig ætlar Háskóli Íslands að stuðla að því að hún verði gerð að markmiði innan og utan skólans?

Efnahagur - samfélag - náttúraÁður en sjálfbærnihugtakið kom til sögunnar var gjarnan litið svo á að hinn efnahagslegi grunnur væri það sem mestu máli skipti. Rækjust hagsmunir samfélags og náttúru á við hagræn sjónarmið yrðu þeir að víkja.

Efnahagur - samfélag - náttúraÍ Brundtland-skýrslunni, sem kom út 1987, er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum.“ Áherslan er á að sjónarmið samfélags og náttúru standi jafnfætis þeim efnahagslegu.

Efnahagur - samfélag - náttúraMeð heilsteyptari skilningi á sjálfbærni er lögð áhersla á að efnahagslíf og samfélag séu hluti af lokuðu kerfi. Vöxtur getur ekki farið út fyrir þau endanlegu takmörk sem náttúran setur. Auðlindir eru takmarkaðar og getu umhverfisins til að viðhalda lífsnauðsynlegum ferlum verður því auðveldlega raskað.

Almennt er nú viðurkennt að núverandi framganga mannsins á jörðinni beri skýr merki ósjálfbærni. Hugmyndir fólks í ríkari hlutum heimsins um „hið góða líf“ hafa leitt til neyslu sem er langt umfram það sem jörðin getur staðið undir. Þótt hluti mannkyns noti auðlindir og umhverfi jarðar í óhófi bera aðrir skarðan hlut frá borði. Verkefni jarðarbúa felst í því að breyta hugsun sinni og athöfnum þannig að takmörk náttúrunnar séu virt bæði í orði og verki. Í þessu felst kjarni hugtaksins sjálfbærni.

Hið góða lífSjálfbærni er víðfeðmt hugtak. Það snertir ekki einvörðungu umhverfismál heldur einnig félagslegt réttlæti, heilsu og velferð, menningarmál og efnahagslíf. Að baki því býr vitund um þau takmörk sem náttúran setur umsvifum fólks. Einnig felst í hugtakinu viðurkenning á því að mannkyn allt stendur frammi fyrir flóknu samfélagslegu verkefni ef takast á að sætta hugmyndir fólks og væntingar um „hið góða líf“ við takmörk náttúrunnar. 

Háskóli Íslands getur stuðlað að aukinni sjálfbærni með þrennum hætti: Í fyrsta lagi stuðlar þekkingarleitin sjálf og starf kennara og nemenda innan skólans að sjálfbærni. Í öðru lagi gegnir skólinn mikilvægu hlutverki í að tengja vísindalega þekkingu við samfélagið á ábyrgan hátt. Í þriðja lagi getur skólinn lagt sitt af mörkum með því að huga að sínu eigin skipulagi, rekstri og heildarstefnu. 

Sem öflug og alhliða rannsóknastofnun getur Háskóli Íslands aukið við þekkingu og skilning á sviði sjálfbærni á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Öll fimm fræðasvið háskólans koma þar við sögu. Nú þegar má finna fjölbreytt viðfangsefni af þessu tagi í rannsóknum og kennslu við skólann. Menntun og rannsóknir á sviði sjálfbærrar þróunar kalla oft á þverfræðilega nálgun og samvinnu um leið og dýpt og sérþekking er sótt í einstakar fræðigreinar á öllum fræðasviðum.

Akademísku frelsi til rannsókna fylgir siðferðileg ábyrgð gagnvart náttúru og íbúum landsins og gagnvart jörðinni allri og jarðarbúum. Í ljósi þess að skilningur á sjálfbærnihugtakinu er enn í mótun, þekking á sjálfbærni eykst og nýjar upplýsingar koma fram í sífellu, þurfa háskólaborgarar að vega og meta val sitt á viðfangsefnum. 

Þýðingarmikið er að niðurstöður vísindarannsókna á sviði sjálfbærni finni sér farveg utan veggja Háskóla Íslands þannig að skólinn og samfélagið geti unnið saman á markvissan og árangursríkan hátt. Starfsfólki og nemendum ber siðferðileg skylda til að taka þátt í verkefnum, umræðu og stefnumótun um sjálfbærni á Íslandi og á alþjóðavísu.